Öll aðstaða til náms, íþrótta- og félagslífs er mjög góð í Framhaldsskólanum á Laugum. Heimavistir skólans eru góðar og eru baðherbergi inni á hverju herbergi sem eru rúmgóð og þægileg. Þráðlaust, gjaldfrjálst internet er í öllum húsum skólans. Það ætti enginn að vera svikinn af aðstöðunni á Laugum! Þá eru það sérstök forréttindi að hafa alla þá aðstöðu sem skólinn býður upp á en vera samt sem áður úti í sveit í fallegri náttúru. Óhætt er að segja að aðstaðan sé til staðar og er það að miklu leyti undir nemendum hvers vetrar komið hvernig hún er nýtt. Aðstaða til íþróttaiðkunar er frábær og nemendum að kostnaðarlausu!
Námsaðstaða: Náms- og kennsluumhverfi og aðferðir við Framhaldsskólann á Laugum er í stöðugri þróun. Á haustönn 2022 var enn eitt skrefið til framþróunar tekið. Hefðbundnar stundatöflur voru lagðar til hliðar en allir nemendur eru með samfelldan vinnudag og skráðir í vinnustofutíma allan skóladaginn. Hver nemandi fær persónulega vinnustöð (skrifborð, skáp og stól) í opnu vinnurými og uppröðun borða þar er önnur en í hefðbundnum kennslustofum þar sem myndaðir eru básar og hópvinnuborð. Reynt er að hafa mismunandi vinnuaðstöður í boði þannig að nemendur geti að einhverju leyti valið sér aðstöðu sem þeim hentar best. Skilrúm eru notuð til að afmarka vinnupláss, myndir prýða veggi, blóm setja sinn svip á umhverfið og á nokkrum stöðum hefur verið komið fyrir sófum þar sem nemendur geta látið fara vel um sig, t.d. þegar þeir eru að lesa eða ræða við kennara eða skólasystkini undir fjögur augu.
Vinnustöðvar: Í Gamla skóla er búið að koma fyrir persónunlegum vinnustöðvum fyrir alla nemendur skólans sem eru í dagskóla. Hver nemandi hefur þá sitt eigið skrifborð og þar með fasta vinnuaðstöðu. Í vinnustofutímum vinna nemendur þá á sinni vinnustöð. Mikil ánægja er með þetta fyrirkomulag hjá þeim nemendum sem aðstöðuna nýta.Almenn ánægja ríkir meðal nemenda með námsfyrirkomulagið og hafa nemendur nefnt sveigjanleika sem stóran kost. Sveigjanleikinn felst ekki eingöngu í því að nemendur ákveða sjálfir í hvaða námsgrein þeir vinna hverju sinni heldur geta þeir valið um nokkrar stofur til að vera í. Sumir kjósa að vinna þar sem er algjört næði, öðrum hentar betur að hafa smá umgang og stundum getur verið ágætt að setjast í sófa. Það er undir nemendanum sjálfum komið hvar hann vinnur og í hverju! Á Bjarmalandi og er ágætt að vinna hópavinnu og er þar stórtfundarborð. Þá geta nemendur einnig nýtt matsal skólans og kennslustofur sem ekki eru uppteknar til hópavinnu. Á bókasafninu eru bæði lestrarbásar og borð en þar á einnig að ríkja þögn svo góður vinnufriður skapist.
Íþróttaaðstaða: Í íþróttahúsinu er aðstaða fyrir fjölbreytta íþróttaiðkun ásamt líkamsræktaraðstöðu að ógleymdri sundlauginni. Á Laugum er íþróttaaðstaðan með því besta sem gerist í framhaldsskólum á Íslandi en skólinn kappkostar að gefa nemendum tækifæri til þess að stunda fjölbreytta líkamsrækt við góðar aðstæður. Íþróttahús skólans er glæsilegt og vel tækjum búið. Auk íþróttasalar sem var endurnýjaður 2019 eru þar tveir líkamsræktarsalir. Sundlaugin á Laugum er tengd við íþróttahús skólans en hún var tekin í notkun árið 2005. Glæsilegur íþróttavöllur er á Laugum sem nemendur hafa greiðan aðgang að en völlurinn var endurnýjaður árið 2006. Nemendur skólans hafa gjaldfrjálsan aðgang í íþróttahúsið, sundlaugina og ræktina sem er frábær kjarabót og því um að gera að nýta sér hina frábæru íþróttaaðstöðu eftir að kennslu lýkur.
Félagsaðstaða: Félagslífið er mikilvægur hluti af skólastarfinu ekki síst vegna staðsetningar og umhverfis skólans. Í litlum skóla eins og Framhaldsskólanum á Laugum verður félagslífið oft ólíkt því sem gerist í stærri skólum. Á Laugum koma flestir nemendur með einum eða öðrum hætti að félagslífinu. Það verður einnig fjölbreyttara þar sem nemendur búa flestir í skólanum. Stefna skólans er að hlúa sem best að félagslífi nemenda með aðstoð og ráðgjöf kennara en félagslífið sem slíkt er að frumkvæði og undir forsjá nemenda. Þátttaka í félagslífi þjálfar og eflir samskiptahæfni nemenda og býr þá ekki síður en annað starf skólans undir að verða virkir og ábyrgir þegnar í samfélaginu. Skólinn státar af afar góðri aðstöðu fyrir félagsstarf en nemendur hafa bæði félagasaðstöðu á neðstu hæð Tröllasteins sem og í gömlu innisundlauginni í Gamla skóla og hefur hún hlotið nafnið Laugin. Þar er FullHD hdmi skjávarpi og 7.1 heimabíókerfi, sófar og dýnur og sitthvað fleira. Nemendur á þriðja ári sem stefna á utanlandsferð reka sjoppu í félagsaðstöðunni á Tröllasteini.
Þróttó: gamla íþróttahúsið sem var reist 1929, er kvikmyndahús en salurinn var gerður upp af nemendum skólans árið 2005 og er hann notaður við margskonar tilefni, svo sem fundi, fyrirlestra eða tónleika eða skemmtanir.Þróttó er meira en kvikmyndahús. Þar er hægt að halda tónleika eða fyrirlestra enda húsið útbúið með fullkomnu hljóð- og myndkerfi. Þar halda nemendur stærri fundi og þar fer einnig fram kennsla. Þar er aðstaða fyrir nemendur til að æfa tónlist, leiklist eða hvers konar uppákomur sem þeir vilja ráðast í.
Nemendafélagið stendur reglulega fyrir viðburðum í skólanum og þá má nefna nokkra fasta liði í skólastarfinu eins og Tónkvíslina, árshátíð og uppskeruhátíð. Tónkvíslin er söngkeppni Nemendafélags Framhaldsskólans á Laugum og er undankeppni skólans fyrir Söngkeppni framhaldsskólanema. Nemendum úr grunnskólum á svæðinu er boðið að taka þátt í sérstakri grunnskólakeppni á Tónkvíslinni sem hlotið hefur góðar viðtökur. Keppnini er sjónvarpað beint og sjá nemendur um alla vinnu allt frá fjáröflun og handritsgerð til myndatöku og útsendingar. Meira má fræðast um starf Nemendafélagsins og félagslíf á Laugum á vefsíðunni www.nfl.is.
Leiklistarstarf: Mikið leiklistarstarf er hjá Leikdeild Ungmennafélagsins Eflingar í Rekjadal en nemendum Framhaldsskólans á Laugum hefur undanfarin ár verið gefinn kostur á að taka þátt í uppsetningum leikdeildarinnar. Einnig hefur nemendur skólans tekið þátt í leiksýningum með leikfélaginu Píramusi og Þispu sem er starfrækt er við Framhaldsskólann á Húsavík.
iWall: er æfingatæki staðsett í kjallara Gamla skóla. Í iWall er blandað saman tölvuleikjum og hreyfingu. Um er að ræða nokkurs konar hermi samanber golfhermi. Leikmaðurinn stjórnar leikjunum með hreyfingum sínum og getur hann keppt við sjálfan sig eða félaga en tveir geta verð í tækinu í einu. Þetta er fyrsta tækið þessarar tegundar sem flutt er til Íslands, en framleiðsluland þess er Finnland og hafa þessi tæki verið seld til fjölmargra skóla í Evrópu og Norður Ameríku auk skóla í heimalandinu. Tækið er hugsað sem stuðningur við þá áherslu sem skólinn leggur í starfi sínu á hreyfingu sem eðlilegan og mikilvægan þátt í daglegu starfi. Eins er hægt að nota vegginn til þjálfunar fyrir þá sem stunda hreyfingu með árangur sem markmið. En síðast en ekki síst er um að ræða leiktæki fyrir einstaklinga og hópa þar sem líkamleg hreyfing er nauðsynleg til að knýja áfram leikinn.
Húsakostur : Framhaldsskólinn á Laugum hefur yfir miklum húsakosti að ráða en skólinn er starfræktur í sjö stórum húsum sem eru samtals yfir 6.500 fermetrar!
Gamli skóli: Hjarta skólans er í Gamla skóla, aðal skólahúsnæðinu sem reist var árið 1924. Þar eru vinnustöðvar nemenda, mötuneyti, bókasafn, þvottahús, félagsaðstaða nemenda, skrifstofur og vinnuaðstaða kennara. Undanfarin ár hafa verið gerðar miklar breytingar á húsinu með það að markmiði að nýta þetta gamla hús á sem bestan hátt en nýjar áherslur í námi hafa gert kröfur fyrir breytta aðstöðu.
Í Dvergasteini: eru kennslustofur þar sem fagtímar eru kenndir. Þar er einnig heimavist, tvær kennaraíbúðir og aðstaða fyrir verklega smíðakennslu
Tröllasteinn: er heimavist sem reist var árið 2000 Tröllasteinn er heimavist með 35 herbergjum sem öll eru tveggja manna, 20,6 fermetrar að stærð. Á öllum herbergjum er baðherbergi með sturtu. Parket er á gólfum og flísar á baðherbergjum. Á neðstu hæð Tröllasteins er félagsaðstaða fyrir nemendur sem og nemendasjoppan.
Fjall: er heimavist sem var endurnýjuð árið 2000 og er með 15 herbergjum á þremur hæðum. Herbergin eru tveggja manna og eru 17,7-21,3 fermetrar fyrir utan eitt sem er þriggja manna og er 35,9 fermetrar að stærð – ekki að ástæðulausu sem það herbergi er gjarnan nefnt “svítan” í daglegu tali! Á öllum herbergjum er baðherbergi með sturtu. Parket er á gólfum og flísar á baðherbergjum. Sameiginleg setustofa er á miðhæðinni. Á fjalli er einnig kennaraíbúð.
Á tik tok síðu Framhaldsskólans á Laugum hér fyrir neðan er hægt að sjá herbergin á vistunum.
Álfasteinn: er heimavist sem var endurnýjuð 2011. Á Álfasteini eru sjö herbergi á annarri hæð. Herbergin eru tveggja manna og eru 14,7-18,1 fermetrar. Á öllum herbergjum er baðherbergi með sturtu. Á Álfasteini eru einnig starfsmannaíbúð, raungreinastofa og hefbundin kennslustofa.
Í herbergjum á heimavistum er þráðlaust netsamband en skólinn er með 1000 Mbit/s nettengingu, auk þess sem þar eru einnig baðherbergi með sturtu inni á hverju herbergi. Á kvöldin eru húsbændur nemendum innan handar á heimavistinni. Fylgst er með umgengni á herbergjum á tveggja vikna fresti, svona til að passa upp á að menn gleymi sér ekki. Smellið hér til að lesa reglur skólans.
Hér fyrir neðan eru myndir af herbergjum á Tröllasteini: