Þórshöfn og Vopnafjörður

Á Þórshöfn og Vopnafirði eru rekin útibú frá Laugaskóla þar sem nemendum gefst kostur á að taka fyrsta árs nám af framhaldsskólastigi með dreifnámsfyrirkomulagi, miðað við fullan námshraða í átt að þriggja ára stúdentsprófi. Nemendur geta hafið nám á hvaða braut sem er hjá skólanum, almennri braut, félagsfræðibraut, náttúrufræðibraut eða íþróttabraut.

Nemendur í útibúum fara að jafnaði fjórðu hverju viku í námslotur á Laugum og sitja tíma þar með staðarnemendum. Þá er reynt að hafa þær ferðir þannig að hápunktum félagslífsins á Laugum sé náð s.s. árshátíð og Tónkvísl.

Í deildunum er lögð mikil áhersla á góða námsaðstoð og persónulega þjónustu við nemendur. Mikill ágóði er fyrir nemendur að hafa kost á því að búa heima lengur og njóta aðhalds og stuðnings foreldra við námið. Nemendur í grunnfögum hafa frjálsan námshraða, bæði þannig að hægt sé að fara hægar í gegnum námsefnið og líka þannig að þeir geti farið hraðar þar sem þeir eru sterkir fyrir.

Í útibúunum hafa nemendur í fullu námi viðveruskyldu í samræmi við stundatöflu. Almennt er gert ráð fyrir að nemendur eigi að geta lokið verkefnum sínum innan þess tíma og heimanám sé því lítið. Sveitarfélögin leggja til húsnæði til starfseminnar en Laugaskóli býður nemendum deildarinnar ókeypis akstur inná Lauga og frítt herbergi í námslotum en nemendur greiða sjálfir fæðiskostnað og innritunargjald.

Verkefnisstjórar útibúanna eru Bjarney Guðrún Jónsdóttir á Vopnafirði og Gréta Bergrún Jóhannesdóttir á Þórshöfn.

 

Þórshöfn:

Menntasetrið á Þórshöfn var opnað árið 2009, en þar er rekin framhaldsskóladeild Framhaldsskólans á Laugum. Langanesbyggð og Svalbarðshreppur leggja  til húsnæði til starfseminnar á Þórshöfn. Í Menntasetrinu á Þórshöfn er einnig mönnuð starfsstöð Þekkingarnets Þingeyinga sem býður jafnframt fjarfundabúnaði til kennslu, náms og funda, lesrými fyrir fjarnema og aðstöðu til prófatöku.

Vopnafjörður:

Framhaldsdeildin á Vopnafirði tók til starfa haustið 2016 og hefur aðsetur í Kaupvangi. Í Kaupvangi er líka rekin starfstöð Austurbrúar á Vopnafirði. Austurbrú og Vopnafjarðarhreppur leggja til fjarfundabúnaði sem nýttir eru bæði fyrir háskólanema og nemendur Framhaldsdeildarinnar.