Sagan okkar

Saga skólahalds á Laugum

Skólahald hefur verið samfleytt á Laugum í Reykjadal allt frá árinu 1925 er Alþýðuskóli Þingeyinga hóf göngu sína. Á Laugum er því löng og rík menntahefð og í raun og veru er saga Laugaskóla menningarsaga Þingeyinga drjúgan hluta 20. aldar. Síðan þá er mikið vatn til sjávar runnið og miklar og margvíslegar breytingar hafa orðið á skólakerfinu í landinu og þá um leið skólanum á Laugum.

Framhaldsskólinn á Laugum var stofnaður 1988 með sameiningu Héraðskólans og Húsmæðraskóla Þingeyinga. Fyrstu ár Framhaldsskólans voru starfræktar fjórar brautir til tveggja og þriggja ára. Var þar um að ræða almenna bóknámsbraut, viðskiptabraut, matvælatæknibraut og íþróttabraut. Árið 1990 var matvælatækni-brautin lögð niður og stofnuð ferðamálabraut í hennar stað. Viðskiptabrautin var síðan aflögð 1993 og ferðamálabrautin hvarf af sjónarsviðinu 1996 en félagsfræðibraut var tekin upp í staðinn það sama ár.

Framhaldsskólinn á Laugum hefur útskrifað stúdenta frá árinu 1993. Fyrst með aðstoð Fjölbrautarskólans í Garðabæ, sem annaðist útskriftina formlega, en síðan 1997 upp á eigin spýtur. Lengi voru skiptar skoðanir um það meðal yfirmanna menntamála hvort skólinn ætti að bjóða upp á fjögurra ára nám til stúdentsprófs eða halda sig við styttri brautir. Stúdentsprófið varð ofan á og frá árinu 1997 hefur skólinn útskrifað stúdenta af félagsfræði-, náttúrufræði- og íþróttabrautum.

Deila