Fjórða og síðasta keppnin í Hressbikarnum

Image

Birt 5. desember, 2018

Fjórða og síðasta keppnin í Hressbikarnum 2018 fór fram í dag í íþróttahúsinu. Englarnir og WC Ríben mættust enn á ný og að þessu sinni á blakvellinum. Úr varð hörkuleikur og var þetta jafnasta einvígi liðanna í keppninni í ár.

Fyrsta hrinan var æsispennandi og án þess að ýkja þá var bókstaflega jafnt á öllum tölum allt uppí stöðuna 18 – 18. Þá náðu WC Ríben loksins að slíta Englana frá sér og unnu góðan 21 – 19 sigur og voru þar með komin með forystu í leiknum, en vinna þurfti 2 hrinur til að klára leikinn.

Jafnræði var áfram með liðunum í upphafi 2. hrinu en í stöðunni 3 – 3 náðu WC Ríben góðri skorpu með góðum uppgjöfum frá Sigurbjörgu. Englarnir unnu þó boltann í stöðunni 7 – 3 og fór þá Halldór Helgi í uppgjöf. Halldór náði að slá öll vopn úr höndum WC Ríben og með frábærum uppgjöfum breyttu Englarnir stöðunni í 12 – 3. Eftir það var aldrei spurning hver myndi vinna hrinuna en Englarnir unnu að lokum þægilegan 21 – 14 sigur og kreistu fram oddahrinu.

Gríðarleg spenna var í oddahrinunni, liðin skiptust á að taka forystu en þegar fór að nálgast lok hrinunnar fóru stressið að leggjast á leikmenn og mikið var um mistök í uppgjöfum. Jafnt var í stöðunni 14 – 14. Englarnir áttu uppgjöf en klúðruðu henni. Óliver fór í uppgjöf fyrir WC Ríben og kom boltanum yfir. Eftir mikið klafs og vandræðagang hjá Englunum datt boltinn að lokum í gólfið hjá þeim og 16. stigið í höfn hjá WC Ríben og þar með sigur í leiknum og jafnframt „fullt hús“ í keppninni allri. Frábær árangur hjá WC Ríben og óskum við þeim innilega til hamingju með sigurinn en WC Ríben er Hressbikarmeistari 2018.

Verðlaunaafhending fer fram í hádeginu miðvikudaginn 12. desember að lokinni síðasta einvíginu í Laugabikarnum, keppninni milli starfsmanna og nemenda sem er nú í fullum gangi. 

Liðin:
WC Ríben: Óliver, Ragnar, Daníel Freyr, Leon, Indía, Benedikt og Dagný.   
Englarnir: Árni, Sigurbjörg, Haukur, Halldór og Stefán Óli (vantar á myndina Helgu Maríu). 

Nýtt píanó – gjöf frá eldri nemendum

Image

Birt 28. nóvember, 2018

Í hádeginu í gær vígði Eyþór A. Hallsson nýtt rafmagnspíanó sem keypt var fyrir gjafafé frá eldri nemendum Laugaskóla.
Píanóið er staðsett í borðsal og mun nýtast vel á hátíðum skólans.
Vonum við að nemendur eigi eftir að nýta hljóðfærið sem mest, sjálfum sér og öðrum til ánægju.

Eyþór við píanóið

Hressbikarinn

Image

Birt 28. nóvember, 2018

WC Riben liðið skipuðu; Ragnar, Óliver, Leon, Benedikt og Dagný.

Þriðja umferðin í Hressbikarnum 2018 fór fram í gær. Keppt var að þessu sinni í bandý og mættust á ný liðin WC Riben og Englarnir. Bandý er klárlega í miklu uppáhaldi hjá WC Riben því skemmst er frá því að segja að liðið vann öruggan 10 – 0 sigur og er þar með enn með fullt hús stiga í heildarstigakeppninni. Fátt virðist því geta komið í veg fyrir sigur liðsins þetta árið. Síðasta umferð keppninnar fer fram næsta þriðjudag en þá verður keppt í blaki.