Reynslunni ríkari eftir veturinn

Image

Blaklið skólans gerði fína ferð í Kópavoginn um síðustu helgi þar sem þeir spiluðu í síðasta helgarmótinu í 3. deild Íslandsmótsins.  Það fór svo að liðið endaði veturinn í 5. sæti deildarinnar og eru reynslunni ríkari eftir veturinn og eru klárlega búnir að setja viðmið til að bæta sig enn meira fyrir næsta vetur. Þeir sem spiluðu í þessu síðasta móti voru: Haukur, Sigurður, Óliver, Árni Fjalar, Guðmundur Gígjar og Stefán Bogi ásamt þeim Bjössa skólameistara og Gumma kennara sem fylltu uppí hópinn fyrir strákana. 

 

Dýrafræði

Image

Nemendur í dýrafræði hafa verið að læra um fiska og fengu tækifæri til að kynnast líffræði bleikjunnar betur en áður með því að kryfja slíkan fisk. Höfðu nemendur gagn og gaman að en einn nemandi hafði nýlokið við að halda fyrirlestur um bleikjur fyrir samnemendur sína í dýrafræðiáfanganum.

Laxárverkefni

Image

Nemendur hafa unnið hörðum höndum í „Laxárverkefninu“ en það snýst um að skoða smádýralíf ofan og neðan Laxárstöðvanna í Laxá. Sýnum hefur verið safnað mánaðarlega í að verða eitt ár (ein sýnatökuferð eftir). Sýnin eru mjög umfangsmikil (mörg dýr í hverju sýni) og því fóru nokkrir nemendur með Gumma kennara (og verkefnisstjóra) heim að Hólum í Hjaltadal þar sem unnið var á rannsóknarstofu Fiskeldis- og fiskalíffræðideildar (staðsett á Sauðárkróki) með tæki sem getur skipt sýnunum til helminga. Svo fór að ekki náðist að klára að skipta sýnunum og fékkst því tækið lánað í Laugar í örfáa daga áður en þess var þörf annarsstaðar. Framundan er mikil vinna við að greina og telja dýrin sem eru í sýnunum og spennandi verður að sjá hverjar niðurstöðurnar verða.

Margrét Inga og Dagbjört Nótt sigurvegarar Tónkvíslarinnar 2019

Image

Margrét Inga Sigurðardóttir frá Framhaldsskólanum á Húsavík vann sigur á Tónkvsílinni 2019. Margrét sögn lagið Piece By P Piece. Eyþór Kári Ingólfsson Framhaldsskólanum á Laugum varð í öðru sæti með lagið Natural og Hubert Henryk Wojtas Framhaldsskólanum á Laugum varð í þriðja sæti með lagið Drinking About You sem hann samdi sjálfur.

Dagbjört Nótt Jónsdóttir Öxarfjarðarskóla, vann grunnskólakeppnina. Dagbjört Nótt söng lagið Take Me To Church. Friðrika Bóel Jónsdóttir Borgarhólsskóla varð í öðru sæti með lagið Teenage Dirtbag og Klara Hrund Baldursdóttir Borgarhólsskóla varð þriðja með lagið Keep On Loving You.

Vinsælasta lagið í símakosningunni varð Take Me Home, Country Roads með þeim Eyþór Darra Baldvinssyni og Pétri Ívari Kristinssyni úr Framhaldsskólanum á Laugum.

Sturla Atlas skemmti áhorfendum í sal í dómarahléi sem og áhorfendum N4. Þegar þetta er skrifað er enn hægt að horfa á Tónkvíslina 2019 í tímaflakki á Sjónvarpi Símans.

iWall

Image

Í tilefni af 30 ára afmæli Framhaldsskólans á Laugum færðu Þingeyjarsveit, Skútustaðahreppur og Sparisjóður Suður-Þingeyinga skólanum að gjöf tæki sem kallast iWall.
iWall er æfingatæki þar sem blandað er saman tölvuleikjum og hreyfingu. Um er að ræða nokkurs konar hermi samanber golfhermi. Leikmaðurinn stjórnar leikjunum með hreyfingum sínum og getur hann keppt við sjálfan sig eða félaga en tveir geta verð í tækinu í einu.
Þetta er fyrsta tækið þessarar tegundar sem flutt er til Íslands, en framleiðsluland þess er Finnland og hafa þessi tæki verið seld til fjölmargra skóla í Evrópu og Norður Ameríku auk skóla í heimalandinu.

Lestu áfram →

Viktor og María Rós Laugameistarar í miðjubolta

Image

Á mánudaginn fór fram Laugamótið í miðjufótbolta sem er einstaklingskeppni þar sem spila 1 á móti 1 og það þarf að skjóta boltanum frá eigin vallarhelmingi. Tveir keppendur tóku þátt í kvennaflokki þar sem María Rós sigraði. María tók síðan líka þátt í karlaflokki og stóð sig vel. Alls voru 8 keppendur í karlaflokki og í undanúrslitum mættust annars vegar Stefán Bogi og Viktor Alexander en hins vegar Mikael og Óliver. Eftir hörkuleiki fór það svo að Viktor og Óliver unnu sína leiki og mættust í úrslitaleik. Þar stóð Viktor uppi sem sigurvegari, vann leikinn 2 – 0. Við óskum þeim Maríu Rós og Viktori Alexander til hamingju með titilinn “Laugameistari í miðjubolta”.

Vistarkeppni nemenda

Image

Núna eftir áramótin hefur verið í gangi vistarkeppni í skólanum þar sem keppa annars vegar íbúar á Tröllasteini og hins vegar íbúar á Fjalli/Álfasteini og utanvistar nemendur.

Búið er að keppa í 3 greinum og hefur skapast skemmtileg stemning í kringum þessa viðburði. Síðastliðinn fimmtudag áttust liðin við í blaki. Fyrir leikinn höfðu Fjall/Álfasteinn/utanvistar nemendur haft sigur í bæði fót- og handbolta með þó nokkrum yfirburðum, þá sérstaklega í handboltanum. Lið Tröllasteins mætti hins vegar gríðarlega öflugt til leiks í blakinu og hafði mikla yfirburði og hreinlega völtuðu yfir andstæðinga sína og hefndu fyrir útreiðina sem þau höfðu fengið í handboltanum.

 Lið Tröllasteins náði þannig að rétta aðeins sinn hlut í heildarkeppninni milli liðanna. Spennandi verður að fylgjast með framvindu mála á næstu vikum hvort þessi sigur færir liði Tröllasteins það sjálfstraust sem þarf til að sækja fleiri sigra eða hvort þessi kalda vatnsgusa sé nóg áminning fyrir Fjall/Álftastein/utanvistar nemendur um að ekkert megi slaka á í baráttunni um vistarbikarinn.

 

Nemendur eru Laugabikarmeistarar á haustönn 2018

Image

Spennan var magnþrungin þegar lokaviðureignin í Laugabikarnum fór fram þessa önnina í hádeginu í dag. Keppni dagsins var boccia. Það var allt undir þar sem bæði lið höfðu unnið 2 keppnir fram að deginum í dag, og því var ljóst að úrslitin myndu ráðast í þessari lokakeppni.

Lið starfsmanna, skipað þeim Hjördísi, Kristjáni og Sigrúnu, byrjaði leikinn af miklum krafti og Sigrún náði fljótlega mjög góðu kasti sem setti pressu á andstæðinginn. Lið nemenda reyndu hvað þeir gátu til að sprengja upp stöðuna og kraftmikið kast frá Sigurði fór nálægt því að skjóta hvítu kúlunni í burtu frá boltanum hennar Sigrúnar. En nær komust nemendur ekki og lið starfsmanna hafði sigur í fyrsta leiknum en vinna þurfti tvo leiki til að klára viðureignina. Lið nemenda ætlaði ekki að láta valta yfir sig og mættu ákveðnir til leiks í annarri umferð. Eyþór Kári átti þá gott kast þegar hann lagði boltann sinn alveg upp að hvíta boltanum. Lið starfsmanna náði ekki að brjótast framhjá boltanum hans Eyþórs með þeim boltum sem eftir voru, og urðu því að játa sig sigraða í öðrum leiknum. Því var allt jafnt í viðureigninni og þurfti að spila oddaleik til að skera úr um það hverjir yrðu Laugabikarmeistarar þessa önnina.

Sigurður kastaði fyrstur fyrir nemendur og var kastið alltof langt. Hjördís kastaði næst fyrir starfsmenn og þó kastið væri of langt var það örlítið nær en kastið hans Sigurðar. Greinilega mikið stress í gangi hjá báðum liðum enda mikið undir. Lið nemenda ákvað að láta Sigurð kasta aftur seinni boltanum sínum. Þetta reyndist örlagarík ákvörðun því Sigurður smellti boltanum sínum alveg uppað hvíta boltanum og færð þannig alla pressuna yfir á lið starfmanna. Næstu köst starfsmanna sleiktu hvíta boltann en náðu aldrei almennilega að ýta honum frá boltanum hans Sigurðar. Síðasti kastið var Hjördísar. Hún hitti beint í hvíta boltann sem kastaðist frá boltanum hans Sigurðar og bolti Sigrúnar kastaðist um leið í hina áttina. Áhorfendur risu úr sætum af spenningi…..hvor væri nær? Út brutust mikil fagnaðarlæti þegar dómarinn greindi frá úrskurði sínum: “Sigurður er nær…..NEMENDUR UNNU”.

Glæsileg frammistaða hjá báðum liðum en verðskuldaður sigur hjá nemendum sem eru Laugabikarmeistarar á haustönn 2018. Nemendur fengu auk þess Quality Street bauk í verðlaun.

Að keppni lokinni voru einnig veittir bikarar fyrir Hressbikarinn 2018 en þar stóð lið WC Ríben uppi sem sigurvegari.

(Texti: Andri Hnikarr Jónsson/hnikarr@laugar.is)