Afreksþjálfun fyrir nemendur

Nemendum sem stunda keppnisíþróttir stendur til boða að taka áfanga í afreksþjálfun samhliða hefðbundnu námi. Það er áfangi sem býður uppá persónulega þjálfun fyrir keppnisfólk í hvaða íþróttagrein sem er. Þar býðst nemendum að sækja 2 – 3 æfingar í viku hjá íþróttakennara en þær æfingar eru settar inní stundatölfu nemenda þar sem best hentar. Hver og einn nemandi fær æfingaáætlun til að vinna eftir, en hún er sett upp af íþróttakennara í samráði við þjálfara viðkomandi nemanda. Þessi áætlun tekur breytingum eftir því sem líður á veturinn og tekur mið af mótum og stöðu nemandans á æfingar-/keppnistímabilinu. Reglulega eru svo teknar mælingar til að fylgjast með árangri æfinganna bæði sem hvatning fyrir nemendur sjálfa og einnig til að meta hvort breyta þurfi æfingaáætlun og áherslum.

Á þessari önn eru 9 nemendur sem sækja afreksþjálfun með þessum hætti. Þessir nemendur eru að stunda knattspyrnu, sund og frjálsar íþróttir hjá sínum íþróttafélögum.

Auk þess að vera í afreksþjálfun hafa nemendur fullan aðgang að góðri líkamsræktaraðstöðu skólans, sundlaug og íþróttasal þeim að kostnaðarlausu.

Skólaheimsókn

Grunnskólanemar frá Bakkafirði, Mývatnssveit, Vopnafiriði og Þingeyjarsskóla dvöldu hér 14. – 15 febrúar sl. í skólaheimsókn. Nemendur komu um kaffileytið á þriðjudeginum og dvöldu fram yfir hádegi næsta dag. Nemendur Framhaldsskólans á Laugum höfðu veg og vanda af því að gera þessa skólaheimsókn áhugaverða og skemmtilega þar sem dvöl þeirra hófst í íþróttahúsinu og eftir kvöldmat var farið í leiki og spilað. Að loknu kvöldkaffi komst á ró og nemendur komu sér fyrir í heimavistarhúsnæðum skólans. Á miðvikudagsmorgni var svo skólakynning þar sem grunnskólanemar fóru í kennslustundir og fengu kynningu á nokkrum áföngum og að taka þátt í því sem fram fór í tímum. Að hádegisverði loknum héldu nemendur heim á leið. Það var ánægjulegt að fá þennan góða hóp hingað heim að Laugum og vonum við að þau hafi notið þeirrar stundar sem þau dvöldu hér.

Kynning á íslenskunámi við HÍ

Mynd: Hallur B. Reynisson

Á dögunum kom Ásta Kristín Benediktsdóttir í heimsókn til okkar til að kynna fyrir nemendum íslenskunám við Háskóla Íslands. Nemendur sem farnir eru að nálgast útskrift sóttu kynninguna. Gott framtak hjá HÍ og nauðsynlegt að nemendur fái kynningar á því sem er í boði eftir að skólagöngu líkur á framhaldsskólastiginu.

Tónkvíslin haldin með miklum glæsibrag

Mikið var um dýrðir á laugardagskvöldið þegar Tónkvíslin fór fram. Alls voru 21 atriði sem tóku þátt en keppt var bæði í grunnskólakeppni og framhaldsskólakeppni. Keppnin var sýnd í beinni útsendingu á sjónvarpsstöðinni N4 og því mikið lagt í að hafa keppnina sem glæsilegasta. Nemendur skólans fengust við ýmis verkefni á meðan keppnin fór fram, voru á myndavélum, sáu um sviðsstjórn, kynningar og fleira sem gera þurfti til að allt gengi sem best fyrir sig.

 

Gabríela Sól Magnúsdóttir og Friðrika Bóel Jónsdóttir stóðu uppi sem sigurvegarar í lok kvölds en allir keppendur eiga þó hrós skilið fyrir frábæra frammistöðu. Kristinn Ingi, tölvuumsjónarmaður skólans, var á staðnum og tók þessar myndir sem segja meira en mörg orð.

 

Einn dagur í Tónkvísl – Undirbúningur

Tónkvíslin er tónlistarhátíð Framhaldsskólans á Laugum og hefur verið haldin í tengslum við undankeppni Söngkeppni framhaldsskólanna. Tónkvíslin er haldin í 12. sinn og var ákveðið að halda hana í ár þrátt fyrir að Söngkeppni framhaldsskólanna verði ekki haldin þetta árið og því er Tónkvíslin eina söngkeppni framhaldsskólanna sem sýnd er í sjónvarpi í ár. Sýningin verður í beinni útsendingu á N4, á morgun, laugardagskvöld kl. 19.30 og fer fram í íþróttahúsinu á Laugum þar sem nemendur eru nú í óða önn að breyta íþróttahúsi í tónleikahöll.

Nemendur sjá alfarið um allan undirbúning og framkvæmd Tónkvíslarinnar í umsjá Hönnu Sigrúnar Helgadóttur, kennara sem sér m.a. um félagsmál nemenda. Hljómsveitina skipar eingöngu nemendur og hefur Guðjón Jónsson, fyrrverandi nemandi Framhaldsskólans á Laugum séð um æfingar í vetur þar sem það tekur sinn tíma að æfa yfir 20 lög. Á haustönn hófst undirbúningur þar sem nemendur skráðu sig í hópa og þar má helst nefna smíðahóp, tæknihóp, förðunarhóp og fleiri hópa í umsjá framkvæmdastjórnar Tónkvíslar sem skipað er fjölda nemenda. Framkvæmdastjórn hefur fundað vikulega og metið stöðuna hverju sinni, þar sem fjáröflun og annað fyrirkomulag hefur verið til umræðu. Nú á vorönn hefur vinna þeirra aukist eftir því sem nær dregur þessum góða atburði sem er í raun svo magnaður að það á eiginlega ekki að vera hægt að halda þetta þar sem þetta er stór viðburður sem þarf mikilla skipulagningar við.

Fyrirtæki og aðrir aðilar hafa verið dyggir stuðningsmenn með því að leggja sitt af mörkum við að styrkja þessa keppni. Við njótum einnig aðstoðar tæknimanna frá Exton sem hafa víðtæka reynslu af uppsetningu sýninga og þeim fylgja því hlaðnir vagnar með upphengibúnað fyrir hljóð og ljós.  Auk þeirra njótum við aðstoðar Hlyns frá RÚV á Akureyri sem hefur aðstoðað við uppsetningu á tækjabúnaði í samvinnu við nemendur undanfarin ár og þökkum við öllum þessum aðilum kærlega fyrir þeirra framlag.

Keppendur í ár koma frá nokkrum grunnskólum í nærumhverfi, 10 keppendur frá Framhaldsskólanum á Laugum og einn keppandi frá Framhaldsskólanum á Húsavík en í haust var nemendum frá Húsavík boðið að senda þátttakendur í keppnina. Lögin eru fjölbreytt og að sjálfsögðu fáum við skemmtikraft eins og venja hefur verið undanfarin ár og í þetta sinn er það tónlistarmaðurinn Jón Jónsson sem mun syngja fyrir gesti.

Í dag fara fram söngæfingar þar sem 21 keppandi mun stíga á svið. Við óskum nemendum góðs gengis í keppninni sem fram fer annað kvöld og um leið óskum við nemendum Framhaldsskólans á Laugum til hamingju með enn eina stórstýninguna sem ekki er ofsögum sagt ef vitnað er í orð Þorvaldar Bjarna Þorvaldssonar, tónlistarsjóra. Hann var dómari sýningarinnar í fyrra þar sem hann sagði m.a:  „…að öll umgjörð Tónkvíslarinnar hefði verið mjög metnaðarfull og ef eitthvað er, þá metnaðarfyllri en söngvakeppni sjónvarpsins… og kynnarar hefður verið skemmtilegri en á söngvakeppni sjónvarpsins og báru virðingu fyrir viðfangsefninu…og það kom mér alveg í opna skjöldu hve góð söngatriði komu fram“.

Nú er aðeins einn dagur í sýningu og nemendur skólans hafa sameinað krafta sína í að leggja mikla vinnu við undirbúning hátíðarinnar og því mega gestir búast við keppni sem gefur hinum fyrri ekkert eftir.  Verið velkomin á Tónkvísl Framhaldsskólans á Laugum annað kvöld kl. 19.30.

 

 

2 dagar í Tónkvíslina

Tæknidótið kom í morgun og hefur vinna dagsins að mestu leiti farið í að koma upp sem flestum ljósum og hátölurum eins og húsið ber. Það er fyrirtækið Exton sem hefur umsjón með þessum þætti Tónkvíslarinnar og hafa sömu tæknimennirnir á þeirra vegum komið og unnið við Tónkvísl í mörg ár og eru orðnir nokkuð heimavanir.

Sjónvarpsstöðin N4 mun sýna beint frá keppninni á laugardaginn og hefst útsending kl. 19:30. 

3 dagar í Tónkvísl

Í dag, miðvikudag er undirbúningur Tónkvíslar, sem fram fer í íþróttahúsinu á Laugum, komin í fullan gang þar sem einungis þrír dagar eru til stefnu. Margir nemendur lögðu því námsbækur til hliðar í morgun og viðtekur feikimikið verknám, að setja upp tónlistarveislu sem fram fer nk. laugardagskvöld kl. 19.30. Nemendur munu vinna hörðum höndum næstu daga við tæknimál, smíðavinnu, undirbúning keppenda, hljómsveitaræfingar og allt sem til þarf til að gera þessa hátið sem veglegasta.

Nú er svo sannarlega farið að styttast í þetta!Endilega kauptu þér miða í forsölu á tonkvislin@laugar.isATH. 500 kr afsláttur er af seldum miðum í forsölu!#Tonkvislin

Posted by Tónkvíslin on Wednesday, February 15, 2017

5 dagar í Tónkvíslina

Tónkvíslin, söngkeppnin okkar, fer fram næsta laugardag. Nemendur komnir á fullt í undirbúning og hér að neðan má sjá upphitunarmyndband sem Brynjar Steinn Stefánsson gerði á dögunum.

Hægt er að fylgjast með undirbúningi keppninnar á facebook-síðu Tónkvíslar https://www.facebook.com/tonkvislin/

 

Smellið á linkinn hér að neðan til að sjá myndbandið

Myndband