Tónkvíslarvika

Nú er undirbúningur fyrir Tónkvíslina í fullum gangi. Tónkvíslin fer fram í Íþróttamiðstöðinni á Laugum, laugardaginn 22. febrúar næstkomandi. Framkvæmdarstjórn Tónkvíslarinnar skipuleggur keppnina, en stjórnin er skipuð af nemendum Laugaskóla. Auk þess var Arna Kristín ráðin verkefnastjóri Tónkvíslarinnar, en það er í hennar verkahring að sjá til þess að allt fari samkvæmt áætlun, ásamt því að vera hægri hönd framkvæmdarstjórans.

Mugison verður skemmtikraftur kvöldsins. Hann er mörgum kunnugur hér á Laugum, enda fyrrum nemandi Laugaskóla.

Tónkvíslin hefur verið haldin í 15 ár og vex með hverju árinu. Þetta brýtur svo sannarlega upp hið daglega amstur alls samfélagsins á Laugum. Vikan fyrir keppnina fer í að setja upp svið og allt sem því tilheyrir fyrir keppnina. Þessa viku falla allir tímar Íþróttamiðstöðvarinnar í íþróttasal niður, því það þarf meðal annars að leggja sérstök teppi á gólfið ásamt drapperingum, setja upp ljósabúnað, gera sviðið tilbúið, skreyta og allt sem þarf til að halda þennan veglega viðburð.

Síðastliðin ár hefur keppnin verið í beinni útsendingu á N4, en í ár verður hún ekki sýnd í beinni útsendingu. Í ár munu nemendur taka virkari þátt í öllu sem kemur að keppninni, og munu nemendur til dæmis sjá um að taka upp alla keppnina, en útsendingarbíll frá Kukl verður á staðnum með myndavélum og öllu tilheyrandi.

Formlegt skólahald verður með óbreyttu sniði til hádegis á morgun, miðvikudag. En allir nemendur skólans taka þátt með einum eða öðrum hætti, og fá einingar fyrir það.

Miðakaup á Tónkvíslina fara fram á Tix.is og hvetjum við alla til að kaupa sér miða. Húsið opnar kl. 18:30 og keppnin hefst kl. 19:30. Hægt er að fylgjast nánar með undirbúningnum á Facebook-síðu Tónkvíslarinnar

Þorrablót og félagsvist

Þorrablót fór fram í gær, fimmtudaginn 6. febrúar í matsal skólans. Góð mæting var frá nemendum, og stjórnaði Lúðvík samkomunni, sem og fjöldasöng með aðstoð Systu. Talsvert var lagt í skemmtiatriði nemenda, en þeir fluttu grínmyndband sem var gert af myndbandsfélaginu Hnetunni. Bjössi skólastjóri var með spurningakeppni, þar sem svörin voru annað hvort já eða nei. Bríet Guðný sigraði spurningakeppnina eftir harða keppni við Guðrúnu Gísla.

Að loknu borðhaldi var spiluð félagsvist á níu borðum, undir stjórn Kristjáns G og Rögnu. Spilað var hálft spjald (tvær umferðir) og var Hafdís Hjaltalín efst kvenna en Guðmundur Gígjar karlamegin og hlutu þau bæði 92 stig. Af þessu var hin mesta skemmtan og kvöldið ánægjulegt.

 

Jöfnunarstyrkur – áttu eftir að sækja um?

Image result for student money cartoon"Nú fer hver að verða síðastur að sækja um jöfnunarstyrkinn, en það er námsstyrkur fyrir nemendur sem stunda nám á framhaldsskólastigi fjarri lögheimili og fjölskyldu. 

Umsóknarfrestur til að sækja um fyrir vorönn 2020 er til og með 15. febrúar, n.k. 

Til þess að sækja um jöfnunarstyrkinn þarf að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum eða íslykli. Ef nemandi sækir um styrkinn eftir 15. febrúar, skerðist styrkurinn um 15%. Við hvetjum alla til að að drífa sig í því að sækja um þennan styrk. Hægt er að lesa sér til um styrkinn og sækja um hann hér