Birt 10. október, 2025
Allt frá Vopnafirði til Hörgársveitar
Í seinustu viku fór grunnskólamót Framhaldsskólans á Laugum fram. Það er viðburður sem nemendur og íþróttakennarar skólans halda fyrir grunnskólana í kring, allt frá Vopnafirði til Hörgársveitar. Í ár tóku 10 grunnskólar þátt og skráðir voru 214 nemendur í 101 lið. Það var mikil aðsókn í körfuboltann þar sem 25 lið tóku þátt en enn meiri í blakinu þar sem 38 tveggja manna lið tóku þátt.
Nemendur Laugaskóla sjá um undirbúning
Það er mikið fjör að halda svona mót en það er líka flókið. Nemendur Laugaskóla koma mikið að utan umhaldi og undirbúningi með mismunandi hætti. Nemendur skipuleggja þrautabrautir, rita niðurstöður leikja, dæma og sjá um sjoppuna á staðnum. Allt þetta væri þó ekki hægt án Svavars og Hnikarrs, íþróttakennara okkar. Þeir sáu um skráningu liða og skipulögðu leikina þannig að allt gengi smurt fyrir sig.
Fjölbreytt skemmtun
Eftir mótið og dagskrána niðri í íþróttahúsi var öllum grunnskólanemendum boðið í hamborgara í mötuneytinu hjá Kristjáni kokki. Allir nutu þess að borða og spjalla saman, síðan eftir mat var farið í myrkvafeluleik um allan skólann og sigurvegarar fengu síðan verðlaun. Nemendafélag skólans bjó til dagskrá fyrir kvöldið þar sem farið var í stopp dans, hókípókí og fullt af skemmtilegum dönsum. Auk þess var boðið upp á spil, borðtennis og hreyfivegginn niður í gömlu laug. Að dagskrá lokinni héldu grunnskólanemendur glaðir heim á leið eftir góðan dag. Nemendur Laugaskóla voru mjög ánægðir með vel heppnaðan dag og skemmtu sér ótrúlega vel við að halda þetta skemmtilega mót.
Við viljum að þetta sé eftirminnilegt fyrir krakkana
Þessi viðburður er ekki bara frábær skemmtun fyrir bæði nemendur Laugaskóla og grunnskólana heldur einnig frábær auglýsing fyrir skólann. Það er ekki oft sem við fáum 200+ grunnskólanemendur í skólann, þannig að við reynum að gera þetta eins skemmtilegt og eftirminnilegt fyrir krakkana eins og hægt er.
Frétt: Dagrún Inga Pétursdóttir og Jón Aðalsteinn Snæbjörnsson