Reglubundin heimsókn frá lögreglunni

Í gær fengum við heimsókn frá lögreglunni á Akureyri og Húsavík ásamt lögregluhundinum Kæju. Nemendum og kennurum var safnað saman í íþróttahúsinu á meðan leitinni stóð. Nemendur sýndu einstaklega mikla þolinmæði á meðan leitinni stóð og fóru í ýmsa boltaleiki til að drepa tímann. Á meðan leitaði Kæja í húsnæði skólans, en það var nauðsynlegt að hafa nemendur og kennara í annarri byggingu til þess að tíkin yrði ekki fyrir truflun.

Kæja stillir sér upp við lögreglubílinn eftir leit dagsins

Við erum ákaflega stolt af okkar nemendum, en þau sýndu góðan samstarfsvilja og voru þolinmóð á meðan leitinni stóð. Það er líka einstaklega ánægjulegt að segja frá því að Kæja fann ekki neitt, sem var eins og við bjuggumst við. Svona heimsóknir eru hluti af forvörnum skólans og eru mikilvægur liður í að halda skólanum á þeim stað sem við viljum hafa hann. Heimsókn af þessu tagi er mikilvæg og við reynum að fá hana með reglulegu millibili.

Skólareglur segja til um að öll neysla vímuvaldandi efna er bönnuð á lóð skólans, í húsum hans og í ferðalögum á hans vegum og er þeim reglum sé fylgt vel eftir.

 

Laugaskóli hlaut jafnlaunamerki Jafnréttisstofu

Það er okkur sönn ánægja að tilkynna það að Framhaldsskólinn á Laugum stóðst jafnlaunavottun hjá Versa vottun og hefur núna leyfi til að nota jafnlaunamerki Jafnréttisstofu næstu þrjú árin, eða frá 10. september 2020 til 7. september 2023. Óútskýrður kynbundinn launamunur mældist 0,57%, konum í vil. 
Í reglugerð um vottun á jafnlaunakerfum fyrirtækja kemur m.a. fram: “Merkinu er ætlað að vera gæðastimpill og hluti af ímynd og orðspori fyrirtækja og stofnana. Merkið staðfestir að þau hafi komið sér upp ferli sem tryggir að málsmeðferð og ákvarðanir í launamálum feli ekki í sér kynbundna mismunun.”

Heimsókn forsætisráðherra í Laugaskóla

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, heimsótti Laugaskóla í gær ásamt aðstoðarkonu sinni Bergþóru Benediktsdóttur. Þær voru á ferðalagi um Norðurland og nýttu tækifærið og litu við hjá okkur. Það var virkilega ánægjulegt að fá þær í heimsókn og fá að kynna fyrir þeim flotta starfið sem fer fram í Laugaskóla. Þær snæddu hádegismat með okkur og spjölluðu við nemendur og starfsfólk. 

Brunnur

Skólasetningin fór fram síðastliðinn sunnudag, 30. ágúst, í íþróttahúsinu á Laugum. Vegna Covid þurftum við að breyta hinni hefðbundnu skólasetningu og voru aðeins nýnemar ásamt einum aðstandanda viðstaddir. Eftir skólasetningu bauð Kristján kokkur upp á grillaða hamborgara. 

Brunnur hófst svo formlega á mánudaginn og má segja að þá hafi alvaran tekið við fyrir nýju nemendurna, sem eru að taka sín fyrstu skref í framhaldsskóla. Dagskráin fyrir Brunn er full af skemmtilegum viðburðum og við vonum að þessi vika verði gott tækifæri fyrir nýnema til þess að kynnast sín á milli, en í næstu viku mæta eldri nemendur í skólann. 

Í dag fá nýnemar meðal annars kynningu á markmiðasetningu með “Vision board” og eftir hádegi verður ratleikur um svæðið á Laugum. Á morgun verður farið í nýnemaferð. Á fimmtudaginn og föstudaginn byrja nemendur að mæta í tíma samkvæmt stundartöflu.

Hallur áfangastjóri (og ljóðskáld svo fátt eitt sé nefnt) heldur úti vefsíðunni Bragfræðivefur Halls og samdi hann ljóð um nýnemaferðina og birti skemmtilegar myndir frá deginum. Hér má skoða það.