Sagan okkar

Birt 19. nóvember, 2024

Saga skólahalds á Laugum

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Skólahald hefur verið samfleytt á Laugum í Reykjadal allt frá árinu 1925

Skólahald hefur verið samfleytt á Laugum í Reykjadal allt frá árinu 1925 er Alþýðuskóli Þingeyinga hóf göngu sína. Á Laugum er því löng og rík menntahefð og í raun og veru er saga Laugaskóla menningarsaga Þingeyinga drjúgan hluta 20. aldar. Síðan þá er mikið vatn til sjávar runnið og miklar og margvíslegar breytingar hafa orðið á skólakerfinu í landinu og þá um leið skólanum á Laugum

Framhaldsskólinn á Laugum var stofnaður árið 1988

Framhaldsskólinn á Laugum var stofnaður 1988 með sameiningu Héraðskólans og Húsmæðraskóla Þingeyinga. Fyrstu ár Framhaldsskólans voru starfræktar fjórar brautir til tveggja og þriggja ára. Var þar um að ræða almenna bóknámsbraut, viðskiptabraut, matvælatæknibraut og íþróttabraut. Árið 1990 var matvælatækni-brautin lögð niður og stofnuð ferðamálabraut í hennar stað. Viðskiptabrautin var síðan aflögð 1993 og ferðamálabrautin hvarf af sjónarsviðinu 1996 en félagsfræðibraut var tekin upp í staðinn það sama ár.

 

Brautskráning stúdenta frá árinu 1993

Framhaldsskólinn á Laugum hefur útskrifað stúdenta frá árinu 1993. Fyrst með aðstoð Fjölbrautarskólans í Garðabæ, sem annaðist útskriftina formlega, en síðan 1997 upp á eigin spýtur. Lengi voru skiptar skoðanir um það meðal yfirmanna menntamála hvort skólinn ætti að bjóða upp á fjögurra ára nám til stúdentsprófs eða halda sig við styttri brautir. Stúdentsprófið varð ofan á og frá árinu 1997 hefur skólinn útskrifað stúdenta af félagsfræði-, náttúrufræði- og íþróttabrautum.

 

Skólinn verður 100 ára 

Fyrsta vetrardag 2025 verður haldið upp á 100 ára afmæli skólans. Skipuð hefur verið afmælisnefnd skólans og í henni sitja þau:

Kristján Guðmundsson, Hjördís Stefánsdóttir,  Arnór Benónýsson og Sigurbjörn Árni Arngrímsson.

 

Laugamannasöngur 

Þegar himininn blakknar mín hrapstjarna skín
þá fer hugurinn aftur að leita til þín.
Nú er fjarri og gleymd okkar stefnumótsstund
enginn staður á jörðu sem man okkar fund.
Manstu vetrarins spá, hvers þú spurðir mig þá
þegar spor lágu í snjónum við Reykjadalsá.
Nú er veturinn liðinn og löngun mig ber
heim að Laugum á slóðir sem gekk ég með þér.

Þá var skóli í Reykjadal rétt undir hlíð
þá var rökkur og skin þá var æskunnar tíð.
Þótt ég glopri því niður sem gleðin mér bar
aldrei gleymast mér sporin í hjarninu þar.
Þá var stjarna sem brann, þá var straumur sem rann
þá var styrjöld sem enginn í heiminum vann.
Þó að kulni mín glóð, enginn kveði mín ljóð
vil ég kveðja og tæma hinn glataða sjóð.

Höfundur: Örn Snorrason samdi fyrra erindið,

en vefstjóra ekki kunnugt um höfund þess seinna. Allar ábendingar vel þegnar og sendist á si.ragual@ragual

 

Merki skólans 

Merki skólans : Þórhallur Kristjánsson, grafískur hönnuður hjá Effekt auglýsingastofu, hannaði nýtt merki fyrir Framhaldsskólann á Laugum sem var tekið í notkun vorið 2011.Merkið á að skila svipaðri hugmyndafræði og gamla merkið, en er einfaldara og meira í takt við það sem gerist í merkjaheiminum í dag. Merkið sýnir burstirnar, tjörnina, fuglana, Reykjadalsána, mismunandi leiðir í náminu, nemendur sem koma frá ýmsum stöðum, græna lit gróðursins, bláan lit árinnar, himinsins, hreinleika og margt fleira. Sækja merkið: Vector: Laugaskoli-merki-illustrator     PDF: laugar_merki : JPG myndaform hér fyrir neðan :