
Fréttir og tilkynningar
Brautskráning 14. maí
Brautskráning nýstúdenta fer fram við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Laugum, laugardaginn 14. maí klukkan 14:00. Við bjóðum ykkur öll hjartanlega velkomin að gleðjast með okkur og þiggja kaffiveitingar að athöfn lokinni í matsal skólans. Aðalfundur hollvinasamtakanna Vinir Laugaskóla fer fram í íþróttahúsinu klukkan 17:00. Velunnarar skólans eru hvattir til að mæta á þann fund.
Síðustu dagarnir á vorönn
Nemendur Laugaskóla eru farnir heim í sumarfrí eftir annasama önn. Síðastliðin vika var virkilega fjörleg. Uppskeruhátíð nemendafélagsins var haldin 4. maí. Á Uppskeruhátíðinni fer stjórn nemendafélagsins yfir viðburði vetursins og tilkynnir nýja stjórn 2022-2023.Við þökkum fráfallandi stjórn nemendafélagsins fyrir vel unnin störf í vetur.
Hrólfur Jón tók við embætti forseta nemendafélagsins af Jóni Vilbergi.
Ólöf Jónsdóttir tók við embætti varaforseta og ritara nemendafélagsins af Heru Marín
Jasmín Eir tók við embætti féhirðis af Salbjörgu Ragnarsdóttur.
Valdemar Hermannson tók við embætti skemmtanastjóra.
Kristján Örn tók við embætti íþróttastjóra af Kamillu Huld.

Ný stjórn í sætum sínum. Frá vinstri: Kristján Örn, Valdemar, Jasmín, Ólöf og Hrólfur.
Dimmitering útskriftarnema var 5. maí s.l. Að venju kepptu nemendur við starfsfólk í ýmsum þrautum, og bar starfsfólk þar sigur úr býtum.
Starfsfólk Laugaskóla þakkar nemendum fyrir liðinn vetur, hlökkum til að taka á móti nýjum og gömlum nemendum aftur í haust.
Fréttapakki frá Laugum
Söngkeppni Framhaldsskólanna fór fram á Húsavík þann 3.apríl síðastliðinn og fyrir hönd framhaldsskólans á Laugum keppti Dagbjört Nótt Jónsdóttir með laginu Í fjarlægum skugga. Dagbjört stóð sig með prýði og voru nemendur og starfsmenn stoltir af sinni konu!
Síðastliðnar vikur hafa verið þétt skipaðar í Laugaskóla. Keppnin „Laugadraumurinn“ náði hæstu hæðum í vikunni fyrir páskafrí, en keppnin gengur út á það að safna stigum fyrir hönd hverrar heimavistar. Það er alltaf líf og fjör í skólanum þegar Laugadraumurinn er í gangi, en þá má t.d sjá nemendur mæta í ýmsum búningum.
Á myndunum hér fyrir neðan má sjá Kristján Örn nýbúinn að snoða sig og Árna Gest með gervineglur.
Nemendur héldu heim í páskafrí föstudaginn 8.apríl og mættu aftur endurhlaðin í skólann 20. apríl, sem er nauðsynlegt þegar lokaspretturinn er eftir af þessari önn.
Nú fara næstu dagar og vikur í skipulagningu á brautskráningu nýstúdenta, en brautskráningin fer fram í íþróttamiðstöðinni á Laugum þann 14. maí klukkan 14:00.
Tónkvíslin 19. mars 2022
Tónkvíslin fer fram laugardaginn 19. mars næstkomandi og hægt verður að kaupa miða á staðnum. Hún verður með aðeins smærri sniðum í ár en þrátt fyrir það verður keppnin ótrúlega flott og góð þátttaka meðal keppenda. Í ár verða 12 atriði frá Laugaskóla og 5 atriði úr grunnskólum hér í kring.
Dómarar verða Einar Óla, Arnþór Þorsteinsson og Sesselja Ólafsdóttir.
Veglegir vinningar eru í boði eins og alltaf, en fyrir fyrsta sæti er tími í upptökustúdíói og ýmis gjafabréf og gjafir frá fyrirtækjum sem styrkja keppnina. Einnig eru vinningar í boði fyrir annað og þriðja sæti, sem og fyrir grunnskólakeppnina.
Við hvetjum alla til að fylgja Tónkvíslinni á Instagram og TikTok!
Minnum á jöfnunarstyrkinn!
Viljum minna á að umsóknarfrestur vorannar 2022 er til og með 15. febrúar n.k. ef námsmaður ætlar að fá fullan námsstyrk. Ef námsmaður sækir um eftir 15. febrúar að þá skerðist styrkurinn um 15%.
Jöfnunarstyrkur (áður dreifbýlisstyrkur) er námsstyrkur fyrir nemendur sem stunda nám á framhaldsskólastigi fjarri lögheimili og fjölskyldu. Fjarnám er ekki styrkhæft. Dreifnám er aðeins styrkhæft ef nemendur þurfa að koma í skólann a.m.k. 50% af dagafjölda nemenda sem stunda dagsskóla.
Nánari upplýsingar má finna á hér
Minningarathöfn – Kristinn Aron
Þann 2. febrúar sl. lést Kristinn Aron Curtis Arnbjörnsson af slysförum. Nemendur, starfsfólk og vinir Kidda ætla að minnast hans í matsal skólans klukkan 14:00, föstudaginn 11. febrúar.
Séra Þorgrímur Daníelsson sóknarprestur mun leiða minningarathöfnina og boðið verður upp á kaffiveitingar á eftir.