Námsferð til Vopnafjarðar 19. september 2022

Nemendur í áfanganum „Vesturferðir Íslendinga“ fóru ásamt kennara sínum, Rögnu Heiðbjörtu Ingunnardóttur til Vopnafjarðar í upplýsingaöflun. Ágústa Þorkelsdóttir á Refsstað við Vopnafjörð fræddi nemendur um Vesturferðirnar og lífið á heiðarbýlunum. Veðrið lék við okkur og kennslustund hjá Ágústu var utandyra þar sem nemendur nutu fróðleiks hennar eins og myndir sýna. Þaðan var farið í Kaupvangi á Vopnafirði þar sem Cathy Josephson  tók á móti okkur og sýndi okkur Vesturfarasafnið sem hún hefur unnið að. Það var gott að koma til hennar og sjá verk sem hún hefur komið fyrir í sýningarsalnum. Nemendur fóru heim með fangið fullt af fróðleik og fram undan er verkefnavinna eftir áhugaverða fræðslu hjá Ágústu og Cathy. Við þökkum fyrir yndislegar móttökur á Vopnafirði.

-Ragna Heiðbjört Ingunnardóttir

Kærleikur frá Laugaskóla

SSNE (Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi Eystra) eru að vinna að SAMNOR kynningarefni fyrir framhaldsskóla á Norðurlandi. Þetta er skemmtilegt verkefni og okkur þykir gaman að taka þátt í því. Í gær kom Jón Tómas, tökumaður, frá auglýsingastofunni Eyrarlandi og tók upp efni fyrir Laugaskóla. Nemendur og starfsfólk voru mjög samvinnuþýð í þessu verkefni og meðal annars fóru út og mynduðu stórt hjarta á torginu.

SAMNOR samanstendur af Framhaldsskólanum á Laugum, Menntaskólanum á Tröllaskaga, Framhaldsskólanum á Húsavík, Verkmenntaskólanum á Akureyri og Menntaskólanum á Akureyri.

Við hlökkum til að sjá lokaútkomuna á þessu kynningarefni!

Fyrsta vikan á nýju skólaári

Skólinn var settur sunnudaginn síðastliðinn í Íþróttahúsinu á Laugum. Sama dag opnuðu vistirnar og nýnemar og eldri nemendur streymdu að með búslóðina í eftirdragi. Fyrsta vikan í framhaldsskólanum á Laugum köllum við Brunn og er að venju samkvæmt óhefðbundin kennsla þá vikuna. Á mánudaginn var sett upp þrautabraut á skólalóðinni, þar sem nemendur skemmtu sér við hinar ýmsu þrautir.

Á þriðjudaginn fóru nemendur í gönguferð í blíðskaparveðri, þar sem þau gengu úr Þverá í Laxárdal í Laugar.

Í morgun lögðu nemendur ásamt starfsfólki af stað til Akureyrar en þar munu þau skoða Flugsafnið og Iðnaðarsafnið. Um hádegi fara þau í Kjarnaskóg og fara í leiki, halda strandblaksmót og grilla. Dagurinn endar svo á kvöldverði og bíó í Þróttó. Á morgun hefst skóladagurinn klukkan 11:00.

Við hvetjum áhugsama um að fylgja okkur á samfélagsmiðlum!

 

File:Instagram logo 2022.svg - Wikimedia Commons Instagram @framhaldsskolinn_a_laugum

 

tiktok logo black mobile social media icon 2557421 Vector ... TikTok @laugaskoli

 

 

 

Stundatöflulaus skóli!

Náms- og kennsluumhverfi og aðferðir við Framhaldsskólann á Laugum er í stöðugri þróun. Nú á haustönn 2022 verður tekið enn eitt skrefið til framþróunar. Hefðbundnar stundatöflur verða lagðar til hliðar en allir nemendur verða með samfelldan vinnudag og skráðir í vinnustofu tíma allan skóladaginn.
Eitt af markmiðum þróunarverkefnisins er að kennsla færist enn frekar í átt að vendikennslu. Áhersla er lögð á að hafa námsefni og leiðbeiningar að sem mestu leyti rafrænt þannig að það sé ávallt aðgengilegt nemendum og þeir geti unnið sjálfstætt að náminu hvenær sem er og hvar sem þeir eru staddir.
Möguleiki er á miklum sveigjanleika þar sem t.d. er hægt að taka út hluta nemenda úr  hópi og bjóða þannig þeim sem þurfa á því að halda meiri þjónustu. 

Nánari upplýsingar um þetta breytta námsfyrirkomulag má lesa hér

 

Skólabyrjun

Image

Nú fer að líða að skólabyrjun en skólinn verður settur kl. 18:00 sunnudaginn 28. ágúst. Heimavistir opna kl. 13:00 þann dag. Við á Laugum eru orðin spennt fyrir að fá okkar gömlu nemendur aftur sem og að kynnast nýjum nemendum. Í þessari viku ættu allir nemendur að fá bréf í tölvupósti með helstu upplýsingum, t.a.m. það sem þeir þurfa að hafa með sér, þvottanúmer, herbergi og herbergisfélagi o.s.frv. Bókalisti mun koma hér inn á heimasíðuna (undir námið) fljótlega þar á eftir. Þar eru bækurnar sem notaðar eru í hverjum áfanga taldar upp undir áfangaheitinu (t.d. DANS2AT05) nema að bækur almennrar brautar eru taldar upp undir Almenn braut. Nemendur og foreldrar geta farið inn á Innu (inna.is) og skráð sig inn með rafrænum skilríkjum til að sjá hvað áfanga þeir eiga að taka núna í haust og útvega sér þá þær bækur sem eru taldar upp undir þeim áföngum á bókalistanum. Ef spurningar vakna má alltaf hringja í 464-6300 eða senda tölvupóst á laugar@laugar.is.

Hlökkum til að sjá ykkur og samstarfsins næsta vetur.

Dr. Sigurbjörn Árni Arngrímsson
Skólameistari

Brautskráning nýstúdenta

Brautskráning Framhaldsskólans á Laugum fór fram á laugardaginn sl. og voru 31 nýstúdentar brautskráðir við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Laugum.

Dúx Framhaldsskólans á Laugum er Guðmundur Gígjar Sigurbjörnsson með 9,36 í einkunn. Semí-dúx Framhaldsskólans á Laugum er Guðný Alma Haraldsdóttir með 9,14 í einkunn.

Eldri afmælisárgangar fjölmenntu á brautskráninguna, en við höfum ekki getað haldið hefðbundna brautskráningu sl. 2 ár vegna kóvíd. Við erum afar þakklát fyrir tryggð og vinskap eldri Laugamanna við staðinn og þökkum þeim kærlega fyrir gjafirnar sem þau færðu skólanum og fyrir að sækja Laugar heim. Að brautskráningu lokinni var gestum boðið í kaffiveitingar í Gamla skóla, og voru rúmlega 300 manns sem þáðu boðið og drukku kaffi saman.

Við þökkum öllum fyrir komuna á þessum hátíðlega og ánægjulega degi.

 

Brautskráning 14. maí

Brautskráning nýstúdenta fer fram við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Laugum, laugardaginn 14. maí klukkan 14:00. Við bjóðum ykkur öll hjartanlega velkomin að gleðjast með okkur og þiggja kaffiveitingar að athöfn lokinni í matsal skólans. Aðalfundur hollvinasamtakanna Vinir Laugaskóla fer fram í íþróttahúsinu klukkan 17:00. Velunnarar skólans eru hvattir til að mæta á þann fund.

Síðustu dagarnir á vorönn

Nemendur Laugaskóla eru farnir heim í sumarfrí eftir annasama önn. Síðastliðin vika var virkilega fjörleg. Uppskeruhátíð nemendafélagsins var haldin 4. maí. Á Uppskeruhátíðinni fer stjórn nemendafélagsins yfir viðburði vetursins og tilkynnir nýja stjórn 2022-2023.Við þökkum fráfallandi stjórn nemendafélagsins fyrir vel unnin störf í vetur.

Hrólfur Jón tók við embætti forseta nemendafélagsins af Jóni Vilbergi.
Ólöf Jónsdóttir tók við embætti varaforseta og ritara nemendafélagsins af Heru Marín 
Jasmín Eir tók við embætti féhirðis af Salbjörgu Ragnarsdóttur.
Valdemar Hermannson tók við embætti skemmtanastjóra.
Kristján Örn tók við embætti íþróttastjóra af Kamillu Huld.

Ný stjórn í sætum sínum. Frá vinstri: Kristján Örn, Valdemar, Jasmín, Ólöf og Hrólfur.

Dimmitering útskriftarnema var 5. maí s.l. Að venju kepptu nemendur við starfsfólk í ýmsum þrautum, og bar starfsfólk þar sigur úr býtum. 

Starfsfólk Laugaskóla þakkar nemendum fyrir liðinn vetur, hlökkum til að taka á móti nýjum og gömlum nemendum aftur í haust. 

Fréttapakki frá Laugum

Söngkeppni Framhaldsskólanna fór fram á Húsavík þann 3.apríl síðastliðinn og fyrir hönd framhaldsskólans á Laugum keppti Dagbjört Nótt Jónsdóttir með laginu Í fjarlægum skugga. Dagbjört stóð sig með prýði og voru nemendur og starfsmenn stoltir af sinni konu!

Síðastliðnar vikur hafa verið þétt skipaðar í Laugaskóla. Keppnin „Laugadraumurinn“ náði hæstu hæðum í vikunni fyrir páskafrí, en keppnin gengur út á það að safna stigum fyrir hönd hverrar heimavistar. Það er alltaf líf og fjör í skólanum þegar Laugadraumurinn er í gangi, en þá má t.d sjá nemendur mæta í ýmsum búningum.

Á myndunum hér fyrir neðan má sjá Kristján Örn nýbúinn að snoða sig og Árna Gest með gervineglur.

 

 

Nemendur héldu heim í páskafrí föstudaginn 8.apríl og mættu aftur endurhlaðin í skólann 20. apríl, sem er nauðsynlegt þegar lokaspretturinn er eftir af þessari önn.

Nú fara næstu dagar og vikur í skipulagningu á brautskráningu nýstúdenta, en brautskráningin fer fram í íþróttamiðstöðinni á Laugum þann 14. maí klukkan 14:00.