Einn dagur í Tónkvísl – Undirbúningur

Tónkvíslin er tónlistarhátíð Framhaldsskólans á Laugum og hefur verið haldin í tengslum við undankeppni Söngkeppni framhaldsskólanna. Tónkvíslin er haldin í 12. sinn og var ákveðið að halda hana í ár þrátt fyrir að Söngkeppni framhaldsskólanna verði ekki haldin þetta árið og því er Tónkvíslin eina söngkeppni framhaldsskólanna sem sýnd er í sjónvarpi í ár. Sýningin verður í beinni útsendingu á N4, á morgun, laugardagskvöld kl. 19.30 og fer fram í íþróttahúsinu á Laugum þar sem nemendur eru nú í óða önn að breyta íþróttahúsi í tónleikahöll.

Nemendur sjá alfarið um allan undirbúning og framkvæmd Tónkvíslarinnar í umsjá Hönnu Sigrúnar Helgadóttur, kennara sem sér m.a. um félagsmál nemenda. Hljómsveitina skipar eingöngu nemendur og hefur Guðjón Jónsson, fyrrverandi nemandi Framhaldsskólans á Laugum séð um æfingar í vetur þar sem það tekur sinn tíma að æfa yfir 20 lög. Á haustönn hófst undirbúningur þar sem nemendur skráðu sig í hópa og þar má helst nefna smíðahóp, tæknihóp, förðunarhóp og fleiri hópa í umsjá framkvæmdastjórnar Tónkvíslar sem skipað er fjölda nemenda. Framkvæmdastjórn hefur fundað vikulega og metið stöðuna hverju sinni, þar sem fjáröflun og annað fyrirkomulag hefur verið til umræðu. Nú á vorönn hefur vinna þeirra aukist eftir því sem nær dregur þessum góða atburði sem er í raun svo magnaður að það á eiginlega ekki að vera hægt að halda þetta þar sem þetta er stór viðburður sem þarf mikilla skipulagningar við.

Fyrirtæki og aðrir aðilar hafa verið dyggir stuðningsmenn með því að leggja sitt af mörkum við að styrkja þessa keppni. Við njótum einnig aðstoðar tæknimanna frá Exton sem hafa víðtæka reynslu af uppsetningu sýninga og þeim fylgja því hlaðnir vagnar með upphengibúnað fyrir hljóð og ljós.  Auk þeirra njótum við aðstoðar Hlyns frá RÚV á Akureyri sem hefur aðstoðað við uppsetningu á tækjabúnaði í samvinnu við nemendur undanfarin ár og þökkum við öllum þessum aðilum kærlega fyrir þeirra framlag.

Keppendur í ár koma frá nokkrum grunnskólum í nærumhverfi, 10 keppendur frá Framhaldsskólanum á Laugum og einn keppandi frá Framhaldsskólanum á Húsavík en í haust var nemendum frá Húsavík boðið að senda þátttakendur í keppnina. Lögin eru fjölbreytt og að sjálfsögðu fáum við skemmtikraft eins og venja hefur verið undanfarin ár og í þetta sinn er það tónlistarmaðurinn Jón Jónsson sem mun syngja fyrir gesti.

Í dag fara fram söngæfingar þar sem 21 keppandi mun stíga á svið. Við óskum nemendum góðs gengis í keppninni sem fram fer annað kvöld og um leið óskum við nemendum Framhaldsskólans á Laugum til hamingju með enn eina stórstýninguna sem ekki er ofsögum sagt ef vitnað er í orð Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar, tónlistarsjóra. Hann var dómari sýningarinnar í fyrra þar sem hann sagði m.a:  „…að öll umgjörð Tónkvíslarinnar hefði verið mjög metnaðarfull og ef eitthvað er, þá metnaðarfyllri en söngvakeppni sjónvarpsins… og kynnarar hefður verið skemmtilegri en á söngvakeppni sjónvarpsins og báru virðingu fyrir viðfangsefninu…og það kom mér alveg í opna skjöldu hve góð söngatriði komu fram“.

Nú er aðeins einn dagur í sýningu og nemendur skólans hafa sameinað krafta sína í að leggja mikla vinnu við undirbúning hátíðarinnar og því mega gestir búast við keppni sem gefur hinum fyrri ekkert eftir.  Verið velkomin á Tónkvísl Framhaldsskólans á Laugum annað kvöld kl. 19.30.