Reglur

5.1 Réttindi og skyldur nemenda

Með því að greiða innritunargjald (staðfestingargjald) hafa nemendur gert samning við yfirvöld skólans um ástundun náms og góða umgengni. Þeir hafa þar með samþykkt þær reglur sem gilda í skólasamfélaginu í heild og þeir heita að undirgangast þær og virða. Nemendur og foreldrar/forráðamenn hafa ávallt greiðan aðgang að þeim reglum sem í gildi eru á heimasíðu skólans.

Ef viðurlög við reglum varða brottvísun úr skóla eða úr einstökum áföngum skulu nemendur fá skriflega viðvörun eða áminningu áður en til brottrekstar kemur.  Þetta á þó ekki við um brot á reglum sem varða tafarlausa brottvikningu frá skóla.  Í þeim tilfellum fá nemendur skriflega tilkynningu um brottvikningu og hafa viku andmælarétt.

Nemendur og starfsfólk Framhaldsskólans á Laugum skulu

 • ávallt koma fram við aðra af virðingu og kurteisi
 • ganga vel um húsnæði skólans, muni og umhverfi
 • rækja störf sín af alúð og samviskusemi
 • hafa einkunnarorð skólans að leiðarsljósi, en þau eru: Metnaður, trúmennska, tillitssemi og glaðlyndi.

5.2 Reglur heimavistar og skóla

 1. Markmið heimavistarreglna er að tryggja hvíldar- og vinnufrið vistarbúa og eðlileg lífsskilyrði.
 2. Yfirstjórn heimavistar er í höndum skólameistara. Skólameistari hefur sér til aðstoðar umsjónarmann fasteigna, húsbændur, skólaritara, ræstitækna, fjármálastjóra og heimavistarstjóra. Umsjónarmaður fasteigna hefur eftirlit á daginn með því að heimavistarreglum sé fylgt. Húsbændur hafa eftirlit með framfylgni sömu reglna á kvöld – og næturvöktum.
 3. Vistarbúi fær úthlutað tilteknu herbergi við innritun. Honum er óheimilt að flytja milli herbergja án leyfis heimvistarstjóra. Sérhver vistarbúi ber ábyrgð á að fylgja þeim reglum um aga og umgengni sem gilda á heimavistinni og eru í samræmi við ákvæði skriflegs leigusamnings sem vistarbúi og Framhaldsskólinn á Laugum gera sín á milli
 4. Heimavistin er heimili nemenda og skulu þeir njóta heimilisfriðar að fullu. Vistarbúar skulu ávallt ganga hljóðlega um og mega aldrei raska ró og friði íbúa heimavistarhúsanna með hávaða og slæmri umgengni. Vistarbúum ber að sýna hver öðrum sem og starfsfólki tillitsemi og kurteisi. Til þess að tryggja öryggi íbúa heimavistar og til að líta eftir öryggisbúnaði herbergja hefur skólameistari og/eða starfsmaður skólans í hans umboði rétt til að ganga í herbergi til eftirlits.
 5. Vistarbúar skulu ganga vel og þrifalega um herbergi sín og hús skólans. Hver vistarbúi skal annast ræstingu á herbergi sínu, sturtuklefa og salerni. Hvert herbergi er skoðað m.t.t hreinlætis og umgengni á tveggja vikna fresti. Sé hreinlæti/umgengni ábótavant við slíka skoðun fá viðkomandi vistarbúar tvo daga til úrbóta. Sé úrbótum ekki sinnt fá viðkomandi vistarbúar 5 refsistig (sjá kafla 5.3) og eiga að hafa samband við heimavistarstjóra þegar úrbætur hafa verið gerðar. Fyrir hvern heilan skóladag sem líður án úrbóta fá vistarbúar aukalega 2 refsistig. Valdi vistarbúi eða gestur hans skemmdum á heimavistarhúsum eða húsmunum er vistarbúa skylt að bæta þær að fullu skv. mati umsjónarmanns fasteigna.
 6. Ekki er heimilt að ganga á útiskóm innan skóla- eða heimavistarhúsnæðis. Óheimilt er að flytja húsgögn milli herbergja án leyfis umsjónarmanns fasteigna. Óheimilt er að taka húsgögn úr setustofum og skólastofum til notkunar í herbergjum og öfugt.
 7. Nemendum er heimilt að hafa hljómflutningstæki, tölvur og sjónvarpstæki inni á herbergjum sínum sé þess gætt að tækin valdi ekki truflun og að tekið sé tillit til annara íbúa. Eftir kl. 23:30 er notkun slíkra tækja takmörkuð við einstaklingsnot (höfuðtól) alla daga. Sérhver íbúi heimavistarinnar á rétt á því að tilmælum hans um betra næði sé tafarlaust hlýtt. Notkun annarra raftækja en ofantaldra er háð leyfi umsjónamanns fasteigna. Engir munir vistarbúa eru tryggðir á vegum skólans og skólinn tekur ekki ábyrgð á eigum þeirra. Vistarbúi skal sjálfur tryggja sína muni, telji hann ástæðu til.
 8. Vistarbúar mega ekki hafa með sér á heimavist neitt það er slysahætta stafar af, svo sem vopn af hvaða tagi sem er. Öll meðferð elds er óheimil í skóla- og heimavistarhúsum, þar með talin notkun kerta og reykelsis. Öllum nemendum er skylt að taka þátt í brunaæfingum þegar þær fara fram undir leiðsögn slökkviliðsstjóra. Vistun gæludýra á heimavist er bönnuð.
 9. Húsum heimavistar er læst kl. 24.00 sunnud. – fimmtud. Heimavistarhúsin eru opin til kl 01:00 aðfaranótt laugardags (föstudagskvöld) og sunnudags (laugardagskvöld). Frá klukkan 23.30-07.30 dag hvern skal ríkja algjört næði á heimavistum, jafnt á göngum sem á herbergjum.
 10. Engum óviðkomandi er heimilt að dveljast á heimavistum. Heimilt er að hafa næturgest um helgar, en sækja verður um leyfi til þess fyrir kl 11:00 á föstudegi til skólaritara. Skólameistari eða staðgengill hans getur veitt undanþágu frá þessari reglu í sérstökum tilfellum. Vistarbúar bera ábyrgð á herbergjum sínum og að gestir þeirra fari að reglum heimavistar og skóla. Brjóti gestur reglur heimavistar og skóla gilda viðeigandi viðurlög fyrir þann vistarbúa/nemanda sem er gestgjafi.
 11. Reykingar eru með öllu óheimilar í húsum skólans, á skólalóð og í farartækjum sem þar kunna að vera. Sama gildir um aðra tóbaksnotkun s.s. rafrettur, munntóbak og neftóbak.
 12. Ölvun, meðferð, dreifing, varðveisla og neysla áfengis og annarra vímuefna er stranglega bönnuð, sbr. lög nr. 75/1998, 4. gr., liðir a), b) og c) svo og 18. gr. sömu laga.  Bann þetta nær til alls húsnæðis skólans, lóðar hans og farartækja sem þar kunna að vera sem og á ferðalögum, samkomum eða öðru sem fram fer á vegum skólans. Áfengisumbúðir eru bannaðar á heimavistarherbergjum. Ef grunur vaknar um geymslu á áfengi eða ólöglegum vímuefnum, hafa húsbændur, umsjónarmaður fasteigna og/eða skólameistari eða staðgengill hans rétt til inngöngu í heimavistarherbergi til að rannsaka skápa og hirslur, að viðstöddum íbúum herbergisins. Ef rökstuddur grunur er og brýna nauðsyn ber til, eiga sömu aðilar rétt til inngöngu að íbúum herbergisins fjarstöddum, en að viðstöddum lögráða fulltrúa þeirra.
 13. Óheimilt er með öllu að neyta, varðveita, dreifa eða vera undir áhrifum ólöglegra vímuefna eða hafa tæki til neyslu í vörslu sinni í húsum skólans, á skólalóð, svo og á ferðalögum, samkomum eða öðru sem fram fer á vegum skólans. Brot á þessari grein varðar tafarlausri brottvísun. Skólinn stendur fyrir reglubundnum og fyrirbyggjandi aðgerðum svo sem utanaðkomandi eftirliti af hálfu lögreglu a.m.k. einu sinni á önn. Vakni grunur um meðferð og/eða neyslu ólöglegra vímuefna hjá nemanda, geta skólayfirvöld óskað eftir að nemandinn undirgangist vímuefnapróf og sæki sér viðeigandi aðstoð. Neiti nemandinn að undirgangast vímuefnapróf varðar það brottvikningu.
 14. Komi til brottvísunar af heimavist eða úr skóla skal skólameistari gefa skriflega tilkynningu um slíka brottvísun. Íbúi á heimavist skal hafa rýmt herbergi sitt innan sjö daga frá dagsetningu tilkynningar um brottvísun.
 15. Einelti er ekki liðið í skólanum.  Hér telst einnig með rafrænt einelti. Nemandi eða nemendur sem verða uppvísir að slíku, fá áminningu, tiltal, tímabundna eða endanlega brottvikningu af heimavist eða úr skóla, allt eftir alvarleika máls.
 16. Reglur þessar taka gildi frá 1. ágúst, 2018 og falla þar með úr gildi eldri heimavistarreglur.  Endurskoðun heimavistarreglna getur farið fram hvenær sem er í skólaráði.

5.3 Viðurlög við brotum á reglum heimavistar og skóla

Verði nemandi uppvís að brotum á reglum heimavistar og skólans hlýtur hann fyrir það refsistig skv. neðangreindu kerfi. Hljóti nemandi meira en 30 stig þýðir það brottvísun af heimavist og í alvarlegum tilfellum úr skóla.

Viðurlög:

35 stig:           Tafarlaus brottvísun fylgir eftirfarandi brotum:

 • Neyta, varðveita, dreifa eða vera undir áhrifum ólöglegra vímuefna eða hafa tæki til neyslu í vörslu sinni í húsum skólans, á skólalóð, svo og á ferðalögum, samkomum eða öðru sem fram fer á vegum skólans.
 • Neita að undirgangast vímuefnapróf sé rökstuddur grunur um neyslu til staðar.
 • Valda verulegum skemmdum á munum og húsnæði skólans.

Þessi stig fyrnast á 40 kennsluvikum að frátöldum jóla-, páska- eða sumarleyfum.

20 stig:           Ölvun, meðferð, dreifing, varðveisla og neysla áfengis í húsum skólans, á lóð hans eða í farartækjum sem þar kunna að vera sem og á ferðalögum, samkomum eða öðru á sem fram fer á vegum skólans.

Þessi stig fyrnast á 30 kennsluvikum að frátöldum jóla-, páska- eða sumarleyfum. Athugið að við fyrsta brot er fyrningatími refsistiga 20 kennsluvikur að frátöldum jóla-, páska- eða sumarleyfum.

15-30 stig:      Skemmdir á munum eða húsnæði skólans. Stigafjöldi fer eftir umfangi skemmda og verður ákvarðaður í skólaráði sem og fyrning refsistiga varði brotið 19-30 stig.

15 stig:           Sérhver hindrun þess að reykskynjarar virki sem skyldi.

10 stig:           Reykingar og önnur tóbaksnotkun í húsum skólans, á skólalóð eða í farartækjum sem þar kunna að finnast.

5 stig:             Gestur án leyfis á heimavist. Við hvert endurtekið brot þyngjast viðurlögin um 5 refsistig frá síðasta broti.

5 stig:             Hávaði/ónæði á heimavist. Við hvert endurtekið brot þyngjast viðurlögin um 5 refsistig frá síðasta broti.

5 stig:             Herbergi ekki þrifið innan tveggja daga frá því að það stóðst ekki herbergisskoðun. Fyrir hvern skóladag umfram það bætast aukalega við 2 refsistig.

5-30 stig:        Brot á öðrum reglum heimavistar og skóla. Refsistigafjöldi fer eftir umfangi og eðli brots og verður ákvarðaður í skólaráði.

Hljóti nemandi 5-9 eða refsistig á hverju fjögurra kennsluviknatímabili að frátöldum jóla-, páska- eða sumarleyfum (tímabil hefst þegar fyrsta brot er bókað), fyrnast þau að fullu á því tímabili.

Hljóti nemandi 10-19 refsistig á hverju fjögurra kennsluviknatímabili að frátöldum jóla-, páska- eða sumarleyfum, tekur hann helming þeirra með sér yfir á nýtt fjögurra vikna kennsluviknatímabil.

Hljóti nemandi 20-30 refstig á hverju fjögurra kennsluviknatímabili að frátöldum jóla-, páska- eða sumarleyfum, tekur hann 2/3 þeirra með sér yfir á nýtt fjögurra vikna kennsluviknatímabil. Athugið að þetta gildir ekki um áfengis- eða vímuefnabrot eða um skemmdir á munum og húsnæði skólans umfram 19 stig. Um slík brot gilda fyrningar útlistaðar sérstaklega hér að ofan.

5.4 Skólasóknarreglur

Nemendur skulu mæta stundvíslega í alla bundna tíma, hóptíma og námstíma. Hverri önn er að jafnaði skipt upp í 3-4 vikna tímabil og eru mætingar nemenda þá skoðaðar af áfangastjóra og sendar leiðsögukennurum. Nemandi fær skráða fjarvist mæti hann meira en sjö mínútum of seint í bundna tíma, hóptíma eða námstíma með þeirri undantekningu að ekki er hægt að mæta of seint á standandi fundi hóptímanna. Nemandi sem ekki er mættur á réttum tíma á standandi fund fær fjarvist fyrir þann hóptíma. Það er á ábyrgð nemenda að tilkynna sig umsjónarkennara námstíma hverju sinni.

Verði brestur á mætingu gilda eftirfarandi viðurlög:

Viðvörun:      Sé raunmæting nemanda á tímabili undir 85% fær viðkomandi viðvörun frá leiðsögukennara. Viðkomandi nemandi fær einstaklingsviðtal hjá leiðsögukennara og námsráðgjafa þar sem skýringa er leitað á slakri viðveru. Nemandi með viðvörun getur losað sig undan henni ef heildarraunmæting allra tímabila hans á önninni er samtals yfir 85%.

Úrsögn:         Nemandi með viðvörun þarf að skrá sig úr einum áfanga fyrir hvert tímabil sem raunmæting hans er undir 85%. Þetta skal leiðsögukennari vinna í samráði við nemandann, áfangastjóra og námsráðgjafa.

Brottvísun:    Ef nemandi í 12 einingum eða færri þarf að skrá sig úr áfanga, telst hann hafa sagt sig frá námi við FL. Komi til þessa getur nemandi leitað til skólaráðs og óskað eftir með rökstuðningi að fá undanþágu frá úrsögn úr námi. Fái nemandi slíka undanþágu fer hann á sérstakan námssamning hjá skólastjórnendum, námsráðgjafa og leiðsögukennara.

Nemandi getur fengið að taka sjúkrapróf á sjúkrapófstíma skólans sé hann veikur þegar próf fer fram. Veikindi ber að tilkynna til skólaritara fyrir kl. 10:00 þann dag sem nemandi er veikur. Sé nemandi ólögráða ber foreldri/forráðamanni að tilkynna veikindin fyrir kl.10.00. Nemandi sem hefur tilkynnt veikindi á að halda til í herbergi sínu. Sjáist til hans annars staðar fær hann fjarvistir skráðar fyrir allan daginn. Veikum nemanda er þó heimilt að mæta til að matast í matsal skólans á matmálstímum. Athugið að veikindin teljast sem fjarvistir og lækka því raunmætingu nemandans.

Þjáist nemandi af langvinnum sjúkdómi/heilsuleysi ber honum að skila inn vottorði frá sérfræðingi á viðkomandi sviði, þar sem fram koma helstu upplýsingar um sjúkdóminn og möguleg áhrif hans á skólasókn. Það sama gildir verði nemandi veikur um lengri tíma (t.d. sé rúmfastur í viku vegna flensu). Nemandi mun þá hugsanlega fá ákveðnar undanþágur frá  skólasóknarreglum. Verði nemandi uppvís að því að misnota vottorð eins og hér er um að ræða, áskilur skólinn sér rétt til hætta að taka það til greina.

Nemandi getur sótt um leyfi frá skólasókn til skólameistara (eða staðgengils hans í fjarveru skólameistara) ef góðar og gildar ástæður liggja þar að baki. Nemandi með slíkt leyfi getur fengið að taka sjúkrapróf á sjúkraprófstíma skólans fari próf fram á leyfistíma nemandans. Sem dæmi má nefna að tekið er tillit þess ef nemendur eru veðurtepptir og einnig eru veitt leyfi ef nemandi þarf að leita til læknis, tannlæknis eða annara fagaðila en nemendur skulu þá skila inn staðfestingu frá viðkomandi aðila. Athugið að slík leyfi teljast sem fjarvistir og lækka því raunmætingu nemandans.

Félagsmálafulltrúi getur sótt um leyfi frá skólasókn þurfi nemandi að starfa fyrir nemendafélagið. Leyfi á grundvelli slíkrar beiðni er ekki veitt nema að heildarraunmæting allra tímabila á önninni sé 85%.

Nemandi sem á stöðugt í vanda með að uppfylla skólasóknarreglur og er með raunmætingu undir 75% við lok hverrar annar á ekki trygga skólavist á næstu önn.

5.5 Reglur um nám utan skóla

Einstaka áfangar geta verið í boði utan skóla fyrir nemendur sem eru u.þ.b. að ljúka námi sínu héðan frá skólanum. Einnig fyrir fólk hér í héraði sem vegna aðstæðna á þess ekki kost að sækja nám í dagskóla, t.d. ungir foreldrar. Alltaf er þó miðað við að nemendur séu í hlutanámi. Ekki er hægt að bjóða uppá alla áfanga utan skóla og jafnan er miðað við að áfangarnir séu ekki fleiri en tveir, a.m.k. til að byrja með. Nemendur í sem stunda nám utan skóla geta ekki vænst sömu þjónustu frá kennurum og nemendur í dagskóla. Í sumum tilfellum eru nemendur utan skóla með sérstaka námsáætlun og öðruvísi námsmat en nemendur í dagskóla.  Nemendur þurfa að vera mun sjálfstæðari í náminu og hafa ekki greiðan, daglegan aðgang að kennurum.  Þeir þurfa að hafa frumkvæði að því að hafa samskipti við kennara t.d. í tölvupósti og fylgjast vel með öllum fyrirmælum m.a. í Moodle.

Kennarar Framhaldsskólans á Laugum

 • Láta nemendur fá námsáætlun sem getur verið eins og hjá dagskólanemendum eða verið aðlöguð námi utan skóla.
 • Geta kallað eftir nemendur í verkefni/próf um miðja önn og í lok annar
 • Láta nemendum í té kennslugögn sem dreift er meðal dagaskóla

Nemandi sem stundar nám utan skóla við Framhaldsskólann á Laugum

 • Ber að fara eftir námsáætlun
 • Hefur ekki lengri skilafrest á verkefnum en tilgreint er í námsáætlun
 • Ber að vera í reglulegu sambandi við kennara, minnst mánaðarlega
 • Getur óskað eftir við áfangastjóra að fá að taka skrifleg próf í heimabyggð. Slík ósk þarf að berast með fimm daga fyrirvara.

Nemendur sem eru utan skóla greiða samkvæmt verðskrá skólans.

5.6 Tölvunotkunarreglur

Öllum nemendum er úthlutað notandanafni og aðgangsorði og hafa því allir nemendur aðgang að tölvuneti bæði í kennslustofum og á herbergjum. Öll notkun á tölvukerfi skólans, bæði á heimavistum og annarsstaðar, lýtur sömu reglum.

Tölvu- og netbúnaður Framhaldsskólans á Laugum er eign skólans og ætlaður til náms, kennslu, kynningar og annars þess sem samræmist markmiðum skólans.

 • Handhafi notandanafns á tölvukerfi skólans er ábyrgur fyrir allri notkun þess.
 • Skólinn áskilur sér rétt til að fara yfir, skoða og eyða gögnum á gagnasvæðum nemenda til að tryggja að reglum um notkun búnaðarins sé fylgt.

Óheimilt er:

 • að veita öðrum aðgang að notandanafni sínu,
 • að reyna að tengjast tölvubúnaði skólans með öðru notandanafni en því sem notandi hefur fengið úthlutað,
 • að nota aðgang að neti skólans til þess að reyna að komast ólöglega inn á net eða tölvur í eigu annarra,
 • að sækja, senda, geyma eða nota á neti eða í tölvum skólans forrit eða gögn sem hægt er að nota til innbrota, skemmdarverka eða annars ólöglegs athæfis,
 • að breyta vinnuumhverfi á tölvum skólans þannig að það hafi áhrif á umhverfi og notkunarmöguleika annarra notenda,
 • að breyta, afrita eða fjarlægja vélbúnað, hugbúnað eða gögn sem eru í eigu skólans,
 • að afrita hugbúnað eða gögn í eigu annarra án leyfis eiganda,
 • að setja inn hugbúnað á tölvur skólans án samþykkis kerfisstjóra,
 • að nota nettengingu skólans til að vísa á, senda, sækja eða geyma klámefni eða ofbeldisefni,
 • að senda keðjubréf og annan ruslpóst, t.d. sams konar bréf á alla notendur, auglýsingar og aðrar fjöldasendingar,
 • að nota leiki í tölvum skólans.
 • að nemandi tengist þráðlausu neti starfsmanna (Laugar-Starfsmenn)

Að öðru leyti er vísað til notkunarskilmála ISnets og notkunarreglna FS-netsins. Notendur kerfisins skulu að kynna sér þessar reglur þar sem þeir eru ábyrgir samkvæmt þeim. Brot á þessum reglum geta leitt til lokunar á aðgangi að tölvukerfi skólans eða fyrirvaralausrar brottvísunar úr skóla – sé um alvarleg eða endurtekin brot að ræða.

Deila