Tónkvíslarvika

Nú er undirbúningur fyrir Tónkvíslina í fullum gangi. Tónkvíslin fer fram í Íþróttamiðstöðinni á Laugum, laugardaginn 22. febrúar næstkomandi. Framkvæmdarstjórn Tónkvíslarinnar skipuleggur keppnina, en stjórnin er skipuð af nemendum Laugaskóla. Auk þess var Arna Kristín ráðin verkefnastjóri Tónkvíslarinnar, en það er í hennar verkahring að sjá til þess að allt fari samkvæmt áætlun, ásamt því að vera hægri hönd framkvæmdarstjórans.

Mugison verður skemmtikraftur kvöldsins. Hann er mörgum kunnugur hér á Laugum, enda fyrrum nemandi Laugaskóla.

Tónkvíslin hefur verið haldin í 15 ár og vex með hverju árinu. Þetta brýtur svo sannarlega upp hið daglega amstur alls samfélagsins á Laugum. Vikan fyrir keppnina fer í að setja upp svið og allt sem því tilheyrir fyrir keppnina. Þessa viku falla allir tímar Íþróttamiðstöðvarinnar í íþróttasal niður, því það þarf meðal annars að leggja sérstök teppi á gólfið ásamt drapperingum, setja upp ljósabúnað, gera sviðið tilbúið, skreyta og allt sem þarf til að halda þennan veglega viðburð.

Síðastliðin ár hefur keppnin verið í beinni útsendingu á N4, en í ár verður hún ekki sýnd í beinni útsendingu. Í ár munu nemendur taka virkari þátt í öllu sem kemur að keppninni, og munu nemendur til dæmis sjá um að taka upp alla keppnina, en útsendingarbíll frá Kukl verður á staðnum með myndavélum og öllu tilheyrandi.

Formlegt skólahald verður með óbreyttu sniði til hádegis á morgun, miðvikudag. En allir nemendur skólans taka þátt með einum eða öðrum hætti, og fá einingar fyrir það.

Miðakaup á Tónkvíslina fara fram á Tix.is og hvetjum við alla til að kaupa sér miða. Húsið opnar kl. 18:30 og keppnin hefst kl. 19:30. Hægt er að fylgjast nánar með undirbúningnum á Facebook-síðu Tónkvíslarinnar