NÁMIÐ

Námið við Framhaldsskólans á Laugum er fjölbreytt, krefjandi og þroskandi. Það skal ætíð vera í samræmi við menntastefnu skólans og aðalnámsskrá. Námið mætir ólíkum þörfum, getu og áhugasviðum nemenda. Því skal leitast við að nemendur fái viðfangsefni við hæfi og séu hvattir til virkrar þátttöku, vinnusemi, sjálfstæðra og agaðra vinnubragða og góðs árangurs. Nemendur eru hvattir til gagnrýninnar og skapandi hugsunar og að hafa áhrif á nám sitt og námsumhverfi þar sem þeir starfa saman á jafnréttisgrundvelli og þroska með sér réttlætiskennd, ábyrgð og aukna samskiptahæfni.

Hefðbundinn skóladagur hefst á morgunmat kl. 8:45. Kennsla byrjar kl. 09:15 og er samfelld til kl. 15:30, með hádegishléi. Hluti íþróttakennslu fer þó fram á milli kl. 16-18. Að skóladegi loknum gefst nemendum kostur á að sinna félags- og tómstundastörfum. Gert er ráð fyrir því að nemendur ljúki alla jafna vinnu sinni innan hefðbundins skóladags. Skóladagurinn er samfelldur hjá öllum nemendum skólans og því engar eyður í stundarskrá.

Náms- og kennsluumhverfi og aðferðir við Framhaldsskólann á Laugum er í stöðugri þróun. Haustið 2022 var tekið enn eitt skrefið til framþróunar. Hefðbundnar stundatöflur hafa verið lagðar til hliðar en allir nemendur verða með samfelldan vinnudag og skráðir í vinnustofutíma allan skóladaginn. 

Inntökuskilyrði

Inntökuskilyrði á stúdentsbrautirnar félagsvísindbraut, íþróttabraut, kjörsviðsbraut og náttúruvísindabraut eru að nemandi hafi að lágmarki einkunnina B í kjarnagreinum úr grunnskóla. Inntökuskilyrði á almenna braut eða grunnnámsbraut eru að hafa lokið grunnskóla.

Vinnustöðvar

Hver nemandi fær persónulega vinnustöð í opnu rými þar sem hann getur unnið í vinnustofutímum sem og utan hefðbundins skólatíma. Á þessari vinnustöð getur nemandinn geymt námsbækur, námsgögn og aðra muni sem tengjast náminu. Þetta fyrirkomulag gefur möguleika á sveigjanlegu námsumhverfi og samfelldum skóladegi án eyða í stundaskrá nemenda. Það gefur nemandanum færi á að nýta tíma sinn betur, bæði til náms og tómstunda.

Sveigjanlega námsumhverfið þar sem nemendur stunda nám sitt í opnu vinnurými í vinnustofutímum undir verkstjórn kennara auk þess að mæta í hefðbundnar kennslustundir þar sem kennarar eru með sínum hóp kallar á aðrar og fjölbreyttari námsaðferðir. Nemandinnn fær einnig persónulega leiðsögn gegnum framhaldsskólann og honum gert kleift að ráða nokkru um námshraða sinn.

Með sveigjanlegu námsumhverfi og persónubundinni námsáætlun opnast möguleiki til að sinna öllum nemendum sem einstaklingum, bæði þeim sem standa höllum fæti í námi og ekki síður þeim sem búa yfir mestri námslegri færni. Nemendur geta tekið ákveðna námsáfanga eða námsbrautir á þeim hraða sem þeir ráða við og í boði eru hverju sinni. Kjósi nemandi að hraða námi sínu kallar það á meira vinnuframlag utan hefðbundins skóladags.

Með þess vonast skólinn til að:

  • gera skólann að betri skóla
  • auka gæði náms við skólann
  • bæta námsárangur
  • bæta mætingu og minnka brottfall
  • geta sinnt öllum nemendum skólans á einstaklingsmiðaðan hátt, þar sem tekið er tillit til námsgetu og þroska hvers einstaklings fyrir sig
  • bæta líðan nemenda í skólanum
  • auka ábyrgð nemandans á eigin námi
  • auka möguleika nemenda til að hraða námi sínu
  • búa nemendum námsumhverfi sem undirbýr þá enn betur undir þátttöku í atvinnulífi og frekara nám, m.a. með samfelldum skóladegi
  • halda betur utan um nemendur félagslega og námslega, m.a. með efldu umsjónarstarfi
  • beita fjölbreyttari námsaðferðum
  • auka möguleika kennara til samstarfs og samvinnu
  • stuðla að framþróun í notkun upplýsingatækni við skólann
  • skapa skólanum sérstöðu

Vinnustofutímar eru mislangir eftir því hvenær á deginum þeir eru. Kennarar hafa möguleika á að taka nemendur í sínum áföngum,  alla eða í smærri hópum, í úttektir sem ýmist eru skylda eða valfrjálsar. Í upphafi hverrar viku er gert ráð fyrir tíma þar sem nemendur skipuleggja vikuna sína. Þá eru skylduúttektir þegar komnar inn í töflu nemenda fyrir þá viku.

Í vinnustofutímum vinna nemendur að námi sínu undir verkstjórn kennara. Þeir skipuleggja sjálfir að hvaða verkefnum þeir kjósa að vinna hverju sinni. Þeir sinna náminu á vinnuborði sínu eða fara annað m.a. til hópavinnu. Hlutverk kennarans er að aðstoða nemendur, bæði við námsefnið en ekki síður við vinnubrögð og skipulag.

Eitt af markmiðum þróunarverkefnisins er að kennsla færist enn frekar í átt að vendikennslu. Áhersla er lögð á að hafa námsefni og leiðbeiningar að sem mestu leyti rafrænt þannig að það sé ávallt aðgengilegt nemendum og þeir geti unnið sjálfstætt að náminu hvenær sem er og hvar sem þeir eru staddir. Vinnustofutímar, úttektir og önnur námsvinna nemenda er ein heild í námi nemenda okkar og hefur allt jafn mikið vægi.

Í úttektum geta kennarar farið með sinn hóp yfir í aðra kennslustofu og unnið með hópnum   þar. Möguleiki er á miklum sveigjanleika þar sem t.d. er hægt að taka út hluta nemenda úr  hópi og bjóða þannig þeim sem þurfa á því að halda meiri þjónustu. Kennarar panta úttektir fyrir sína áfanga. Gert er ráð fyrir því að í hverjum hóptíma séu alltaf a.m.k. tveir kennarar sem ekki fara í úttektir.

Teams er það rafræna umhverfi sem allir nota. Þar setja kennarar inn alla áfanga með kennsluáætlunum, fyrirmælum, kennsluefni, verkefnum og einkunnum. Það er einnig notað fyrir stundatöflur, þ.e. þar panta kennarar tíma fyrir úttektir. Samskipti og upplýsingagjöf kennara, nemenda og starfsmanna eiga sér stað á Teams.

Þeir sem vilja kynna sér málið enn frekar er bent á að hafa samband við námsráðgjafa skólans.