Bókasafn

Bókasafnið er upplýsingamiðstöð og vinnuaðstaða fyrir nemendur, kennara og starfsfólk skólans og er staðsett á rishæð í Gamla skóla. Starfsemi þess styður nám, kennslu, félagslíf og þróunarstarf í skólanum.Starfsmaður bókasafns sér um safnkostinn, s.s. innkaup, skráningu og útlán. Hann veitir nemendum margvíslega námsaðstoð óháða faggreinum. Auk þess aðstoðar hann við heimildaleit og fleira sem tengist bókasafninu sjálfu. 

Opnunartími safnsins: Mánudaga – fimmtudaga kl. 9:00 – 16:00 og föstudaga kl. 9:00 – 15:00. Sími á bókasafni: 464 6305

Starfsmaður bókasafns: Sólborg Matthíasdóttir (si.ragual@allos ) 

Aðstaða: Á safninu er lesaðastaða fyrir u.þ.b. 25 nemendur í senn. Þar eru 2 tölvur fyrir nemendur til nota við nám. Nemendur geta nýtt sér aðstöðuna til náms í vinnustofum.

Safnkostur: Safnið er fyrst og fremst búið bókum, tímaritum og öðrum gögnum sem tengjast kennslugreinum skólans. Alls eru nú um 8300 bækur, tímarit, myndbönd, margmiðlunarefni og geisladiskar á safninu. Safnkostur er skráður í Gegni. Bækur í geymslu eru ekki skráðar í bókasafnskerfið.

Útlán á safnkosti: Flest gögn safnsins eru til útlána, en kennslubækur og orðabækur eru þó aðeins til notkunar á safninu sjálfu. Handbækur eru aðeins lánaðar innan skólans. Öll útlán eru tölvuskráð. Lánþegaskírteini eru geymd á bókasafninu. Lánþegi ber ábyrgð á því sem hann tekur að láni. Ef bókavörður er ekki við þegar taka á bók að láni er lánþegi beðinn um að skrá á útlánalista, sem liggur á afgreiðsluborði, nafn sitt, titil bókar og númerið á strikamiðanum sem er aftan á bókinni. Slík útlán verða færð inn í tölvukerfið síðar. Útlánstími er 14 dagar. Þegar bókum er skilað á að skilja þær eftir á afgreiðsluborði eða í skilabás. Lánþegar ganga ekki sjálfir frá bókunum. Ef tiltekið rit eða efni er ekki að finna á safninu er lögð áhersla á að útvega það í millisafnaláni.

Safnakennsla: Allir nýnemar fá stutta kynningu á bókasafninu en einnig er safnkennsla í boði fyrir alla nemendur skólans. Safnkennsla felst í kynningu á skólasafninu og starfsemi þess, hvaða gögn eru á safninu og skipulagi safnkosts. Bókasafnskerfi safnsins er kynnt fyrir nemendum og þeir þjálfaðir í notkun þess, ennfremur að nemendur geri sér grein fyrir upplýsingagildi heimasíðu skólans. Kynntir eru innlendir og erlendir gagnagrunnar, leitarvefir og leitarvélar á netinu.Kennarar hafa stundum óskað eftir safnkennslu fyrir sína hópa í upphafi verkefna- og ritgerðavinnu. Nemendum eru þá kynntar helstu leiðir til heimildaöflunar í Leiti og öðrum gagnabönkum.

Umgengnisreglur á bókasafni Framhaldsskólans á Laugum

  • Við göngum vel um eigur bókasafnsins
  • Við förum ekki með bækur eða blöð út af safninu án þess að skrá það
  • Við höfum hljótt og virðum vinnufrið annara
  • Við komum ekki með mat eða drykk á bókasafnið
  • Við tölum ekki í síma hér inni

Tenglar á síður 

Upplýsingar frá HÍ

Blindrabókasafn Íslands – Hljóðbókasafn

Britannica – Academic Edition

Kennsluvefur í upplýsingalæsi

Landsaðgangur að rafrænum áskriftum – hvar.is

Snara – vefbókasafn

Timarit.is

Leitir.is

Deila