Breyttar áherslur í skólastarfi

Image

Birt 15. apríl, 2020

1) Minni mæting í fagtíma
Skóladagurinn samanstendur af hefðbundnum fagtímum og hóp- og námstímum þess á milli. Fagtímar eru fjölbreyttar kennslustundir á stundatöflu merktar tilteknum námsgreinum, allt frá hefðbundnum fyrirlestrum til umræðutíma og vendikennslu. Til að halda utan um námið hagnýtum við okkur námskerfin Moodle og Teams. Með breyttum kennsluháttum og tæknilausnum mæta nemendur nú í mun færri fagtíma en áður.

2) Nám á eigin forsendum
Nemendur eru með samfelldan skóladag og hver nemandi hefur sína persónulegu vinnustöð í opnu rými þar sem þeir geta unnið í námstímum, sem gefur möguleika á sveigjanlegra námsumhverfi. Í námstímum skipuleggja nemendur sjálfir, með aðstoð kennara, hvaða verkefnum þeir vinna að og geta þannig varið meiri tíma í þær námsgreinar sem þeir vilja leggja áherslu á hverju sinni.
Þetta fyrirkomulag kallar á aukna ábyrgð nemenda á námi sínu, veitir þeim sjálfstæði og reynir á hæfni þeirra til að meta styrkleika sína og veikleika. Með þessu móti geta nemendur einnig í meira mæli valið þær vinnuaðferðir sem henta þeim best. Ákveðnir námsáfangar eru í boði hverju sinni sem nemendur geta tekið á þeim hraða sem þeir ráða við. Ef þeir kjósa að hraða námi sínu krefst það meira vinnuframlags utan hefðbundins skóladags.

3) Persónuleg leiðsögn
Hóptímar eru blanda af fagtímum og námstímum. Segja má að stundatafla Laugaskóla sé fljótandi að vissu marki því hún er breytileg frá viku til viku. Hóptímar í hálfan dag eru fjórum sinnum í viku þar sem allir nemendur, auk nokkurra kennara, eru saman í einu.
Hóptímar hefjast á standandi fundi þar sem nemendur gera grein fyrir áætlunum sínum í náminu þann daginn. Að standandi fundi loknum fara sumir að vinna að verkefnum sínum meðan aðrir fara í úttekt, sem er að yfirgefa hóptíma til að sinna ákveðnum verkefnum undir stjórn kennara. Tímalengd úttekta í hóptíma er mismunandi til að nýta tíma kennara og nemenda sem best. Í hóptíma geta nemendur einnig pantað aðstoð frá ákveðnum kennara. Með þessum hætti njóta nemendur persónulegrar leiðsagnar gegnum allt framhaldsskólanámið.

4) Sveigjanleiki í námi
Almenn ánægja ríkir meðal nemenda með námsfyrirkomulagið og margir þeirra hafa nefnt sveigjanleika sem mikinn kost. Nemendur ákveða ekki aðeins hvaða námsgrein þeir vinna hverju sinni heldur geta þeir valið milli stofa til að vera í. Mismunandi vinnuaðstaða er í boði. Hægt er að vera á sínu vinnuborði, í hópvinnuherbergjum eða á bókasafninu. Sumir kjósa að vinna þar sem er algjört næði meðan öðrum hentar betur að hafa smá umgang. Stundum getur líka verið ágætt að setjast í sófa o.s.frv. Það er semsagt undir nemendunum sjálfum komið hvar þeir vinna og í hverju. Kostir þessa sveigjaleika koma ekki síst fram þegar aðstæður breytast í heiminum eins og við erum að upplifa núna því þá eru nemendur og kennarar við skólann vel í stakk búnir að aðlagast og halda sínu striki í námi og kennslu.

5) Færni til framtíðar
Framhaldsskólinn á Laugum er símatsskóli sem þýðir að nemendur taka próf, gera ritgerðir og leysa verkefni með jöfnum hætti yfir námstímann. Verkefnin sem nemendur vinna yfir önnina eru fjölbreytt. Samfelldur skóladagur, breytilegir kennsluhættir, sveigjanleiki og persónuleg nálgun er öllu ætlað styðja við þá vinnu.
Í skólanum höfum við þá hæfni og þekkingu að leiðarljósi sem nýtist í samfélagi framtíðarinnar. Nám og kennsluhættir eru í örri þróun og störf munu breytast og sum hverfa. Framtíðin kallar á fólk sem hefur færni til að vinna með öðrum, takast á við breyttar aðstæður og vera sveigjanlegt. Áherslan verður því æ meira á sí- og endurmenntun, sjálfstæði og getu til að leysa alls konar ólík verkefni og hugsa út fyrir kassann. Við erum stolt af því að kennsluhættir í Framhaldsskólanum á Laugum hafa verið þróaðir sérstaklega til að efla þessa þætti hjá nemendum.

Deila