Félagslífið á Laugum, fyrsta mánuðinn.

Félagslífið á Laugum, fyrsta mánuðinn.  

Fjórða vika skólans er nú að enda. Félagslífið er að blossa upp og hefur margt gerst núna í byrjun skólans.  

Í annarri vikunni, 4-8. september, var margt skemmtilegt í boði fyrir nemendur. Sunnudaginn 3. september var haldið spilakvöld þar sem ýmis borðspil voru í boði. Síðan á mánudeginum var slip and slide vatnsrennibraut fyrir utan skólann þar sem nemendum var boðið að koma út og renna sér niður brekkuna hjá tröllaplani. Það var mjög góð mæting þrátt fyrir smá kulda. Á þriðjudagskvöldinu var haldin fyrsta vistakeppnin. Þá keppa heimavistirnar í alls konar keppnum yfir allan veturinn þar sem markmiðið er að reyna að ná sem flestum stigum. Í fyrstu keppninni var keppt í dodgeball þar sem hart var barist. Heimavistin Fjall/Draugasteinn ásamt utanvistar, nemendum unnu keppnina með 5 stig, Álfasteinn og mið Tröllasteinn með 3 stig og efsti og neðsti Tröllasteinn með 1 stig. Kvöldið eftir var fyrsti hittingur tölvuleikjafélagsins Fjölspilara FLandrarar á þessu skólaári þar sem nemendum var boðið að koma í gömlu laugina í Gamlaskóla  og taka þátt í mario kart móti þar sem voru veglegir vinningar fyrir sigurvegarann. Á fimmtudeginum var svo sundlaugapartý í sundlauginni um kvöldið og þar var spiluð tónlist og mikið fjör.  

Í þriðju vikunni, 11-14. september, var annar hittingur hjá Fjölspilara FLöndrurum og var spilað Super Mario Party. Á föstudeginum var Fancy Fössari, þar mættu nemendur í fínni fötum og Systa stærðfræði, íþrótta- og vinnustofukennari sá um tónlist eins og hún gerir á hverjum föstudegi. Sunnudaginn 17. september var movie kvöld niðri í gömlu lauginni og horft var á myndina Shrek 2. 

Þessi vika hefur verið ögn rólegri í félagslífinu. Vikan hófst á mönsdegi á mánudeginum. Þá var stjórn nemendafélagsins búin að koma fyrir borðum upp í Gamlaskóla og búin að dreifa nammi yfir allt borðið. Þegar nemendur mættu í skólann blasti við þeim allt góðgætið. Í gærkvöldi var svo önnur vistakeppni þar sem keppt var í fótbolta. Fjall vann með 5 stig, neðsti og efsti Trölli í öðru sæti með 3 stig og Álfi og mið Trölli með 1 stig. Eftir vistakeppninar eru Fjall og utanvist á toppnum og hin tvö liðin eru jöfn í öðru sæti.  

Nöfn nemenda: Arndís B og Hjördís Emma. 

 

Vikulegar fréttir nemanda Framhaldsskólans á Laugum

Nemendur í fjölmiðlafræði fá það skemmtilega verkefni í vetur að fjalla um lífð í skólanum og eru það nemendurnir Edda og Elísabet sem hefja leikinn.

Brunnur fyrstu viku Laugaskóla 

Framhaldsskólinn á Laugum var settur sunnudaginn 27. ágúst. Skólasetning var klukkan 18:00 þann dag, en vistin opnaði klukkan 13:00 fyrir þá nemendur sem eru á vist. Skólinn byrjaði síðan klukkan 09:15 mánudaginn 28. ágúst og byrjaði Brunnur þá. 

Dagskrá Brunnsins 

Mánudagur 

Dagurinn byrjaði á því að allir nemendur mættu í Þróttó á skólafund, síðan fóru allir í leiðsagnartíma hjá sínum leiðsagnarkennara. Frímínútur voru eftir það en síðan byrjaði námstækni, grenndarkynning og námsráðgjöf hjá nýnemum, á meðan voru eldri nemar að skipuleggja móttöku fyrir nýnema. Síðan var hádegismatur og eftir hann fóru allir nemendur út á íþróttavöll í leiki. 

Þriðjudagur  

Annar dagur Brunnsins byrjaði á fyrirlestri hjá Kvan í Þróttó. Eftir það voru frímínútur og síðan voru áfangakynningar og vinnustofur að hádegismat. Eftir hádegi fóru allir nemendur í rútur til Mývatnssveitar til að ganga upp á/í kringum Hverfjall og að Dimmuborgum. Þar var síðan farið aftur í rútur og að Jarðböðunum þar sem nemendum og kennurum bauðst að baða sig. Síðan fóru allir í rútur og beint í mat á Laugum. 

Miðvikudagur   

Þriðji dagur Brunnsins fór ekki alveg eins og var planað. Dagurinn átti að byrja á morgunmat og stuttu eftir það ætluðum við að skella okkur í sápurennibraut, þar sem nýnemarnir okkar myndu signa sig og fara með bæn okkar Lauganema. Vegna veðurs þurfti að fresta þeim viðburði um tæpa viku. Þess í stað var farið í skotbolta og leiki á torginu. Keppnisskapið var mikið hjá sumum nemendum á meðan aðrir hlógu að þeim sem pirraðir voru. Meira var ekki gert í Brunni þennan dag, en nemendurnir fóru í hópefli seinna um kvöldið.  

Fimmtudagur 

Síðasti dagur Brunnsins var viðburðarríkur. Dagurinn byrjaði snemma þegar allir hópuðust saman í tvær rútur og ferðinni var heitið til Grenivíkur. Laufás var fyrsti viðkomustaðurinn þar sem bóndinn þar á bæ tók á móti okkur og kynnti okkur fyrir bænum. Þar var verk okkar að taka myndir eða upptöku af okkur sýna hvernig við töldum verk hafa verið unnin áður fyrr. Heimsóknin var lærdómsrík og áhugavert að skoða gamla bæinn. Áfram var haldið til Grenivíkur þar sem við tók ratleikur. Okkur var skipt niður í lið til að leysa þrautir og þurftum við að reyna að safna sem flestum stigum fyrir okkar lið til að vinna. Þrautirnar voru margar og fjölbreyttar alveg frá því að sjá hver væri besti grillarinn yfir í hvert okkar væri best í að stýra kajak. Eftir marga klukkutíma af ratleik hoppuðum við upp í rútu á leið til Akureyrar. Á Akureyri var margt hægt að bralla og nýttu sér margir það og skruppu t.d. í bókabúðir að kaupa skólabækur. Í lok frítímans fórum við öll saman á Vitann og snæddum saman kvöldverð og héldum svo heim í Laugar. 

Nöfn nemenda: Edda Hrönn Hallgrímsdóttir, Elísabet Þráinsdóttir. 

 

Skólasetning 27. ágúst 2023

Framhaldsskólinn á Laugum verður settur 27. ágúst kl 18:00 í íþróttahúsi skólans.

Heimavistir opna kl 13:00 þann sama dag og nemendur sækja lykla og skrifa undir húsaleigusamning á skrifstofu skólans.

Að skólasetningu lokinni verður viðstöddum boðið upp á kvöldverð.

Við vekjum athygli á  að bókalista haustannar má finna á heimasíðunni.

Gleðilegt nýtt skólaár 🙂 

Brautskráning Framhaldsskólans á Laugum

 Brautskráning Framhaldsskólans á Laugum fór fram á uppstigningardag og voru 26 nýstúdentar brautskráðir við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Laugum.

Dúx Framhaldsskólans á Laugum er Nikola María Halldórsdóttir með 9,16 í einkunn. Semí-dúx Framhaldsskólans á Laugum er Ólöf Jónsdóttir með 9,02 í einkunn.

Arnór Benónýsson kennari og Ingólfur Víðir Ingólfsson húsbóndi létu af störfum við skólann eftir yfir tveggja áratuga farsælt starf. Arnór hóf störf í janúar 1998 og Ingólfur Víðir haustið 2002. Við þökkum þeim þeirra mikilvæga framlag til skólans og nemenda hans og óskum þeir velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Eldri afmælisárgangar fjölmenntu á brautskráninguna. Við erum afar þakklát fyrir tryggð og vinskap eldri Laugamanna við staðinn og þökkum þeim kærlega fyrir gjafirnar sem þau færðu skólanum og fyrir að sækja Laugar heim. Að brautskráningu lokinni var gestum boðið í kaffiveitingar í Gamla skóla, og voru tæplega 400 manns sem þáðu boðið og drukku kaffi saman.

Við þökkum öllum fyrir komuna á þessum hátíðlega og ánægjulega degi.

Græn skref

Framhaldsskólinn á Laugum hefur lokið öðru skrefi í Grænum skrefum og hélt í því tilefni smá kaffiboð fyrir starfsmenn. Verkefnið Græn skref er fyrir ríkisstofnanir sem vilja draga úr neikvæðum umhverfisáhrifum af starfsemi sinni og efla umhverfisvitund starfsmanna.

Með þátttöku í Grænum skrefum gefst stofnunum tækifæri á að innleiða öflugt umhverfisstarf með kerfisbundnum hætti undir handleiðslu sérfræðinga Umhverfisstofnunar.

Vinna er hafin við skref þrjú og er stefnan að ljúka því fyrir sumarfrí. 

Góðir gestir

Þann 23.mars fengum við góða gesti í Framhaldsskólann á Laugum þegar leikhópinn Stertabenda kom í heimsókn til okkar og setti upp sýninguna Góðan daginn, faggi.

Góðan daginn, faggi er sjálfsævisögulegur heimildasöngleikur unnin upp úr dagbókum Bjarna Snæbjörnssonar frá yngri árum og fjallar á gamansaman en einlægan hátt um aðkallandi málefni tengd hinseginleika; skömm, öráreiti og drauminn um að tilheyra.

Höfundar og aðstandendur sýningarinnar eru hinsegin sviðslistafólk sem öll ólust upp á landsbyggðinni, Bjarni Snæbjörnsson leikari frá Tálknafirði, Axel Ingi Árnason tónskáld úr Eyjafjarðarsveit og Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstjóri frá Hrísey.

Torsten Ulsig frá VIA háskóla í Danmörku kom einnig og kynnti námstækifæri þar í landi  Study in English at VIA University College | VIA

Við þökkum þeim kærlega fyrir  komuna á Laugar í Reykjadal.  

Mín framtíð 2023

Dagana 16.– 18. mars 2023 mun Verkiðn halda Íslandsmót iðn- og verkgreina og framhaldsskólakynningu í Laugardalshöllinni í samvinnu við mennta- og barnamálaráðuneytið, sveitarfélög og fagfélög iðn- og starfsgreina.

Sigurbjörn Árni Arngrímsson, Eygló Sófusdóttir og Olga Hjaltalín verða á staðnum ásamt nokkrum nemendum Framhaldsskólans á Laugum til að kynna starfsemi skólans.

Hér má sjá dagskrá og opnunartíma ásamt frekari fræðslu um viðburðinn: https://namogstorf.is/2023/03/09/min-framtid-opnunartimi-og-dagskra/

Sigurvegarar Tónkvíslar 2023

Það var líf og fjör á laugardagskvöldið þegar Tónkvíslin fór fram fyrir húsfylli í íþróttahúsinu á Laugum. Nemendur sáu til þess að keppnin væri hin allra glæsilegasta og allir keppendur stóðu sig vel og eiga hrós skilið fyrir frábæra frammistöðu ásamt hljómsveitum kvöldsins. Við óskum sigurvegurum kvöldsins þeim Hrólfi Péturssyni og  Alexöndru Hermóðsdóttur innilega til hamingju með vel verðskuldaðan sigur.

Fyrsta sæti í Lífshlaupinu

Lífshlaupið er heilsu og hvatningarverkefni Íþrótta og Ólympíusambands Íslands sem höfðar til allra aldurshópa. Vinnustaðir, skólar og einstaklingar eru hvattir til að taka þátt og nota þannig tækifærið til að efla líkama og sál með því að hreyfa sig daglega. Framhaldsskólinn á Laugum tók þátt í framhaldsskólakeppninni sem ætluð er fyrir 16 ára og eldri og stendur yfir í tvær vikur í febrúar. Boðið var upp á afar fjölbreytta hreyfingu í skólanum í þær tvær vikur sem keppnin stóð yfir og má þar nefna dans, skotbolta og bandvefsnudd. Mikill keppnishugur var í nemendum var það því afar ánægjulegt þegar í ljós kom að Framhaldsskólinn á Laugum hafði sigrað keppnina og erum við afar stolt af okkar nemendum og þeirra árangri.

 

Kynningarmyndband frumsýnt á Laugum

Þann 8. febrúar komu góðir gestir til okkar á Laugar frá Framhaldsskólanum á Húsavík , Menntaskólanum á Akureyri , Menntaskólanum á Tröllaskaga ,Verkmenntaskólanum á Akureyri ,SSNE OG Símey til þess að horfa á sameiginlegt herferðarmyndband sem unnið er í samstarfi við SSNE, samband sveitarfélaga á norðurlandi eystra. Herferð þessi eru ætluð til kynningar á svæðinu og þeim fjölbreyttu möguleikum til náms sem í boði eru. Að frábærri kynningu lokinni var öllum gestum boðið til hádegisverðar í mötuneyti skólans og við þökkum við þeim kærlega fyrir komuna.
 
 
 

Gauragangur

 
Núna eru nemendur ásamt nokkrum starfsmönnum og fólki í nærsamfélaginu að æfa á fullu fyrir frumsýningu á leikritinu Gauragangi sem byggt er á samnefndri bók Ólafs Hauks Símonarsonar og kom út fyrir jólin 1988.
Sýningin er á vegum UMF Eflingar og fá nemendur einingar fyrir þátttökuna.
Frumsýning er föstudaginn 10.febrúar kl 20:30 og hægt er panta miða í síma 6180847 eða á netfanginu moc.liamg@gnilfefmu .
Við hvetjum alla sem hafa tök á að koma og sjá þessa sýningu sem er að mörgu leyti óvenjuleg. Sviðið er í miðjum salnum og sitja áhorfendur í kring og geta keypt sér kakó/kaffi og vöfflur af kvenfélaginu á meðan. Mikið er um dans og söng í sýningunni og það verður gaman að sjá nemendur okkar ásamt starfsmönnum stíga á svið. 
 
 

Þorrablót og félagsvist

Síðastliðið fimmtudagskvöld fór fram árlegt þorrablót Framhaldsskólans á Laugum. Starfsfólk mötuneytis bar fram dýrindis þorramat af sinni alkunnu snilld, og vel var mætt.
Að loknu borðhaldi var spiluð félagsvist þar sem keppt var um þrjú efstu sætin.Gott kvöld og vel heppnað í alla staði

Myndirnar tóku Sólrún Einarsdóttir og Ragna Ingunnarsdóttir

Félagsstarf 60 ára og eldri í Þingeyjarsveit komu í heimsókn

Við fengum góða heimsókn sl. þriðjudag þegar eldri borgarar í Þingeyjarsveit komu í skólann. Tilefnið var að fræðast um nýjan áfanga í Laugaskóla um Vesturferðir Íslendinga og ferð kennara til Vesturheims. Eldri borgarar byrjuðu komu sína á því að þiggja hádegismat þar sem boðið var upp á lambalæri með öllu tilheyrandi.  

Ragna Heiðbjört hefur mótað og kennt þennan áfanga um Vesturferðir Íslendinga og vesturíslensku sem hefur m.a. fengið umfjöllun í Landanum. Ragna byrjaði á því að segja eldri borgurum almennt frá skólastarfinu, viðfangsefni í íslenskuáföngum og hvernig þessi áfangi hefði orðið til sem byggðist á miklu lestrarefni um örlagasögu vesturfaranna. Við það má bæta að það sem er sérstakt við þennan áfanga er að kennslan um Vesturferðirnar tengjast konu sem ólst upp í Reykjadal og Aðaldal og fluttist til Vesturheims í lok 19. aldar, sem gerir áfangann svo lifandi við raunverulegan atburð. Nemendur í áfanganum hafa spurt um afdrif konunnar sem varð til þess að Ragna og Kristján fóru siðastliðið sumar til Vesturheims þar sem afkomendur konunnar fræddu þau um hvernig henni hefði gengið að koma sér fyrir og lifa í ólíku samfélagi þar sem aðstæður voru oft og tíðum erfiðar. Það var því ánægjulegt að segja eldri borgurum frá áfanganum, ferðalaginu vestur um haf og ýmissa áhugaverðra staða í Kanada. 

Að fyrirlestri loknum var öllum boðið í kaffi þar sem borin var fram hin fræga vínarterta. Við þökkum eldri borgurum kærlega fyrir góða heimsókn.  

smelltu á myndirnar til þess að sjá þær stærri