Mánudagsminning

Birt 31. mars, 2025

Þróttó eins og gamla íþróttahúsið á Laugum er jafnan kallað í daglegu tali er viðfangsefni vikunnar að þessu sinni.

Svo segir á heimasíðu skólans

Þróttó:  gamla íþróttahúsið sem var reist 1929, er kvikmyndahús en salurinn var gerður upp af nemendum skólans árið 2005 og er hann notaður við margskonar tilefni, svo sem fundi, fyrirlestra eða tónleika eða skemmtanir.Þróttó er meira en kvikmyndahús. Þar er hægt að halda tónleika eða fyrirlestra enda húsið útbúið með fullkomnu hljóð- og myndkerfi. Þar halda nemendur stærri fundi og þar fer einnig fram kennsla. Þar er aðstaða fyrir nemendur til að æfa tónlist, leiklist eða hvers konar uppákomur sem þeir vilja ráðast í.

Bíó á Laugum 

Á sínum tíma þegar íþróttahúsið var reist þá var það eitt stærsta íþróttahús á landinu. Síðan hafa orðið miklar breytingar á notkun húsnæðisins. Um tíma var þar hægt að fara í bíó. Árið 1945 gáfu fóstursystkinin, Helgi Benediktsson, athafnamaður í Vestmannaeyjum og Kristbjörg Þorbergsdóttir, sem þá var matráðskona Landspítalans, Laugaskóla tvær 35 mm kvikmyndasýningarvélar af tegundinni Peerles. Voru vélarnar settar upp í íþróttahúsi skólans og sýningar hafnar um haustið. Vélarnar voru sendar til Húsavíkur með skipi og þaðan fluttar til Lauga. Og ekki var lokið höfðingsskap Helga og Kristbjargar því þau báru einnig kostnað af uppsetningu vélanna og þeim lagfæringum sem gera þurfti á þeim, en skólinn greiddi fyrir breytingar sem gerðar voru á Þróttó svo það hentaði til kvikmyndasýninga. Var vélunum fundinn staður á svölum miðhæðar Þróttó og voru vélarnar notaðar framundir 1970, en þá hafði ný tækni rutt sér til rúms. Árið 2005 var ráðist í breytingar á íþróttahúsi skólans, Þá var önnur vélin gerð upp og er nú til sýnis í glerskáp og hin vélin var notuð í varahluti.

Snæbjörn sem sá um sýningar á Laugum ásamt Hlyni syni sínum.

 

Í dag er Þróttó vel notað til fundarhalda, fyrirlestra, tónkvíslar og hljómsveitaræfinga ásamt því hafa hinar ýmsu leiksýningar verið settar þar upp og viðburðir af ýmsu tagi. Það má því með sanni segja að Þróttó sé afar mikilvægur partur af sögu Laugaskóla.

 

Myndir Framhaldsskólinn á Laugum og Sarpur.

Deila