Birt 5. nóvember, 2024
Rafræn vöktun
Rafræn vöktun með öryggismyndavélum í og við húsnæði FL byggir á lögmætum hagsmunum og er metin nauðsynleg í öryggis- og eignavörsluskyni. Tilgangur þeirra er að tryggja öryggi nemenda og starfsfólks, varna því að eigum sé stolið, þær séu skemmdar eða farið um húsnæði skólans í leyfisleysi.
Framhaldsskóli skal haga störfum sínum þannig að nemendur finni til öryggis (33. gr. framhaldsskólalaga nr. 92/2008)
Öryggismyndavélarnar eru samtals 15 og eru þær staðsettar við innganga skólahúsnæðis og heimavista, á göngum heimavistarhúsnæðis og á bílaplönum. Sérstakar merkingar eru við innganga skólans og heimavista til að þeir sem eiga leið um húsnæðið viti af tilvist myndavélanna.
Myndefni sem verður til við vöktun er vistað á sérstökum netþjóni. Aðgang að netþjóninum hefur skólameistari. Myndefnið er eingöngu skoðað vegna eignavörslu eða öryggis, s.s. þjófnaðar, skemmdarverka eða slysa. Myndefnið geymist að hámarki í 30 daga og eyðist sjálfkrafa. Myndefni sem verður til við vöktun er ekki afhent öðrum, undantekning frá þessu er að heimilt er að afhenda lögreglu upptökur, varði þær upplýsingar um slys eða refsiverða háttsemi. Vinnsla persónuupplýsinga sem verður til við rafræna vöktun byggir á heimildum skv. 4. lið, 9. gr. laga um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga nr. 90/2018.
Þessum reglum er ætlað að tryggja meðalhóf, virða rétt til einkalífs, bæði nemenda og annarra sem fara um húsnæði skólans og að ekki sé gengið lengra í vöktun en nauðsyn krefur.
Skoðun myndefnis
Skólameistari hefur einn heimild til að skoða upplýsingar úr rafrænni vöktun.
Myndefni sem verður til við rafræna vöktun er aðeins notað í þeim tilgangi sem lýst er hér að ofan og að því marki sem nauðsynlegt er.
Beiðni um leit í upptökum eftirlitsmyndavéla skal komið á framfæri við skólameistara. Tilgreina skal tilefni og tímamörk umbeðinnar leitar og upplýsingar um þann sem biður um leit.