Vikulega viðtalið

Birt 18. febrúar, 2025

Skólahald hefur verið samfleytt á Laugum í Reykjadal allt frá árinu 1925 er Alþýðuskóli Þingeyinga hóf göngu sína.

Það er því í október á þessu ári sem Laugaskóli fagnar hundrað ára afmæli sínu og af því tilefni ætlum við að taka vikuleg viðtöl við fyrrum nemendur skólans. 

Fjórði viðmælandinn í okkar vikulegu viðtölum við fyrrum nemendur Laugaskóla er Linda Pétursdóttir. 

Linda Pétursdóttir stundaði nám við Laugaskóla á árunum 1984 -1986. 

Linda Pétursdóttir nemandi í Laugaskóla á árunum 1984-1986

 

Linda Pétursdóttir er master lífsþjálfi sem kennir konum að uppfæra sjálfsmyndina, fjármálin og lífstílinn ásamt því heldur hún uppi gríðarlega vinsælu podcasti, Podcastið með Lindu Pé.  https://www.lindape.com/

Við spurðum Lindu hvað henni þætti minnisstæðast við nám og dvöl við Laugaskóla
 
Það er svo margt en ætli það sé ekki fyrst og fremst samfélagið og þær góðu minningar sem ég á þaðan. Við komum hópur af krökkum frá Vopnafirði fyrri veturinn og það var stórt skref fyrir mig að fara að heiman, aðeins 15 ára gömul en ég lauk seinasta skólaárinu í grunnskóla á Laugum, sambærilegt við 10. bekk í dag, aðrir sem komu frá Vopnafirði voru eldri en ég og á leið í framhaldsnám. En ég á margar góðar minningar, bæði meðal starfsfólks, kennara og auðvitað samnemenda.
 

Kosin ungfrú Laugaskóli 

Nú svo fékk ég fyrsta titilinn minn sem fegurðardrottning þegar ég var kosin Ungfrú Laugaskóli og næstu þar á eftir voru svo Ungfrú Ísland og Ungfrú Heimur.
Þannig að Laugar voru og eru eflaust enn, með puttann á púlsinum!
 
 
 

Linda Pétursdóttir Miss World árið 1988

 

Mælir þú með Laugaskóla ?

Já svo sannarlega. Það að fara að heiman og á heimavist á Laugum var gæfuspor fyrir mig eins og svo marga aðra. Maður þurfti að fullorðnast hratt og taka ábyrgð á sjálfum sér fyrir utan hvað þetta var skemmtilegur tími. Dvölin undirbjó mig vel undir næsta skref hjá mér sem var að fara utan í nám sem skiptinemi til Bandaríkjanna. 
 
Nokkrar kynslóðir sótt nám á Laugum
Þess utan hafa nokkrar kynslóðir fjölskyldu minnar sótt nám á Laugar en Sigga amma mín fór í Hússtjórnarskólann, og þar næst Ása móðir mín, svo ég og síðast Sævar bróðir minn öll í framhaldsskólann á Laugum og eigum við öll góðar minningar þaðan, sem gleymast seint.
 

Við þökkum Lindu kærlega fyrir afar skemmtilegt og flott viðtal. 

Fréttaskrif : Sólborg Matthíasdóttir 

Deila