Birt 22. maí, 2017
Framhaldsskólinn á Laugum er öðruvísi framhaldsskóli sem býður upp á einstaklingsmiðað nám þar sem vel er haldið utan um hvern og einn og námið sniðið að þörfum hvers og eins. Skólinn er lítill heimavistaskóli í sveit með um 100 nemendum sem flestir búa saman á heimavistum skólans. Skólinn býður upp á þrjár meginstúdentsbrautir, náttúruvísindabraut, félagsvísindabraut og íþróttabraut, auk kjörsviðsbrautar þar sem nemendur geta sett saman stúdentspróf sitt sjálfir. Einnig er boðið upp á almenna braut fyrir þá sem ekki hafa náð lokaviðmiðum grunnskóla. Skólinn byggir upp á einstaklingsmiðuðu námi og hefst skóladagurinn kl 9:10 og lýkur kl 15:30. Nemendur eru aldrei í eyðum heldur hefur hver nemandi sitt skrifborð í vinnustofu þar sem hann getur sinnt verkefnum og heimanámi þegar hann er ekki í fagtímum. Í þessum vinnustofum eru alltaf 2-3 kennarar sem aðstoða nemendur við verkefnavinnuna og heimanámið. Af þessum sökum eiga nemendur sem sinna náminu í vinnustofum ekki að þurfa að sinna því eftir 15:30 á daginn. Vegna þess að námið er einstaklingsmiðað geta nemendur farið eins hratt eða hægt í gegnum námið og þeim hentar.
Aðstaðan á Laugum er mjög góð. Heimavistarherbergin eru 20-25 fermetrar og eru öll útbúin með sérbaðherbergi. Mötuneyti er á staðnum þar sem nemendur fá fimm máltíðir á dag fimm (eða sjö) daga vikunnar. Þvottahús er starfrækt innan skólans þar sem er þvegið er af nemendum og þau fá þvottinn samanbrotinn. Skólinn á sitt eigið íþróttahús, lyftingasal og líkamsræktaraðstöðu og geta nemendur notað hana að vild sér að kostnaðarlausu. Einnig er á staðnum sundlaug, frjálsíþrótta- og knattspyrnuvöllur og golfvöllur og þurfa nemendur ekki að greiða fyrir aðgang að neinu af þessu. Þráðlaust internet er í öllum húsum skólans (þ.m.t. íþróttahúsinu) og er aðgangur að því ókeypis. Þar að auki er góður stuðningur við nemendur í gegnum leiðsagnarkennara (umsjónakennara), náms- og starfsráðgjafa, húsbændur á heimavistum og sálfræðingur kemur einu sinni í viku.
Félagslífið er vitanlega mikið og fjölbreytt eins og gengur og gerist þegar stór hópur ungmenna er saman allan sólarhringinn. Hæst ber Tónkvíslina, tónlistarhátíð Framhaldsskólans á Laugum, sem fram fer í febrúar ár hvert og er söngkeppni skólans sem og grunnskólanna í nærliggjandi sveitarfélögum. Henni er sjónvarpað beint á N4 og nemendur sjá um allan undirbúning og framkvæmd og skólahljómsveitin spilar undir í lögunum. Árshátíð er haldin í nóvember með hefðbundnu árshátíðarsniði, gala kvöldverði og skemmtiatriðum. Einnig eru haldnir smærri viðburðir, s.s. Laugadraumurinn þar sem nemendur leysa ýmsar þrautir í tvær vikur, vistakeppnir þar sem vistirnar keppa sín á milli í íþróttum sem og öðrum þrautum, karlakvöld og kvennakvöld, spilakvöld og þannig mætti lengi telja. Þar fyrir utan er svo allt „óskipulagða“ félagslífið sem fylgir lífi á heimavist.
Framhaldsskólinn á Laugum er án efa eitthvað fyrir þig. Hikið ekki við að hafa samband við okkur og/eða koma og skoða aðstöðuna. Við hlökkum til að sjá ykkur
Sigurbjörn Árni Arngrímsson
Skólameistari