Nýstúdentar brautskráðir

Image

Birt 22. maí, 2019

Laugardaginn 18. maí voru 24 nýstúdentar brautskráðir frá Framhaldsskólanum á Laugum í frábæru veðri.

Tveir nemendur útskrifuðust af íþróttabraut, þrír af náttúruvísindabraut, átta af félagsvísindabraut og 11 af kjörsviðsbraut af jafnmörgum kjörsviðum sem voru búfræði, menntunarfræði, tónlistarflutningur, náttúrufræði, sjúkraliði, forritun, rafvirkjun, hússtjórn, kvikmyndagerð, stálsmíði og söngur. Leon Ingi Stefánsson útskrifaðist með hæstu einkunn nýstúdenta með einkunnina 8,27 og fékk bókagjöf frá Jarðböðunum við Mývatn. Leon hlaut einnig niðurfellingu skólagjalda í HR haustið 2019 fyrir árangur sinn í raungreinum.

Rúmlega 300 manns voru við athöfnina og settu fjölmennir eldri útskriftarárgangar svip sinn á samkomuna, héldu ræður og færðu skólanum gjafir. Var þar bæði um að ræða eldri gagnfræðinga sem og stúdenta. Að athöfn lokinni var kaffisamsæti í Gamla skóla.

Laugaskóli óskar öllum nýstúdentum til hamingju með áfangann og þakkar öllum sem sóttu hann heim fyrir komuna og hlýhug til skólans.

Páskaferð

Image

Birt 14. maí, 2019

Nemendur Framhaldsskólans á Laugum fóru í stutta námsferð um páskanna. Sex nemendur ásamt kennara heimsóttu skóla í norður Frakklandi, Saint Joseph Notre Dame College. Þar var unnið í tvo daga á rannsóknarstofu með DNA og Brönugrasafræ. Síðan var farið í tvo daga í íþróttamiðstöð og tekist á við fjölbreytta dagskrá.

Brautskráning 2019

Image

Birt 9. maí, 2019

Ágætu Þingeyingar og velunnarar skólans.

Brautskráning nýstúdenta fer fram við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Laugum laugardaginn 18. maí kl. 14:00.
Við bjóðum ykkur öll hjartanlega velkomin að gleðjast með okkur og þiggja kaffiveitingar að athöfn lokinni í matsal skólans.
Þennan sama dag fer aðalfundur hollvinasamtakanna Vinir Laugaskóla fram í íþróttahúsinu kl. 17:00. Velunnarar skólans eru hvattir til að mæta á þann fund.

Bogfimi á Laugum

Image

Birt 9. maí, 2019

Nemendur í bogfimi nýttu góða veðrið sem var til að skjóta utanhúss. Lokatíminn var á þriðjudaginn síðasta (7. maí) þar sem nemendur kepptu sín á milli. Iðunn Klara setti fyrstu örina í keppninni í miðjuna (10 stig), keppendur fá nýtt skotmark í upphafi keppninnar og þykir frábært að setja fyrstu örina í miðjuna 🙂