Vetrarfrí og uppbrot

Skólahald hefur verið með aðeins breyttu sniði síðastliðna viku.

Nemendur fóru í vetrarfrí 18. október og mættu endurnærðir aftur á vistarnar 22. október. Það er nauðsynlegt að brjóta upp á hið daglega amstur og fá frí frá hefðbundnum skóladegi. Á miðvikudaginn sl. hófst svokallað Uppbrot, en þá fáum við námskeiðshaldara til þess að vera með hin ýmsu námskeið sem nemendur velja. Í þetta sinnið gátu nemendur valið um fjögur námskeið; Íþróttir og útivist, mannréttindamál, hryllingsmyndir og Morfís.

Uppbrotinu líkur í dag, 25. október og eftir helgi tekur rútínan og hefðbundið skólahald við að nýju. Það má með sanni segja að veturinn sé kominn, en hér á Laugum er allt á kafi í snjó.

Samstarfsverkefni FL við skóla frá Tékklandi

Framhaldsskólinn á Laugum vinnur nú að alþjóðlegu samstarfsverkefni sem styrkt er af Erasmus+ styrkáætlun ESB. Skólinn er í samstarfi við skóla frá Tékklandi og heitir verkefnið „Hiking in Europe“ og snýst um útivist og gönguferðir á fjöllum og stígum. Verkefnastjórar verkefnisins eru þau Bjarney Guðrún og Hnikarr.

Verkefnið hófst í haust með heimsókn þriggja kennara frá Tékklandi hingað í lands. Tilgangur heimsóknarinnar var að undirbúa heimsókn þeirra sem ráðgerð er haustið 2020 þar sem þessir þrír kennara koma með tíu nemendur til að vinna að verkefnum með nemendum Laugaskóla. Farið var og skoðað Ásbyrgi, Hljóðakletta, Dettifoss og Jarðböðin við Mývatn. Einnig var tekin dagsferð uppí Öskju með viðkomu í Herðubreiðarlindum, Dreka og Holuhrauni. Áætlunin er að nemendurnir muni einnig heimsækja þessa staði.

Verkefnastjórarnir munu síðan fara í svipaða kynningarferð til Tékklands næsta vor til að undirbúa og skipuleggja heimsókn með nemendur til Tékklands vorið 2021.

Þetta er í fyrsta skiptið sem FL tekur þátt í verkefni á vegum Erasmus+.