Dýrafræði

Nemendur í dýrafræði krufðu laxfiska mánudaginn 20. mars í verklegum tíma. Fiskarnir voru fengnir frá fiskeldinu á Laxamýri (einn regnbogasilungur og tvær bleikjur) og þökkum við þeim kærlega fyrir það! Fiskarnir voru svo ferskir að greina mátti hjartslætti í þegar búið var að fjarlægja hjörtun úr fiskunum.

“Kynjakvótakvöld” með Siggu Kling

Nemendafélag skólans hefur undanfarin ár staðið fyrir karla-og konukvöldi en í ár var brugðið á það ráð að fá þekktan skemmtikraft. Þar sem um tvær samkomur hefur verið að ræða þá var ákveðið að gera þetta að einni sameiginlegri kvöldskemmtun sem fékk heitið „kynjakvótakvöld“ þar sem allir nemendur skólans væru samankomnir.

Dagskráin í kvöld hófst með pizzuhlaðborði sem nemendur tóku þátt í að undirb
úa ásamt starfsfólki mötuneytis. Þegar nemendur höfðu gert pizzunum góð skil birtist hin eldhressa „Sigga Kling“ og skemmti nemendum fram eftir kvöldi þar sem hún fór á kostum.

Vel heppnuð skólakynning

Kristinn Ingi, María og Bjarni Þór

Kristinn Ingi tilbúinn með kynningarspjöldin

Skólinn var með bás á framhaldsskólakynningu í Laugardalshöll um helgina. Það voru Sigurbjörn Árni skólameistari, María námsráðgjafi og Kristinn Ingi kerfisstjóri í aðalhlutverkum og nutu stuðnings nokkurra fyrrverandi nemenda skólans. Mikil aðsókn var í kynningarnar og voru margir áhugasamir um skólann okkar. Við þökkum þeim nemendum sem aðstoðuðu við kynninguna kærlega fyrir þeirra framlag.

Leiklist og æfingar

Nú á vorönn hófst leikstarfsemi þar sem Leikdeild Eflingar hóf æfingar á Skilaboðaskjóðunni eftir Þorvald Þorsteinsson. Leikstjóri sýningarinnar er Hörður Þór Benónýsson og tónlistarstjóri er Pétur Ingólfsson.  Margir nemendur skráðu sig til leiks og eru því í óða önn að samlesa þessa dagana ásamt öðrum einstaklingum í nærsamfélaginu. Æfingar fara fram öll virk kvöld í félagsheimilinu að Breiðumýri þannig að nóg er um að vera hjá nemendum að loknum hefðbundnum skóladegi. Áætlað er að sýningar muni hefjast fyrir páskafrí og verður nánar greint frá því síðar.

Samlestur á Breiðumýri

Framhaldsskólakynning í Laugardalshöll

Mín framtíð – Framhaldsskólakynning & Íslandsmót verk- og iðngreina 2017

Sigurbjörn Árni skólameistari verður m.a. á svæðinu á fimmtudag og föstudag. Hann getur lýst fyrir ykkur Framhaldsskólanum á Laugum. (Myndin er fengin frá ruv.is)

Framhaldsskólakynning verður haldin dagana 16. – 18. mars 2017 í Laugardalshöllinni. Þarna gefst einstakt tækifæri til að kynna sér fjölbreytt námsframboð framhaldsskóla landsin en starfsfólk og nemendur 26 skóla munu miðla upplýsingum og fróðleik um námið, félagslífið og framtíðarmöguleikana.

Á sama tíma fer fram í Höllinni Íslandsmót iðn- og verkgreina. Um 150 keppendur munu taka þátt í Íslandsmótinu og keppt verði í 21 iðngrein. Nokkrar greinar til viðbótar verða með kynningu á störfum en alls taka 27 iðn- og verkgreinar þátt  í ár. Fagreinarnar bjóða einnig upp á „Prófaðu“ svæði þar sem gestir fá að fikta, smakka og upplifa.

Von er á um 8 þúsund grunnskólanemendum í 9. – 10. bekk alls staðar af landinu í Höllina til að kynna sér námsmöguleika og fjölbreytni iðngreina. Þessi heimsókn er hugsuð sem liður í náms- og starfsfræðslu þessara nemenda og einn liður í að styrkja nemendur í að taka upplýsta ákvörðun um náms- og starfsval.

Á laugardeginum eru fjölskyldur sérstaklega velkomnar. Gefst þá einstakt tækifæri til að snerta og upplifa ýmislegt skemmtilegt sem snertir nám og störf í iðn- og verkgreinum. Team Spark kynnir rafmagnsbíl og einnig verður í boði að smakka upp á kræsingar sem útbúnar hafa verið í keppninni.

Dagskráin fer fram í Laugardalshöll og er opið fyrir gesti sem hér segir:

  • Fimmtudaginn 16. mars kl. 9 – 16
  • Föstudaginn 17. mars kl. 9 – 16
  • Laugardaginn 18. mars kl. 10 – 14
    • Laugardagurinn er fjölskyldudagur, fræðsla og fjör

Allir velkomnir – enginn aðgangseyrir!

Skíðaferð

Miðvikudaginn 8. mars sl. fóru nemendur Framhaldsskólans á Laugum til Akureyrar þar sem ferðinni var heitið upp í Hlíðarfjall. Dagurinn var tekinn snemma og að loknum morgunverði var lagt af stað. Guðmundur Smári Gunnarsson, kennari og María Jónsdóttir, námsráðgjafi voru þeim til halds og trausts í ferðinni. Þau voru einnig myndasmiðir þar sem þau tóku skemmtilegar myndir af nemendum ýmist á fljúgandi ferð, nýdottin eins og vera ber um brekkurnar á skíðum og brettum, eða að gæða sér á nestinu.  Ekki er hægt að segja annað en veðrið hafi verið þeim hliðhollt, eins og sést á myndunum. Skíðaferðin gekk eins og best verður á kosið og þegar líða tók á daginn var haldið af stað til byggða og þá varð veitingastaðurinn Greifinn fyrir valinu þar sem boðið var upp á pizzuhlaðborð. 

Heimsókn læknanema “Ástráðsliðar”.

Í seinustu viku litu „Ástráðsliðar“ læknanemar við í framhaldsskólum á Norðurlandi og þar á meðal hjá okkur og héldu fyrirlestur um kynfræðslu. Fyrirlesturinn var vel sóttur af nemendum. Forvarnarstarf þeirra byggir á því að fækka kynsjúkdómum og ótímabærum þungunum. Sjá nánar um forvarnarstarf læknanema á heimasíðu þeirra: http://www.astradur.is/

Bolludagur – sprengidagur – öskudagur

Undanfarnir þrír dagar hafa verið skemmtilegir að venju með tilheyrandi siðum sem fylgja þessum dögum. Bolludagur er fyrsti dagurinn og er alltaf á mánudegi  í 7. viku fyrir páska og barst sá siður hingað til lands seint á 19. öld og tengist nafnið „bolludagur“ hinu mikla bolluáti sem á sér stað. Segja má að þar höfum við ekki verið undanskilin þar sem hádegisverður hófst með kjötbollum, kaffimáltið með ógrynni af súkkulaðibollum og að endingu fiskibollum í kvöldmat.

Sprengidagur bar svo upp á þriðjudegi eins og venja er og gengum við glöð til hádegisverðar þar sem við fengum ilmandi saltkjöt og baunir að gömlum sið. Talið er að kjötátið sem á sér stað á sprengidag eigi rætur að rekja til katólsku og föstunnar sem hefst daginn eftir og nafnið „sprengidagur“ er að öllum líkindum tekið úr þýsku „Sprengtag“ og hefur því sennilega borist til Íslands með þýskum kaupmönnum.

Öskudagurinn er svo þriðji dagurinn í þessari skemmtilegu viku þar sem margir taka upp á því að syngja og fá gott fyrir. Víða var því boðið upp á sælgæti í skólanum þar sem bæði framhaldsskólanemendur og grunnskólanemendur Þingeyjarskóla létu í sér heyra með söng að ólgeymdum skemmtilegum búningum sem margir klæddust, bæði nemendur og starfsmenn.