ÍSLE3VÍ05 – Vesturferðir Íslendinga  

Þessa haustönnina fór af stað nýr áfangi í íslensku þar sem nemendur kynnast Vesturferðum Íslendinga með áherslu á vesturíslensku. Nemendur kynnast samfélagsbreytingum sem áttu sér stað og hvað varð um íslenskuna í Norður-Ameríku hjá vesturförunum. Málnotkun og orðaforði  íslenskunnar eru til umfjöllunar og hvernig hún þróaðist án tengsla við íslenskuna sem töluð var á Íslandi. Nemendur munu vinna saman að upplýsingaöflun og velja efni til að gera skapandi verkefni auk þess sem við erum í góðum tengslum við einstaklinga í Gimli. Til að mynda bauð New Iceland Heritage Museum nemendum á safnið með aðstoð netmiðla.
                Um þessar mundir eru nemendur að baka sjö laga vínartertu sem var vinsæl á seinni hluta 19. aldar og barst með Íslendingum vestur um haf og er þjóðlegt kaffibrauð hjá Vestur-Íslendingum. Í gærkvöldi var fyrsta vínartertan bökuð í tilefni þesss að 145 ár eru frá því að fyrsti Íslendingurinn fæddist í Kanada, þann 21. október 1875, daginn eftir að þeir numu land. Framundan eru skemmtileg verkefni s.s. hljóðvarp, myndbönd, leikrit, umræður o.fl. 

– Ragna Þórisdóttir

Deila