Hátíðlegur dagur á Laugum

Framhaldsskólinn á Laugum brautskráði 34 nýstúdenta laugardaginn 18. maí og hefur hann bara einu sinni áður útskrifað jafnmarga nemendur í einu. Um 400 manns komu á brautskráninguna og þáðu hátíðarkaffi á eftir og voru fjölmargir eldri útskriftarárgangar skólans þar á meðal. Semidúx var Edda Hrönn Hallgrímsdóttir með einkunnina 9,26 og dúx var Arney Dagmar Sigurbjörnsdóttir með hæstu meðaleinkunn í sögu skólans 9,52. Báðar útskrifuðust þær af tveimur brautum, Edda af félagsvísindabraut og íþróttabraut og Arney af félagsvísindabraut og kjörsviðsbraut með listir sem kjörsvið. Kristinn Ingi Pétursson kerfisstjóri hlaut silfurmerki skólans fyrir 10 ár í starfi og þau Sigríður Hlynur H. Snæbjörnsson húsbóndi og Freydís Anna Arngrímsdóttir vinnustofukennari gullmerki skólans fyrir 20 ára í starfi. Af störfum við skólann létu þau Sigrún Aagot Ottósdóttir skólafulltrúi, Jóna Björk Jónsdóttir raungreinakennari og Kristján Snæbjörnsson umsjónarmaður fasteigna og eru þeim þökkuð góð störf í þágu skólans. Skólinn þakkar öllum komuna sem og gjafir frá eldri útskriftarárgöngum og óskar nemendum og starfsfólki góðs sumarfrís.
 
 
 
Deila