Styttist í að skólinn hefji starf að nýju

Laugaskóli er heimavistarskóli með vinnustofukerfi og okkar sérstaða felst í nánd og persónulegri aðstoð. Slíkt er erfiðara að veita í fjarnámi og því viljum við reyna að halda úti sem hefðbundnustu skólastarfi en samt þannig að við gætum fyllsta öryggis og uppfyllum allar reglur

Skólasetningin verður 30. ágúst klukkan 18:00 í íþróttahúsinu á Laugum.

  • Allir sem eru nýir nemendur í Laugaskóla eiga að mæta. (Einnig mæta þeir nemendur sem voru á Almennri braut sl. vetur en eru að hefja nám á stúdentsbrautum núna á haustönninni).
  • Eldri nemar koma viku seinna (6. september, með fyrirvara um breytingar)
  • Skólasetningunni verður streymt á Facebooksíðu Laugaskóla (facebook.com/laugaskoli)
  • Þegar forráðamenn fylgja nemendum til skólasetningar biðjum við um að einungis einn fari með unglingi sínum inn í hús skólans (herbergi, íþróttahús o.s.frv.) og menn virði sóttvarnir og fjarlægðartakmörk.

Þeir nemendur sem voru hjá okkur á stúdentsbrautum síðastliðinn vetur og þeir sem voru á Almennri braut síðastliðinn vetur og halda áfram á henni eiga EKKI að koma í skólann eða til skólasetningar og eiga EKKI að koma í heimsókn á vistirnar eða í skólann fyrstu vikuna.

Þeir eiga að koma til okkar viku seinna eða sunnudaginn 6. september. Ég vil þó biðja alla að fylgjast vel með því ef reglur verða rýmkaðar þá er líklegt að við fáum eldri nemendur til okkar fyrr og ég bið því alla að vera í startholunum.

Allir nemendur eiga að koma með andlitsgrímur og sótthreinsigel/spritt og handsápu til að hafa á herbergjum sínum. Enginn sem hefur flenslík einkenni (særindi í hálsi, höfuðverk o.s.frv.) á að koma og finni nemendur fyrir einkennum þegar þeir eru komnir í Laugar skulu þeir láta vita strax af því og halda sig á herbergjum sínum.

Einstaklingsbundnar smitvarnir (handþvottur, spritt og fjarlægðartakmörk) eru mikilvægari en nokkru sinni fyrr til þess að geta haldið úti nokkuð hefðbundnu skólastarfi og eru í raun eina leið okkar sem þjóð til að halda veirunni í skefjum.