Skólinn

Framhaldsskólinn á Laugum er heimavistarskóli út í sveit. Mjög góð aðstaða er til náms, félagslífs og íþróttaiðkunar við skólann og heimavistaraðstaða er með því besta sem gerist á landinu. Kennt er á sex námsbrautum, almennri námsbraut á fyrsta hæfniþrepi, grunnnámsbraut á öðru hæfniþrepi og fjórum námsbrautum til stúdentsprófs félagsvísinda-, íþrótta-, kjörsviðs- ognáttúruvísindabraut. Um 100 nemendur stunda nám við skólann og koma þeir alls staðar að af landinu.

Lögð er áhersla á persónulega þjónustu og umhyggju gagnvart nemendum, en jafnframt eru gerðar til þeirra kröfur í námi og samskiptum. Þeir nemendur sem sækja heimavistarskóla búa að því alla ævi, bæði hvað varðar vini sem þeir eignast á námsárunum og hæfni til félagslegra samskipta, því í heimaviststarskóla læra menn ekki aðeins á bókina, dvölin þar er jafnframt góður skóli í mannlegum samkiptum.

Skólinn státar af öflugu leiklistarstarfi í samvinnu við Leikdeild Ungmennafélagsins Eflingar. Skólinn heldur líka Tónkvísl, sem er undanfari skólans að Söngvakeppni framhaldsskólanna sem og söngkeppni grunnskólanna í nágrenninu og er henni sjónvarpað beint ár hvert. Auk þess er öflugt félagsstarf á vegum nemendafélags skólans og mikil áhersla á fjölbreytt íþróttastarf en skólinn á sitt eigið íþróttahús og er gjaldfrjáls aðgangur að íþróttahúsi, líkamsrækt, sundlaug og íþróttavöllum. Því má segja að á Laugum sé lögð alúð við að rækta bæði líkama og sál.

Framhaldsskólinn á Laugum starfar á grundvelli laga um framhaldsskóla nr.92/2008.   Hlutverk hans er að stuðla að alhliða þroska allra nemenda og virkri þátttöku þeirra í lýðræðisþjóðfélagi með því að bjóða öllum nemendum nám við hæfi og að búa þá undir þátttöku í atvinnulífi og frekara nám.  Auk þess að þjálfa og hvetja nemendur til þekkingarleitar er áhersla lögð á að efla siðferðisvitund þeirra, heilbrigði til líkama og sálar, ábyrgðarkennd, víðsýni, frumkvæði, sjálfstraust og umburðarlyndi. Nemendur eru þjálfaðir í sjálfstæðum og öguðum vinnubrögðum og gagnrýninni hugsun.

Í öllu starfi sínu leggur Framhaldsskólinn á Laugum áherslu á að grunnþættir almennrar menntunar, sem koma fram í almennum hluta aðalnámskrár framhaldsskóla, séu hafðir að leiðarljósi. Að læsi, sjálfbærni, heilbrigði og velferð, lýðræði og mannréttindi, jafnrétti og sköpun séu sýnilegir þættir í námi og kennslu, einnig í skipulagi, starfsháttum og þróunaráætlun skólans.

Deila