Birt 27. október, 2023
Í frétt vikunnar var tekið viðtal við systkinin Sigurbjörn Árna Arngrímsson og Freydísi Önnu Arngrímsdóttur, en þau starfa bæði við skólann, Bjössi sem skólameistari og Systa, eins og hún er alltaf kölluð, sem kennari. Þau voru bæði nemendur við skólann og langaði okkur að fræðast um hversu öðruvísi skólinn var á þeim tíma og í dag. Viðtalið við Systu birtist hér í dag eftir nemandann Söndru Rut Fannarsdóttir.
Systa er kennari við Laugaskóla en hún var einnig nemandi við skólann á árunum 1978 – 1980 og var því í tvö ár við skólann. Laugaskóli var hennar „heima“ skóli þar sem hún bjó í Mývatnssveit. Hún tók níunda bekkinn á Laugum, sem samsvarar tíunda bekk í dag, og útskrifaðist úr grunnskóla 1979. Eftir að hún útskrifaðist úr grunnskóla tók hún eitt ár í bóknámi á Laugum en þurfti síðan að klára stúdentinn í Menntaskólanum á Akureyri en Laugar og MA voru samtengdir og var hægt að taka fyrsta skólaárið á Laugum og síðan klára stúdentsprófið í MA.
Lífið á vistinni
Þegar Systa var í skólanum var hún á heimavistinni og voru vistirnar þá skiptar eftir kyni. Stelpurnar voru allar með herbergi í Gamla skóla og strákarnir voru með herbergi á Dvergasteini og Draugasteini (Fjalli). Það var ekki búið að byggja Tröllastein á þeim tíma og Álfasteinn var ekki í notkun þar sem annað skólastarf var í því húsnæði. Á þessum tíma voru engir húsbændur sem hugsuðu um vistirnar á kvöldin en í staðinn bjuggu kennararnir í kennaraíbúðum á vistunum og sáu um eftirlit á kvöldin. Vistunum var alltaf læst klukkan tíu á kvöldin eftir kvöld kaffi svo það væri ekkert flakk á milli vistanna, að stelpurnar væru ekki að flakka á vistirnar hjá strákunum og öfugt. Klukkan ellefu áttu síðan allir að vera komnir inn á sín herbergi, búnir að græja sig fyrir svefninn og vera komin upp í rúm. Þá gengu kennararnir á milli og pössuðu það og slökktu síðan ljósin en stundum voru þau kveikt aftur segir Systa. Það voru frekar strangar reglur tengdar vistinni. Stelpurnar og strákarnir máttu ekki vera á vist hvors annars nema á milli klukkan 4 og 5 á virkum dögum en það var þó aðeins rýmra um helgar. Og þau máttu ekki sofa á vist hvors annars. Klukkan fimm var alltaf lesnæði og áttu þá allir að læra „heima“ og klára verkefni fyrir næsta dag. En á vistunum í Gamla skóla var bara eitt skrifborð inn á hverju herbergi en það voru 2-4 saman í herbergi þannig að það fékk bara einn að vera inn á herbergi að læra á meðan hinir þurftu að vera í stofu með kennara í. Á meðan var annar kennari sem gekk á milli herbergja og tékkaði hvort allir væru ekki örugglega að læra og aðstoða eftir þörfum. Systa segir frá því að annan hvern laugardag var kennsla fram á hádegi en á þessum árum byrjaði skólinn í september og lauk snemma í maí. Skólaárið var því styttra þá en það er í dag en á móti kennt á laugardögum. Á þessum tíma var ekki kokkur í mötuneytinu heldur voru konur sem sáu um matinn og mötuneytið. Þá var oftast bara alvöru heimilismatur en ekki oft pizzur, hamborgarar og franskar eða önnur svona unnin matvara.
Félagslífið
Systa segir að félagslífið á þessum tíma hafi líka verið öðruvísi. Aðallega þar sem þau voru ekki með alla þessa tækni og samfélagsmiðla sem eru í dag. Stelpurnar voru með „kvöldvökur“ saman eftir að búið var að læsa vistunum. Þá voru þær að spila á gítar og syngja saman, dansa eða bara spjalla um hitt og þetta og slúðra. Systa segir að þetta hafi verið mjög góður gæðatími að vera bara stelpurnar saman. Íþróttahúsið var ný komið og var það opið á milli klukkan 7 og 9 á kvöldin og fengu strákarnir klukkutíma í salnum og stelpurnar klukkutíma. Skólinn var með lið í blaki og var tekið þátt á Íslandsmeistaramótum og var mikið af góðu íþróttafólki í skólanum og mikið af íþróttafólki valdi að koma í skólann. Þá var bíó í Þróttó einu sinni í viku, oftast á fimmtudögum því þá var ekki sjónvarp. Lionsklúbburinn Náttfari sá um bíókvöldin en það voru íbúar í sveitinni. Þá þurfti að bera fullt af stólum niður í Þróttó þar sem það voru ekki komnir stólar eins og er í dag. Þetta var yfir 100 stóla sem voru bornir úr Gamla skóla yfir í Þróttó og var það alltaf ein bekkur í hverri viku sem þurfti að sjá um það og síðan að bera þá aftur til baka eftir myndina. Þegar Systa var í skólanum var árshátíðin haldin á Breiðumýri með balli og það kom hljómsveit sem spilaði. Síðan var haldin 1. desember hátíð í matsalnum í skólanum. Þá var góður matur og síðan var borðunum staflað saman eftir matinn og búið til svið fyrir hljómsveitina sem kom og spilaði. Á þessu kvöldi var dansað og sýndu nemendur leikrit og heimagerð skemmtiatriði og fleira skemmtilegt.
Einu sinni Laugamaður ávallt Laugamaður
Systa segir að uppáhaldskennarinn hennar hafi verið Ingólfur Geir en hann kenndi dönsku og líffræði. Þegar Systa var í skólanum var Sigurður Kristjánsson skólameistari og var hann búinn að vera skólameistari hátt í 30-40 ár en hana minnir að hann hafi hætt árið eftir að hún fór úr skólanum. Systa gat ekki nefnt eitthvað eitt sem var eftirminnilegast úr skólagöngu sinni á Laugum þar sem það var svo margt en svona það helsta sem hún nefndi var vinirnir sem hún eignaðist og að vera með öllum stelpunum úr skólanum á kvöldin en þær settu saman leikrit sem þær sýndu síðan á ársátíðinni. Systa segir frá einum tíma þar sem hún braut þá reglu að fara ekki á milli vista en hún gerði það bara einu sinni. Hún var á efstu hæð á Norðurvegi og þurfti að klifra niður brunastigann en hún var svo lofthrædd og var svo lengi að ná sér niður á eftir að hún þorði ekki að gera þetta aftur. Systa er enn í góðu sambandi við gömlu skólafélagana úr skólanum. Þau hittast á fimm ára fresti og segir Systa frá því að hópurinn sé að stefna á að hittast í vor. Það var ekki alltaf planið að koma og kenna í Laugaskóla en stefnan var alltaf hjá henni að verða bóndi og íþróttakennari, sem hún er í dag, en hún ætlaði ekkert endilega að kenna á Laugum. En þegar hún útskrifaðist úr kennaranáminu árið 1986 var laus staða á Laugum en þá var hún einungis 22 ára gömul. Hún fékk stöðuna og kenndi fyrst í 12 ár og kom síðan aftur og er búin að vera í 7 að verða 8 ár. Systa segir að það sé munur á því að vera kennari þegar hún fyrst byrjaði og í dag. Þá voru aðeins strangari reglur gagnvart náminu. Það voru blandaðar vistir þá en kennararnir sáu enn um að ganga á vistirnar og læsa og tékka hvort allir væru ekki að fara að sofa en það var þó ekki slökkt ljósin eins og var þegar hún var nemandi en krakkarnir þurftu að vera komnir inná herbergi klukkan 11. Systa segir að henni finnist gaman að vera kennari, hún segir að hún væri sennilega ekki búin að vera svona lengi ef henni fyndist þetta ekki gaman. Þegar hún var spurð í hvaða stofu væru mestu lætin segir hún að það fari eftir dögum. Stundum er það inn í Miðdeild og stundum inni í sal. Það geta alveg verið læti inn í bláu deild ef margir fara þar inni. Það fari svona eftir hverir eru í úttekt og hverjir ekki en hún segir það séu minnstu lætin í Valgerðar- og dagstofu þar sem þar eru svo fáir inni. Systa segist ekki kaupa oft merktan skólafatnað því þá ætti hún ekkert annað. Þegar Systa er spurð hvort hún sé Laugamaður þá svarar hún játandi.