Breyttur opnunartími á skrifstofu

Nú er önnur vika utan skóla hálfnuð og allt gengur samkvæmt áætlun. Örlitlar breytingar eru á opnunartíma skrifstofunnar og viðveran minni en á hefðbundnum skóladögum, vegna þess er ekki alltaf víst að svarað verði í síma 464-6300 en  við bendum á að það er hægt að hringja beint í símanúmer Bjössa skólameistara, 693-1774. 

Einnig er alltaf hægt að senda tölvupóst á gotta@laugar.is, nemendur geta að venju alltaf sent skilaboð á Teams. Önnur netföng starfsmanna eru að finna hér 

Við erum ánægð með ykkur og vonum að þið séuð öll að fylgjast með okkur á TikTok (@laugaskoli) – þar má sjá bæði starfsmenn og kennara Laugaskóla finna sér ýmislegt, misgáfulegt, að gera. Það er jú nauðsynlegt að líta upp úr bókum, teygja úr sér og hlæja smá. 

Að lokum koma nokkur góð ráð fyrir nemendur í fjarnámi

1) RAMMAÐU INN DAGINN
Það skiptir miklu máli að halda áfram skólarútínunni. Fara á fætur á morgnanna og fara að sofa á skikkanlegum tíma. Hugaðu að fjölbreyttri næringu og hreyfingu.

2) FYLGSTU MEÐ KENNSLUVEFJUM
Farðu reglulega inn á kennsluvefi þeirra áfanga sem þú ert í. Mættu í fjarfundi þegar ætlast er til þess og vertu í góðu sambandi við kennarana þína.

3) SKIPULEGGÐU ÞIG
Skráðu niður öll þau verkefni sem þú þarft að vinna á einn lista. Skrifaðu niður skiladaga. Útbúðu raunhæfa tímaætlun fyrir daginn. Hvað ætlarðu að gera hvenær!

4) LEITAÐU AÐSTOÐAR
Ef eitthvað er óljóst og svörin er ekki að finna á kennsluvef, leitaðu þér þá strax aðstoðar hjá kennara, t.d. kennara á vakt á Teams. Náms- og starfsráðgjafi er til aðstoðar við skipulag, tímastjórnun og almenna líðan: hringdu, sendu tölvupóst eða skilaboð á Teams – hægt er að fá fjarfund í gegnum Teams.

5) BÚÐU ÞÉR TIL AFDREP
Fyrir marga getur verið skrítið að þurfa að læra heima. Búðu þér til afdrep þar sem þú getur verið í friði við að sinna náminu, nokkurs konar vinnustöð. Reyndu að skipuleggja þig þannig að þú getir unnið í lotum, óáreitt/ur.

Áfram gakk!

Kæru nemendur, foreldrar og forráðamenn.

Við viljum minna á að þrátt fyrir að nemendur séu heima hjá sér þá heldur skólastarfið áfram.
Skólafulltrúi er venju samkvæmt í vinnu frá 8:30-12:30 og svarar í síma og tölvupóst. (464-6300 & gotta@laugar.is)

Þeir sem þurfa að ná í Maríu námsráðgjafa geta hringt í síma 464-6300, alla virka daga frá 8:30-12:30 og óskað eftir símatíma, sent tölvupóst á maria@laugar.is eða sent skilaboð í gegnum Teams.

Eins og við höfum áður nefnt er mikilvægt að nemendur haldi rútínu og sinni lærdómnum á vinnutíma, þ.e frá 9:10 – 15:30. Allar upplýsingar er varða námið koma inn á Moodle og/eða Teams og það er mikilvægt að nemendur fylgist vel með tilkynningum kennara.

Þrátt fyrir að nemendur geti ekki hitt kennara sína þá eru kennararnir við eins og á venjulegum skóladegi. Við hvetjum nemendur og foreldra/forráðamenn til þess að hafa samband við okkur hvort sem það eru fyrirspurnir varðandi námið eða einstök atriði.

Nemendur Laugaskóla standa frammi fyrir mikilli áskorun, hvað varðar ábyrgð og aga í námi og lífi, og nú er tíminn þar sem þið getið sýnt hvað raunverulega í ykkur býr. Við hjálpumst að við þetta og við hlökkum til að hitta ykkur að samkomubanni loknu.

 

Áríðandi tilkynning vegna COVID-19

Á blaðamannafundi sem haldinn var klukkan 11 í morgun tilkynnti Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra, að nú væri komið að því að setja á samkomubann og framhaldsskólum landsins verður lokað í 4 vikur vegna COVID-19. 

Það þýðir að skólastarf verður takmarkað hjá okkur frá og með mánudeginum 16. mars og næstu fjórar vikur. Bjössi skólastjóri kallaði nemendur og starfsfólk á fund kl 12 og fór yfir stöðuna hjá okkur.

  • Við létum nemendur vita að þeir þyrftu að fara heim til sín um helgina og munum við aðstoða þá ef þörf er á.
  • Nemendur eru komnir í fjarnám frá og með deginum í dag og kennarar munu hafa samband í gegnum kennsluvefi skólans.
  • Mikilvægt er að nemendur og forráðamenn fylgist vel með Innu, Moodle, tölvupósti og Teams. 
  • Nemendur eru beðnir um að ganga vel frá herbergjum sínum og muna eftir að taka með sér námsgögn.

Foreldar og forráðamenn fá sendar ítarlegri upplýsingar í tölvupósti. 

Rannsókn á smádýralífi við virkanir í Laxá í Þingeyjarsýslu

Guðmundur Smári

Í dag birtist grein eftir Guðmund Smára, raungreinakennara Laugaskóla, á vefnum Skólaþræðir.  Greinin fjallar um stórt verkefni nemenda á náttúruvísindabraut, en nemendur í áfanganum „Rannsóknarverkefni í Laxá“ hafa rannsakað smádýralíf við virkjanir í Laxá í Þingeyjarsveit síðastliðin tvö ár. Þessi rannsókn er virkilega spennandi og það er óhætt að segja að spennandi tímar séu framundan hjá nemendum náttúruvísindabrautar. Nemendurnir sem hafa staðið að þessari rannsókn munu fara á alþjóðlega ráðstefnu í júní nk. á vegum verkefnisins, til Flórída.

„ Á vorönn 2020 munu  nemendur sitja fimm eininga 4. þreps áfanga þar sem úrvinnsla á sýnunum verður kláruð og gögnin greind. Þá munu nemendur einnig skrifa vísindagrein, flytja fyrirlestur og útbúa veggspjald um verkefnið sem birt verður á ráðstefnu á vegum verkefnisins. Water is Life er alþjóðlegt verkefni þar sem yfir 30 framhaldsskólar frá öllum byggðum heimsálfum koma saman til að kynna verkefni sín og kynnast nemendum og verkefnum frá öðrum skólum. Öll eiga verkefnin sameiginlegt að fjalla á einhvern hátt um vatn, allt frá samfélagslegum og pólitískum áhrifum til þess hvernig vatn er undirstaða alls lífs sem við þekkjum. Framhaldsskólinn á Laugum er fyrsti og eini skólinn á Íslandi sem hefur tekið þátt í Water is Life verkefninu en fjórir nemendur ásamt verkefnastjóra munu fara til Flórída í júní 2020 til að taka þátt í ráðstefnu verkefnisins en annað hvert ár koma allir skólar saman til að kynna sín verkefni. Framhaldsskólinn á Laugum hefur einnig heimsótt skóla í Hollandi og Frakklandi sem eru þátttakendur í verkefninu til að kynnast þeirra verkefnum og skólum, en hollenski skólinn hefur líka sótt okkur hingað heim að Laugum.“ 

Kórónaveiran

Nú hefur ríkislögreglustjóri lýst yfir neyðarstigi almannavarna í samráði við sóttvarnalækni vegna sýkinga af völdum kórónaveiru, COVID-19, eins og fram kemur á vef Landlæknis. Þar kemur einnig fram að þetta neyðarstig hafi ekki teljandi áhrif á almenning og auk þess hefur ekki verið lagt á samkomubann.

Þar sem við erum heimavistarskóli og nemendur koma allstaðar að þá fylgjumst við vel með þróun mála. Það bendir ekkert til þess að veiran sé líklegri til að finnast í Laugaskóla heldur en annars staðar á landinu, en við munum greina frá því strax ásamt leiðbeiningum frá Almannavörnum og sóttvarnarlækni hvað skuli gera, ef hún greinist hér. Eins og annarsstaðar er líklegt að á næstu dögum/vikum muni einstaka nemendur/starfsmenn fara í sóttkví á meðan verið er að ganga úr skugga um hvort flenskueinkenni/veikindi séu COVID-19 eða eitthvað annað.

Við viljum enn og aftur minna á mikilvægi handþvottar og sprittunar. Við viljum hvetja nemendur og starfsfólk til þess að þvo sér vandlega um hendur með sápu áður en gengið er í matsalinn, og spritta hendur áður en þið fáið ykkur mat, glös og hnífapör, og strax þegar þið eruð búin að borða. Á vefsíðu Landlæknis má finna spurningar og svör við Kórónaveiruna.

Við reynum að láta faraldurinn trufla skólastarfið sem minnst en höfuð þó vaðið ávallt fyrir neðan okkur og tökum enga áhættu.