Reglubundin heimsókn frá lögreglunni

Í gær fengum við heimsókn frá lögreglunni á Akureyri og Húsavík ásamt lögregluhundinum Kæju. Nemendum og kennurum var safnað saman í íþróttahúsinu á meðan leitinni stóð. Nemendur sýndu einstaklega mikla þolinmæði á meðan leitinni stóð og fóru í ýmsa boltaleiki til að drepa tímann. Á meðan leitaði Kæja í húsnæði skólans, en það var nauðsynlegt að hafa nemendur og kennara í annarri byggingu til þess að tíkin yrði ekki fyrir truflun.

Kæja stillir sér upp við lögreglubílinn eftir leit dagsins

Við erum ákaflega stolt af okkar nemendum, en þau sýndu góðan samstarfsvilja og voru þolinmóð á meðan leitinni stóð. Það er líka einstaklega ánægjulegt að segja frá því að Kæja fann ekki neitt, sem var eins og við bjuggumst við. Svona heimsóknir eru hluti af forvörnum skólans og eru mikilvægur liður í að halda skólanum á þeim stað sem við viljum hafa hann. Heimsókn af þessu tagi er mikilvæg og við reynum að fá hana með reglulegu millibili.

Skólareglur segja til um að öll neysla vímuvaldandi efna er bönnuð á lóð skólans, í húsum hans og í ferðalögum á hans vegum og er þeim reglum sé fylgt vel eftir.

 

Deila