Gamla laugin fær gólf

Image

Birt 24. október, 2018

Gamla innisundlaugin á Laugum, sú elsta sinnar tegundar á landinu, var byggð 1925 og gegndi mikilvægu hlutverki í nærfellt áttatíu ár þar til árið 2005 að vígð var ný útisundlaug sunnan við íþróttahúsið. Síðan þá hefur gamla innisundlaugin verið notuð sem félagsaðstaða og kennslustofa. Nýlega var ákveðið að smíða gólf í laugina til að auka notkunarmöguleika rýmisins. Á meðfylgjandi mynd sjást þeir bræður Kristján og Sigurður Hlynur Snæbjörnssynir ásamt Jóni Sverri Sigtryggssyni leggja lokahönd á teppalagningu í lauginni gömlu.

Dans og vöfflur

Image

Birt 23. október, 2018

Dagbók kerfisstjóra. Það var ilmur af vöfflum og dansmúsík sem bárust inn á skrifstofu undirritaðs nú rétt í þessu. Hvað var um að vera? Ég hljóð af stað að athuga málið og fljótlega hóp nemenda í vinnustofu dansandi. Þaðan kom músíkin. Þá var næst að finna upptök vöffluilmsins. Leiðin lá inn í eldhús skólans þar sem ég fann Kristján og Siggu í vöfflubakstri. Svona er lífið á Laugum 🙂

Laugaskóli á Íslandsmóti

Image

Birt 20. október, 2018

Laugaskóli tekur þátt í Íslandsmótinu í blaki þennan veturinn. Liðið er skráð í 3. Deild karla þar sem spilaðar eru þrjár umferðir á þremur helgarmótum í vetur. Fyrsta mótið fór fram um síðustu helgi og var mótið haldið á Ólafsfirði. Í liðinu voru að þessu sinni:

Sigurður Jóhannsson, 3. ári
Haukur Sigurjónsson, 2. ári
Árni Fjalar Óskarsson, 1. ári
Guðmundur Gígjar Sigurbjörnsson, 10. bekk

ásamt þeim:

Sigurbirni Árna, skólameistara
Hnikari, íþróttakennara
Guðmundi Smára, raungreinakennara

Liðið spilaði fimm leiki á tveim dögum og vannst sigur í þremur af þessum leikjum en tveir töpuðust. Liðið er því í 3. sæti í deildinni að lokinni 1. umferð, en alls eru 6 lið í deildinni.

Næsta umferð verður leikin á Álftanesi í janúar og sú síðasta í Kópavogi um miðjan mars.