Birt 12. nóvember, 2020
Í dag birtist grein eftir Guðmund Smára, raungreinakennara Laugaskóla, á vefnum Skólaþræðir. Greinin fjallar um stórt verkefni nemenda á náttúruvísindabraut, en nemendur í áfanganum „Rannsóknarverkefni í Laxá“ hafa rannsakað smádýralíf við virkjanir í Laxá í Þingeyjarsveit síðastliðin tvö ár. Þessi rannsókn er virkilega spennandi og það er óhætt að segja að spennandi tímar séu framundan hjá nemendum náttúruvísindabrautar. Nemendurnir sem hafa staðið að þessari rannsókn munu fara á alþjóðlega ráðstefnu í júní nk. á vegum verkefnisins, til Flórída.
„ Á vorönn 2020 munu nemendur sitja fimm eininga 4. þreps áfanga þar sem úrvinnsla á sýnunum verður kláruð og gögnin greind. Þá munu nemendur einnig skrifa vísindagrein, flytja fyrirlestur og útbúa veggspjald um verkefnið sem birt verður á ráðstefnu á vegum verkefnisins. Water is Life er alþjóðlegt verkefni þar sem yfir 30 framhaldsskólar frá öllum byggðum heimsálfum koma saman til að kynna verkefni sín og kynnast nemendum og verkefnum frá öðrum skólum. Öll eiga verkefnin sameiginlegt að fjalla á einhvern hátt um vatn, allt frá samfélagslegum og pólitískum áhrifum til þess hvernig vatn er undirstaða alls lífs sem við þekkjum. Framhaldsskólinn á Laugum er fyrsti og eini skólinn á Íslandi sem hefur tekið þátt í Water is Life verkefninu en fjórir nemendur ásamt verkefnastjóra munu fara til Flórída í júní 2020 til að taka þátt í ráðstefnu verkefnisins en annað hvert ár koma allir skólar saman til að kynna sín verkefni. Framhaldsskólinn á Laugum hefur einnig heimsótt skóla í Hollandi og Frakklandi sem eru þátttakendur í verkefninu til að kynnast þeirra verkefnum og skólum, en hollenski skólinn hefur líka sótt okkur hingað heim að Laugum.“