Birt 25. apríl, 2022
Söngkeppni Framhaldsskólanna fór fram á Húsavík þann 3.apríl síðastliðinn og fyrir hönd framhaldsskólans á Laugum keppti Dagbjört Nótt Jónsdóttir með laginu Í fjarlægum skugga. Dagbjört stóð sig með prýði og voru nemendur og starfsmenn stoltir af sinni konu!
Síðastliðnar vikur hafa verið þétt skipaðar í Laugaskóla. Keppnin „Laugadraumurinn“ náði hæstu hæðum í vikunni fyrir páskafrí, en keppnin gengur út á það að safna stigum fyrir hönd hverrar heimavistar. Það er alltaf líf og fjör í skólanum þegar Laugadraumurinn er í gangi, en þá má t.d sjá nemendur mæta í ýmsum búningum.
Á myndunum hér fyrir neðan má sjá Kristján Örn nýbúinn að snoða sig og Árna Gest með gervineglur.
Nemendur héldu heim í páskafrí föstudaginn 8.apríl og mættu aftur endurhlaðin í skólann 20. apríl, sem er nauðsynlegt þegar lokaspretturinn er eftir af þessari önn.
Nú fara næstu dagar og vikur í skipulagningu á brautskráningu nýstúdenta, en brautskráningin fer fram í íþróttamiðstöðinni á Laugum þann 14. maí klukkan 14:00.