Mín framtíð 2023

Dagana 16.– 18. mars 2023 mun Verkiðn halda Íslandsmót iðn- og verkgreina og framhaldsskólakynningu í Laugardalshöllinni í samvinnu við mennta- og barnamálaráðuneytið, sveitarfélög og fagfélög iðn- og starfsgreina.

Sigurbjörn Árni Arngrímsson, Eygló Sófusdóttir og Olga Hjaltalín verða á staðnum ásamt nokkrum nemendum Framhaldsskólans á Laugum til að kynna starfsemi skólans.

Hér má sjá dagskrá og opnunartíma ásamt frekari fræðslu um viðburðinn: https://namogstorf.is/2023/03/09/min-framtid-opnunartimi-og-dagskra/

Sigurvegarar Tónkvíslar 2023

Það var líf og fjör á laugardagskvöldið þegar Tónkvíslin fór fram fyrir húsfylli í íþróttahúsinu á Laugum. Nemendur sáu til þess að keppnin væri hin allra glæsilegasta og allir keppendur stóðu sig vel og eiga hrós skilið fyrir frábæra frammistöðu ásamt hljómsveitum kvöldsins. Við óskum sigurvegurum kvöldsins þeim Hrólfi Péturssyni og  Alexöndru Hermóðsdóttur innilega til hamingju með vel verðskuldaðan sigur.

Fyrsta sæti í Lífshlaupinu

Lífshlaupið er heilsu og hvatningarverkefni Íþrótta og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra aldurshópa. Vinnustaðir, skólar og einstaklingar eru hvattir til að taka þátt og nota þannig tækifærið til að efla líkama og sál með því að hreyfa sig daglega. Framhaldsskólinn á Laugum tók þátt í framhaldsskólakeppninni sem ætluð er fyrir 16 ára og eldri og stendur yfir í tvær vikur í febrúar. Boðið var upp á afar fjölbreytta hreyfingu í skólanum í þær tvær vikur sem keppnin stóð yfir og má þar nefna dans, skotbolta og bandvefsnudd. Mikill keppnishugur var í nemendum var það því afar ánægjulegt þegar í ljós kom að Framhaldsskólinn á Laugum hafði sigrað keppnina og erum við afar stolt af okkar nemendum og þeirra árangri.

 

Kynningarmyndband frumsýnt á Laugum

Þann 8. febrúar komu góðir gestir til okkar á Laugar frá Framhaldsskólanum á Húsavík , Menntaskólanum á Akureyri , Menntaskólanum á Tröllaskaga ,Verkmenntaskólanum á Akureyri ,SSNE OG Símey til þess að horfa á sameiginlegt herferðarmyndband sem unnið er í samstarfi við SSNE, samband sveitarfélaga á norðurlandi eystra. Herferð þessi eru ætluð til kynningar á svæðinu og þeim fjölbreyttu möguleikum til náms sem í boði eru. Að frábærri kynningu lokinni var öllum gestum boðið til hádegisverðar í mötuneyti skólans og við þökkum við þeim kærlega fyrir komuna.
 
 
 

Gauragangur

 
Núna eru nemendur ásamt nokkrum starfsmönnum og fólki í nærsamfélaginu að æfa á fullu fyrir frumsýningu á leikritinu Gauragangi sem byggt er á samnefndri bók Ólafs Hauks Símonarsonar og kom út fyrir jólin 1988.
Sýningin er á vegum UMF Eflingar og fá nemendur einingar fyrir þátttökuna.
Frumsýning er föstudaginn 10.febrúar kl 20:30 og hægt er panta miða í síma 6180847 eða á netfanginu moc.liamg@gnilfefmu .
Við hvetjum alla sem hafa tök á að koma og sjá þessa sýningu sem er að mörgu leyti óvenjuleg. Sviðið er í miðjum salnum og sitja áhorfendur í kring og geta keypt sér kakó/kaffi og vöfflur af kvenfélaginu á meðan. Mikið er um dans og söng í sýningunni og það verður gaman að sjá nemendur okkar ásamt starfsmönnum stíga á svið. 
 
 

Þorrablót og félagsvist

Síðastliðið fimmtudagskvöld fór fram árlegt þorrablót Framhaldsskólans á Laugum. Starfsfólk mötuneytis bar fram dýrindis þorramat af sinni alkunnu snilld, og vel var mætt.
Að loknu borðhaldi var spiluð félagsvist þar sem keppt var um þrjú efstu sætin.Gott kvöld og vel heppnað í alla staði

Myndirnar tóku Sólrún Einarsdóttir og Ragna Ingunnarsdóttir

Félagsstarf 60 ára og eldri í Þingeyjarsveit komu í heimsókn

Við fengum góða heimsókn sl. þriðjudag þegar eldri borgarar í Þingeyjarsveit komu í skólann. Tilefnið var að fræðast um nýjan áfanga í Laugaskóla um Vesturferðir Íslendinga og ferð kennara til Vesturheims. Eldri borgarar byrjuðu komu sína á því að þiggja hádegismat þar sem boðið var upp á lambalæri með öllu tilheyrandi.  

Ragna Heiðbjört hefur mótað og kennt þennan áfanga um Vesturferðir Íslendinga og vesturíslensku sem hefur m.a. fengið umfjöllun í Landanum. Ragna byrjaði á því að segja eldri borgurum almennt frá skólastarfinu, viðfangsefni í íslenskuáföngum og hvernig þessi áfangi hefði orðið til sem byggðist á miklu lestrarefni um örlagasögu vesturfaranna. Við það má bæta að það sem er sérstakt við þennan áfanga er að kennslan um Vesturferðirnar tengjast konu sem ólst upp í Reykjadal og Aðaldal og fluttist til Vesturheims í lok 19. aldar, sem gerir áfangann svo lifandi við raunverulegan atburð. Nemendur í áfanganum hafa spurt um afdrif konunnar sem varð til þess að Ragna og Kristján fóru siðastliðið sumar til Vesturheims þar sem afkomendur konunnar fræddu þau um hvernig henni hefði gengið að koma sér fyrir og lifa í ólíku samfélagi þar sem aðstæður voru oft og tíðum erfiðar. Það var því ánægjulegt að segja eldri borgurum frá áfanganum, ferðalaginu vestur um haf og ýmissa áhugaverðra staða í Kanada. 

Að fyrirlestri loknum var öllum boðið í kaffi þar sem borin var fram hin fræga vínarterta. Við þökkum eldri borgurum kærlega fyrir góða heimsókn.  

smelltu á myndirnar til þess að sjá þær stærri 

Gleðilegt nýtt ár

Gleðilegt nýtt skóla ár.

Kæru nemendur, nú er skólinn byrjaður eftir langt og gott jólafrí. Heimavistir opna kl. 13:00 næstkomandi sunnudag, og kennsla hefst á mánudag.

Síðasta önn gekk afar vel. Raunmæting allra nemenda skólans var 89,2% og meðaleinkunn allra nemenda í öllum áföngum var 7,29. Hvoru tveggja hefur aðeins einu sinni áður verið hærra.

Í janúar hefst þorrinn og 26. janúar höldum við þorrablót nemenda og starfsfólks í skólanum. Tónkvíslin er á sínum stað að venju, og verður sú tónlistarhátíð haldin laugardaginn 11. mars

Við á Laugum erum ákaflega stolt af okkar nemendum og væntum þess að vorönnin verði ekki síðri en haustönnin.

Við hlökkum til að sjá ykkur!

Undirritun samkomulags Samnor og Bjarmahlíðar

Páley Borgþórsdóttir lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, Agnes Björk Blöndal saksóknari hjá lögreglunni á Norðurlandi eystra, Valgerður Gunnarsdóttir skólameistari Framhaldsskólans á Húsavík, Sigurbjörn Árni Arngrímsson skólameistari Framhaldsskólans á Laugum og Sigríður Huld Jónsdóttir skólameistari Verkmenntaskólans á Akureyri.

Í Bjarmahlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi, hefur orðið vart við vaxandi þörf á stuðningi við ungmenni á framhaldsskólaaldri (frá 16 ára). Flest ungmenni á aldrinum 16-18 ára eru í framhaldsskóla og hefur Bjarmahlíð nú gert samkomulag um þróun samstarfs við alla framhaldsskólana á Norðurlandi. Skólarnir eru Framhaldsskólinn á Húsavík, Framhaldsskólinn á Laugum, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Verkmenntaskólinn á Akureyri og Fjölbrautarskóli Norðurlands vestra.

Samkomulagið felur í sér fræðslu til skólanna og stuðning við fagaðila innan skólanna eftir þörfum, og beint samtal við nemendur í gegnum nemendafélög skólanna. Með beinu samtali við nemendur mun Bjarmahlíð markvisst leitast við að sníða þjónustu sína við þolendur á framhaldsskólaaldri að þeirra þörfum þegar kemur að ofbeldisforvörnum og úrræðum. Leiðarstef í allri vinnu Bjarmahlíðar með ungmennum er að styðja við merkingarbæra þátttöku þeirra en að huga jafnframt að vernd þeirra. Þar liggja til grundvallar grunngreinar Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Samkomulagið við skólana gildir út þetta skólaár (til vors 2023) og verður þá endurmetið.

Þjónustuaukningin við 16-18 ára í Bjarmahlíð felur sér að boðið er upp á viðtöl þar sem samþætt eru viðbrögð, úrræði, leiðir til valdeflingar og eftirfylgd eftir að ofbeldi hefur átt sér stað. Slík þjónustuaukning er ekki gerð nema í þéttu samtali og samstarfi við aðila innan hefðbundins skóla- og frístundastarfs, stuðningskerfa félags- og barnaverndar og lögregluna. Bjarmahlíð mætir ungmennunum með áfallamiðaðri nálgun sem felur sér valdeflingu og eflingu áfallaseiglu, sem um leið geta orðið verndandi aðgerðir gegn ofbeldi síðar á lífsleiðinni. Hægt er að panta tíma í gegnum heimasíðu Bjarmahlíðar: bjarmahlid.is og með því að senda póst á si.dilhamrajb@dilhamrajb. Boðið er upp á stað- og fjarviðtöl. 

Bjarmahlíð, miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Norðurlandi, hóf starfsemi vorið 2019 og hafa yfir 400 manns 18 ára og eldri fengið þjónustu þar. Bjarmahlíð hefur bakland hjá þeim fjölmörgu samstarfsaðilum sem koma að starfinu og er þannig tengiliður við opinberar stofnanir, félagssamtök og bjargráð innan þeirra þegar kemur að afleiðingum og úrvinnslu ofbeldis. Þjónusta Bjarmahlíðar er þolendum að kostnaðarlausu og rekin í anda hugmyndafræði Family Justice center.  

Seinni hálfleikur hafinn

Nemendur og starfsfólk kom endurnært úr vetrarfríi en hefðbundið skólastarf hófst þriðjudaginn 25. október. Í vetrarfríinu var þó nóg að gera, en útskriftarefnin fóru í útskriftarferð til Spánar og kennarar í námsferð til Finnlands. Í gær var háskóladagurinn haldinn í Háskólanum á Akureyri og fóru tilvonandi háskólanemendur í kynningaferð þangað.

Við hlökkum til að klára seinni hálfleikinn af þessari önn og byrjum hana með hrollvekjandi hrekkjavökustemningu!

Fylgist með okkur á samfélagsmiðlum! 

Instagram: @framhaldsskolinn_a_laugum
TikTok: @laugaskoli

Ítalíuferð og vetrarfrí!

Nemendur af íþróttabraut Framhaldsskólans á Laugum var á Ítalíu 26. september – 5. október sl. Þau fóru á vegum Erasmus og tóku þátt í verkefninu Goal, þar sem þau lærðu meðal annars um Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. 

Á Ítalíu kynntust þau grískum og ítölskum ungmennum, en tilgangur verkefnisins er meðal annars að kynnast krökkum frá öðrum menningarheimum og kynna sitt land, menningu og venjur. Hnikarr, íþróttakennari, fór með hópnum út. Ferðalagið hófst með flugi til Parísar þar sem þau millilentu en flugu þaðan til Rómar og keyrðu þaðan í bæinn Capriola, sem er bærinn sem þau gistu í. Nemendur íþróttabrautar fóru m.a í ratleik um bæinn og kynntust á þann hátt hinum krökkunum. Öll löndin héldu sína kvöldvöku og kenndu nemendur íþróttabrautar grískum og ítölskum ungmennum meðal annars skítakall, gulrótaleikinn og héldu spurningakeppni um Ísland. Nemendur höfðu með sér íslenskan mat sem jafnaldrar þeirra fengu að smakka – harðfisk, lakkrís og íslenskt súkkulaði. Einnig fóru nemendur í dagsferð til Rómar þar sem þau fengu frjálsan tíma til að skoða sig um og kíkja í búðir.

 

Vetrarfrí 14.-24. október

Í dag fara nemendur og starfsfólk í vetrarfrí, frá og með í dag, 14. október. Kennsla fer fram til hádegis í dag, og munu nemendur borða hádegismat og fara svo heim. Nemendur koma aftur í Lauga mánudaginn 24. október og fá kvöldmat kl. 18:00. Kennarar munu fara í námsferð til Finnlands og Eistlands í vetrarfríinu, einnig er útskriftarhópur Laugaskóla farinn í útskriftarferðina sína, og með þeim fylgir Jón Sverrir húsbóndi og Inga.

Námsferð til Vopnafjarðar 19. september 2022

Nemendur í áfanganum „Vesturferðir Íslendinga“ fóru ásamt kennara sínum, Rögnu Heiðbjörtu Ingunnardóttur til Vopnafjarðar í upplýsingaöflun. Ágústa Þorkelsdóttir á Refsstað við Vopnafjörð fræddi nemendur um Vesturferðirnar og lífið á heiðarbýlunum. Veðrið lék við okkur og kennslustund hjá Ágústu var utandyra þar sem nemendur nutu fróðleiks hennar eins og myndir sýna. Þaðan var farið í Kaupvangi á Vopnafirði þar sem Cathy Josephson  tók á móti okkur og sýndi okkur Vesturfarasafnið sem hún hefur unnið að. Það var gott að koma til hennar og sjá verk sem hún hefur komið fyrir í sýningarsalnum. Nemendur fóru heim með fangið fullt af fróðleik og fram undan er verkefnavinna eftir áhugaverða fræðslu hjá Ágústu og Cathy. Við þökkum fyrir yndislegar móttökur á Vopnafirði.

-Ragna Heiðbjört Ingunnardóttir

Kærleikur frá Laugaskóla

SSNE (Samtök sveitarfélaga og atvinnuþróunar á Norðurlandi Eystra) eru að vinna að SAMNOR kynningarefni fyrir framhaldsskóla á Norðurlandi. Þetta er skemmtilegt verkefni og okkur þykir gaman að taka þátt í því. Í gær kom Jón Tómas, tökumaður, frá auglýsingastofunni Eyrarlandi og tók upp efni fyrir Laugaskóla. Nemendur og starfsfólk voru mjög samvinnuþýð í þessu verkefni og meðal annars fóru út og mynduðu stórt hjarta á torginu.

SAMNOR samanstendur af Framhaldsskólanum á Laugum, Menntaskólanum á Tröllaskaga, Framhaldsskólanum á Húsavík, Verkmenntaskólanum á Akureyri og Menntaskólanum á Akureyri.

Við hlökkum til að sjá lokaútkomuna á þessu kynningarefni!

Fyrsta vikan á nýju skólaári

Skólinn var settur sunnudaginn síðastliðinn í Íþróttahúsinu á Laugum. Sama dag opnuðu vistirnar og nýnemar og eldri nemendur streymdu að með búslóðina í eftirdragi. Fyrsta vikan í framhaldsskólanum á Laugum köllum við Brunn og er að venju samkvæmt óhefðbundin kennsla þá vikuna. Á mánudaginn var sett upp þrautabraut á skólalóðinni, þar sem nemendur skemmtu sér við hinar ýmsu þrautir.

Á þriðjudaginn fóru nemendur í gönguferð í blíðskaparveðri, þar sem þau gengu úr Þverá í Laxárdal í Laugar.

Í morgun lögðu nemendur ásamt starfsfólki af stað til Akureyrar en þar munu þau skoða Flugsafnið og Iðnaðarsafnið. Um hádegi fara þau í Kjarnaskóg og fara í leiki, halda strandblaksmót og grilla. Dagurinn endar svo á kvöldverði og bíó í Þróttó. Á morgun hefst skóladagurinn klukkan 11:00.

Við hvetjum áhugsama um að fylgja okkur á samfélagsmiðlum!

 

File:Instagram logo 2022.svg - Wikimedia Commons Instagram @framhaldsskolinn_a_laugum

 

tiktok logo black mobile social media icon 2557421 Vector ... TikTok @laugaskoli

 

 

 

Stundatöflulaus skóli!

Náms- og kennsluumhverfi og aðferðir við Framhaldsskólann á Laugum er í stöðugri þróun. Nú á haustönn 2022 verður tekið enn eitt skrefið til framþróunar. Hefðbundnar stundatöflur verða lagðar til hliðar en allir nemendur verða með samfelldan vinnudag og skráðir í vinnustofu tíma allan skóladaginn.
Eitt af markmiðum þróunarverkefnisins er að kennsla færist enn frekar í átt að vendikennslu. Áhersla er lögð á að hafa námsefni og leiðbeiningar að sem mestu leyti rafrænt þannig að það sé ávallt aðgengilegt nemendum og þeir geti unnið sjálfstætt að náminu hvenær sem er og hvar sem þeir eru staddir.
Möguleiki er á miklum sveigjanleika þar sem t.d. er hægt að taka út hluta nemenda úr  hópi og bjóða þannig þeim sem þurfa á því að halda meiri þjónustu. 

Nánari upplýsingar um þetta breytta námsfyrirkomulag má lesa hér

 

Skólabyrjun

Image

Nú fer að líða að skólabyrjun en skólinn verður settur kl. 18:00 sunnudaginn 28. ágúst. Heimavistir opna kl. 13:00 þann dag. Við á Laugum eru orðin spennt fyrir að fá okkar gömlu nemendur aftur sem og að kynnast nýjum nemendum. Í þessari viku ættu allir nemendur að fá bréf í tölvupósti með helstu upplýsingum, t.a.m. það sem þeir þurfa að hafa með sér, þvottanúmer, herbergi og herbergisfélagi o.s.frv. Bókalisti mun koma hér inn á heimasíðuna (undir námið) fljótlega þar á eftir. Þar eru bækurnar sem notaðar eru í hverjum áfanga taldar upp undir áfangaheitinu (t.d. DANS2AT05) nema að bækur almennrar brautar eru taldar upp undir Almenn braut. Nemendur og foreldrar geta farið inn á Innu (inna.is) og skráð sig inn með rafrænum skilríkjum til að sjá hvað áfanga þeir eiga að taka núna í haust og útvega sér þá þær bækur sem eru taldar upp undir þeim áföngum á bókalistanum. Ef spurningar vakna má alltaf hringja í 464-6300 eða senda tölvupóst á si.ragual@ragual.

Hlökkum til að sjá ykkur og samstarfsins næsta vetur.

Dr. Sigurbjörn Árni Arngrímsson
Skólameistari