Útskriftarferð til Flórída

Þann 19. október s.l. hélt vaskur hópur tilvonandi útskriftarnemenda í sína útskriftarferð. Fór hópurinn til Orlando í Flórída ásamt tveimur starfsmönnum, hjónunum Hnikari íþróttakennara og Maríu námsráðgjafa, og dvaldi hópurinn í húsi rétt utan Orlando-borgar í eina viku. Ýmislegt skemmtilegt var brallað í ferðinni t.d. var farið á körfuboltaleik í NBA deildinni, keppt í gokart kappakstri, farið í vatnsrennibrautagarð og í skólakynningu.

Toppurinn á ferðinni var þó án efa heimsókn í Universal Studios skemmtigarðinn þar sem hópurinn rölti um Diagon Alley í heimi Harry Potter, barðist við geimverur í 3D leiktækjum, prófaði alla helstu rússíbanana á svæðinu og ýmislegt fleira.

Gaman var einnig að prófa spennandi veitingastaði eins og Cheesecake factory, The Red Lobster og The Waffel House svo einhverjir séu nefndir, kíkja í bíó í IMax kvikmyndahúsi og bara liggja í sólbaði á pallinum og láta sér líða vel. Einhver tími var síðan tekinn í búðarráp eins og lög gera ráð fyrir þegar Íslendingar fara til útlanda og einhverjir prófuðu golfvöllinn í nágrenni heimilisins. 

-María Jónsdóttir

Vetrarfrí og uppbrot

Skólahald hefur verið með aðeins breyttu sniði síðastliðna viku.

Nemendur fóru í vetrarfrí 18. október og mættu endurnærðir aftur á vistarnar 22. október. Það er nauðsynlegt að brjóta upp á hið daglega amstur og fá frí frá hefðbundnum skóladegi. Á miðvikudaginn sl. hófst svokallað Uppbrot, en þá fáum við námskeiðshaldara til þess að vera með hin ýmsu námskeið sem nemendur velja. Í þetta sinnið gátu nemendur valið um fjögur námskeið; Íþróttir og útivist, mannréttindamál, hryllingsmyndir og Morfís.

Uppbrotinu líkur í dag, 25. október og eftir helgi tekur rútínan og hefðbundið skólahald við að nýju. Það má með sanni segja að veturinn sé kominn, en hér á Laugum er allt á kafi í snjó.

Samstarfsverkefni FL við skóla frá Tékklandi

Framhaldsskólinn á Laugum vinnur nú að alþjóðlegu samstarfsverkefni sem styrkt er af Erasmus+ styrkáætlun ESB. Skólinn er í samstarfi við skóla frá Tékklandi og heitir verkefnið „Hiking in Europe“ og snýst um útivist og gönguferðir á fjöllum og stígum. Verkefnastjórar verkefnisins eru þau Bjarney Guðrún og Hnikarr.

Verkefnið hófst í haust með heimsókn þriggja kennara frá Tékklandi hingað í lands. Tilgangur heimsóknarinnar var að undirbúa heimsókn þeirra sem ráðgerð er haustið 2020 þar sem þessir þrír kennara koma með tíu nemendur til að vinna að verkefnum með nemendum Laugaskóla. Farið var og skoðað Ásbyrgi, Hljóðakletta, Dettifoss og Jarðböðin við Mývatn. Einnig var tekin dagsferð uppí Öskju með viðkomu í Herðubreiðarlindum, Dreka og Holuhrauni. Áætlunin er að nemendurnir muni einnig heimsækja þessa staði.

Verkefnastjórarnir munu síðan fara í svipaða kynningarferð til Tékklands næsta vor til að undirbúa og skipuleggja heimsókn með nemendur til Tékklands vorið 2021.

Þetta er í fyrsta skiptið sem FL tekur þátt í verkefni á vegum Erasmus+.

Bíó í sundlauginni á Laugum

Síðastliðinn laugardag, 14. september, var myndin Back to the Future sýnd í sundlauginni á Laugum á tæplega 40 fermetra tjaldi. Systkinin Eyþór Alexander og Birgitta Eva skipulögðu viðburðinn. Að sögn Eyþórs gekk fyrsta sýningin nokkuð vel. „Þetta tókst mjög vel og allt gekk upp en það hefðu mátt koma aðeins fleiri“. Fyrirtækið E-max stóð fyrir þessari bíósýningu, en það eru Eyþór Alexander og Ragnar Yngvi sem reka það saman.

Eyþór Alexander, annar eiganda E-max

„Við sjáum um miðasölu á netinu og erum með hljóðkerfaleigu. Leigjum öðrum hljóðkerfi fyrir viðburði og svo komum við sjálfir með hljóðkerfi og setjum það upp fyrir viðburðinn“, segir Eyþór.

Aðspurður hvort það verði fleiri sýningar í vetur segir Eyþór að það muni koma í ljós, allir viðburðir á þeirra vegum verða auglýstir fyrirfram.

Allar frekari upplýsingar um E-max má finna á www.e-max.is

 

 

Haustferð til Vopnafjarðar

Fyrsti hefðbundni skóladagur vetrarins var í gær, mánudaginn 2. september. Það hefur verið stíf dagskrá síðastliðna daga, en nemendur fóru í haustferð til Vopnafjarðar á föstudaginn, þar sem gist var í eina nótt. Áður en haldið var í ferðalagið var búið að skipta nemendum niður í nokkur lið, og áttu liðin að leysa allskonar þrautir og fá stig fyrir, á leiðinni til Vopnafjarðar og aftur heim. Tvær rútur lögðu af stað frá bílaplani skólans seinnipart föstudags og leiðinni var haldið beint til Húsavíkur þar sem nemendur fengu tækifæri til að kaupa skólabækur fyrir veturinn. Næsta stopp var Ásbyrgi þar sem liðin nældu sér í stig, næst var stoppað á Þórshöfn, og varð sú ferð svo fræg að við komumst á Facebook síðu sjoppunnar í bænum.

Þegar við vorum komin á áfangastað var öllu mokað út úr rútunum og grillað ofan í mannskapinn. Þeir sem vildu fóru í miðnætursund, en aðrir voru eftir í íþróttahúsinu og fóru í leiki og annað hópefli. Nemendur fengu góðan tíma til að athafna sig morguninn eftir, en við lögðum ekki af stað frá Vopnafirði fyrr en uppúr 14. Leikirnir héldu áfram, og byrjuðum við á því að fara í Sandvík þar sem liðin kepptu í kastalagerð og síðasta stoppið var hjá Dettifossi. 

 

Skólasetning og haustferð!

Gallery

Í gær, 28. ágúst var skólinn formlega settur í íþróttasal framhaldsskólans á Laugum. Gaman var að sjá nýja og gamla nemendur koma aftur eftir sumarfrí og koma sér fyrir á heimavistunum.

Nemendur mættu í morgun í Þróttó og Bjössi skólameistari fór yfir helstu atriðin með nemendum. Dagskráin næstu daga er óhefðbundin, en fyrstu dagarnir eru skipulagðir í hina ýmsu leiki og hópefli, því það er jú nauðsynlegt að hrista hópinn saman fyrir veturinn.

Á morgun, föstudag, verður farið í haustferðina og við leggjum af stað frá Laugum eftir kaffihressingu.  Við byrjum á því að fara til Húsavíkur og þar geta nemendur verslað sér bækur sem þau þurfa fyrir skólaveturinn. Við leggjum svo leið okkar til Vopnafjarðar og tökum þátt í allskonar leikjum.  Á Vopnafirði verður grillað og að lokum gistum við í íþróttahúsinu á Vopnafirði. Þessar ferðir hafa alltaf lukkast vel og eru góð byrjun á vetrinum. Nemendur fá lista um það sem þau eiga að taka með sér fyrir ferðina.

  • Til nemenda – í haustferðinni verður Instagram leikur sem við hvetjum ykkur eindregið til að taka þátt í, þar verða ýmsar áskoranir og meðal annars þurfið þið að setja inn myndir með myllumerkinu #laugaskóli.

Við hlökkum til að byrja þennan vetur og erum hæstángæð með þessa byrjun!

Skólinn er loks að hefjast!

Undirbúningur skólaársins í fullum gangi og allt að verða klárt fyrir veturinn. Nú eiga allir nemendur og forráðamenn að vera búnir að fá sent upplýsingabréf þar sem farið er yfir helstu atriðin fyrir komandi skólaár.

Það sem þú þarft að vita:

  • Heimavistir verða opnaðar 28. ágúst klukkan 13:00 og nemendur sækja lykla og skrifa undir húsaleigusamning á skrifstofu skólans.
  • Best er að nemendur séu búnir að koma sér fyrir á heimavist fyrir skólasetningu.
  • Skólasetningin verður 28. ágúst klukkan 18:00 í íþróttahúsi skólans.
  • Foreldrar og forráðamenn velkomnir á skólasetningu og boðið að þiggja veitingar að henni lokinni.

Þróttó

Fimmtudaginn 29. ágúst byrjar skólahald og þá er mæting í morgunmat 8:40 og þaðan liggur leiðin yfir í Þróttó á fyrsta skólafund vetrarins, kl. 9:10.

Nýnemadagarnir okkar kallast „Brunnur“  og þessir dagar verða í gangi frá fimmtudegi – sunnudags. Ætlast er til þess að nemendur mæti þessa daga því það er nauðsynlegt að nemendur kynnist hver öðrum, sem og starfsfólkinu á þennan óhefðbundna og skemmtilega hátt.

Annars erum við orðin spennt að hitta ykkur og vonum að þessi vetur verði skemmtilegur og lærdómsríkur.

-gotta

Nýstúdentar brautskráðir

Image

Laugardaginn 18. maí voru 24 nýstúdentar brautskráðir frá Framhaldsskólanum á Laugum í frábæru veðri.

Tveir nemendur útskrifuðust af íþróttabraut, þrír af náttúruvísindabraut, átta af félagsvísindabraut og 11 af kjörsviðsbraut af jafnmörgum kjörsviðum sem voru búfræði, menntunarfræði, tónlistarflutningur, náttúrufræði, sjúkraliði, forritun, rafvirkjun, hússtjórn, kvikmyndagerð, stálsmíði og söngur. Leon Ingi Stefánsson útskrifaðist með hæstu einkunn nýstúdenta með einkunnina 8,27 og fékk bókagjöf frá Jarðböðunum við Mývatn. Leon hlaut einnig niðurfellingu skólagjalda í HR haustið 2019 fyrir árangur sinn í raungreinum.

Rúmlega 300 manns voru við athöfnina og settu fjölmennir eldri útskriftarárgangar svip sinn á samkomuna, héldu ræður og færðu skólanum gjafir. Var þar bæði um að ræða eldri gagnfræðinga sem og stúdenta. Að athöfn lokinni var kaffisamsæti í Gamla skóla.

Laugaskóli óskar öllum nýstúdentum til hamingju með áfangann og þakkar öllum sem sóttu hann heim fyrir komuna og hlýhug til skólans.

Páskaferð

Image

Nemendur Framhaldsskólans á Laugum fóru í stutta námsferð um páskanna. Sex nemendur ásamt kennara heimsóttu skóla í norður Frakklandi, Saint Joseph Notre Dame College. Þar var unnið í tvo daga á rannsóknarstofu með DNA og Brönugrasafræ. Síðan var farið í tvo daga í íþróttamiðstöð og tekist á við fjölbreytta dagskrá.

Brautskráning 2019

Image

Ágætu Þingeyingar og velunnarar skólans.

Brautskráning nýstúdenta fer fram við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Laugum laugardaginn 18. maí kl. 14:00.
Við bjóðum ykkur öll hjartanlega velkomin að gleðjast með okkur og þiggja kaffiveitingar að athöfn lokinni í matsal skólans.
Þennan sama dag fer aðalfundur hollvinasamtakanna Vinir Laugaskóla fram í íþróttahúsinu kl. 17:00. Velunnarar skólans eru hvattir til að mæta á þann fund.