Birt 12. desember, 2018
Spennan var magnþrungin þegar lokaviðureignin í Laugabikarnum fór fram þessa önnina í hádeginu í dag. Keppni dagsins var boccia. Það var allt undir þar sem bæði lið höfðu unnið 2 keppnir fram að deginum í dag, og því var ljóst að úrslitin myndu ráðast í þessari lokakeppni.
Lið starfsmanna, skipað þeim Hjördísi, Kristjáni og Sigrúnu, byrjaði leikinn af miklum krafti og Sigrún náði fljótlega mjög góðu kasti sem setti pressu á andstæðinginn. Lið nemenda reyndu hvað þeir gátu til að sprengja upp stöðuna og kraftmikið kast frá Sigurði fór nálægt því að skjóta hvítu kúlunni í burtu frá boltanum hennar Sigrúnar. En nær komust nemendur ekki og lið starfsmanna hafði sigur í fyrsta leiknum en vinna þurfti tvo leiki til að klára viðureignina. Lið nemenda ætlaði ekki að láta valta yfir sig og mættu ákveðnir til leiks í annarri umferð. Eyþór Kári átti þá gott kast þegar hann lagði boltann sinn alveg upp að hvíta boltanum. Lið starfsmanna náði ekki að brjótast framhjá boltanum hans Eyþórs með þeim boltum sem eftir voru, og urðu því að játa sig sigraða í öðrum leiknum. Því var allt jafnt í viðureigninni og þurfti að spila oddaleik til að skera úr um það hverjir yrðu Laugabikarmeistarar þessa önnina.
Sigurður kastaði fyrstur fyrir nemendur og var kastið alltof langt. Hjördís kastaði næst fyrir starfsmenn og þó kastið væri of langt var það örlítið nær en kastið hans Sigurðar. Greinilega mikið stress í gangi hjá báðum liðum enda mikið undir. Lið nemenda ákvað að láta Sigurð kasta aftur seinni boltanum sínum. Þetta reyndist örlagarík ákvörðun því Sigurður smellti boltanum sínum alveg uppað hvíta boltanum og færð þannig alla pressuna yfir á lið starfmanna. Næstu köst starfsmanna sleiktu hvíta boltann en náðu aldrei almennilega að ýta honum frá boltanum hans Sigurðar. Síðasti kastið var Hjördísar. Hún hitti beint í hvíta boltann sem kastaðist frá boltanum hans Sigurðar og bolti Sigrúnar kastaðist um leið í hina áttina. Áhorfendur risu úr sætum af spenningi…..hvor væri nær? Út brutust mikil fagnaðarlæti þegar dómarinn greindi frá úrskurði sínum: “Sigurður er nær…..NEMENDUR UNNU”.
Glæsileg frammistaða hjá báðum liðum en verðskuldaður sigur hjá nemendum sem eru Laugabikarmeistarar á haustönn 2018. Nemendur fengu auk þess Quality Street bauk í verðlaun.
Að keppni lokinni voru einnig veittir bikarar fyrir Hressbikarinn 2018 en þar stóð lið WC Ríben uppi sem sigurvegari.
(Texti: Andri Hnikarr Jónsson/hnikarr@laugar.is)