Vikulega viðtalið

Birt 14. mars, 2025

Kristinn Ingi Pétursson er okkar vikulegi viðmælandi að þessu sinni. Kristinn rekur tölvu- og netþjónustuna Stafn.is Reynsla – Stafn.is  og er einnig í hálfu starfi sem kerfisstjóri Framhaldsskólans á Laugum. Sem aukabúgrein selur hann dagsferðir á jeppa undir nafninu Kip.is  Kip – Private Guided Day Tours in North Iceland

 

Hvenær stundaðir þú nám við Framhaldsskólann á Laugum?

Veturinn 1994-95. Grunnskólinn minn Litlulaugaskóli var þá með 1.-9. bekk, og Laugaskóli kenndi 10. bekk. Þetta var ekki einsdæmi þannig að það komu krakkar víða af landinu til að taka 10. bekk hér og búa á heimavist.

Hvað er minnistæðast við dvöl og nám í Framhaldsskólanum á Laugum?

Kynnast nýju fólki og ólíkri menningu sem krakkar höfðu með sér frá sínum heimahögum. Þetta var fjölmenningarstaður ef svo má segja. Börn voru misjafnlega langt komin í þroska og lífsreynslu og sumir þurftu að þroskast hratt þegar þeir komu hingað. Fyrir flesta var þetta nýtt, að búa ekki lengur hjá foreldrum, og vera komin á heimavist.

Fyrir sveitarstrák eins og mig þá var þetta ákaflega jákvætt fyrir margar sakir. Félagsþroski jókst með þeim munaði að geta verið allar stundir kringum jafnaldra. Öll kvöld var farið niður í íþróttahús og spilaður körfubolti, nema þegar gólfið var upptekið af fólki sem kann ekki að halda á bolta og þarf að nota fæturna.

Nemendur í íþróttahúsinu á Laugum í Reykjadal

 
Getur þú mælt með Framhaldsskólanum á Laugum og ef svo er, þá af hverju? 

Já ég get mælt með honum. Framhaldsskólann á Laugum, eða Laugaskóli eins og hann er oft kallaður, hefur forskot og sérstöðu sem ekki allir aðrir skólar geta státað sig af. Fyrst og fremst er það smæðin og staðsetningin sem býr til kjöraðstæður fyrir ungt fólk til að þroskast og verða að heilsteyptum einstaklingum, bæði í námi og leik.

Allir kennarar þekkja hvern einasta nemanda

Það að allir kennarar þekki hvern einasta nemanda með nafni, styrk hans og veikleika þýðir einfaldlega að allt nám verður einstaklingsmiðað. Þetta atriði, að starfsmenn þekki vel þarfir hvers einasta skjólstæðings, nemanda, þýðir að nemendur hér upplifa sig örugga og fá allan þann tíma og þjónustu sem þeir þurfa til að ná árangri.

Fyrir ákveðinn hóp af einstaklingum getur það einnig verið hollt að breyta til

Fyrir ákveðinn hóp af einstaklingum getur það einnig verið hollt að losna úr umhverfi sinna heimahaga og breyta til. Hér hafa krakkarnir aðgang að góðu fæði á reglubundnum tíma í mötuneyti, aðgang að hjúkrunarfræðing, sálfræðing og stórgóðum ritara svo eitthvað sé nefnt. Aðstaða þessi, sundlaugin, pottarnir, ræktin og íþróttahúsið sem eru hér á skólalóðinni og krakkarnir fá að nota að vild, eykur heilbrigði og vellíðan. Svo mæli ég einnig með skólanum sem vinnustað. Skrifstofa mín er í „Gamla skóla“ húsinu þar sem ég sinni störfum kerfisstjóra. Það er mikill munaður að borða hádegismat í mötuneytinu alla virka daga sem Kristján Guðmundsson og hans fólk eldar á sama hátt og fyrir 30 árum þegar ég var hér á heimavist.

 Já ég gæti ekki hugsað mér betri stað fyrir ungmenni.

 

Frábær lokaorð og við þökkum Kristni kærlega fyrir viðtalið.

 

Deila