Birt 3. september, 2019
Fyrsti hefðbundni skóladagur vetrarins var í gær, mánudaginn 2. september. Það hefur verið stíf dagskrá síðastliðna daga, en nemendur fóru í haustferð til Vopnafjarðar á föstudaginn, þar sem gist var í eina nótt. Áður en haldið var í ferðalagið var búið að skipta nemendum niður í nokkur lið, og áttu liðin að leysa allskonar þrautir og fá stig fyrir, á leiðinni til Vopnafjarðar og aftur heim. Tvær rútur lögðu af stað frá bílaplani skólans seinnipart föstudags og leiðinni var haldið beint til Húsavíkur þar sem nemendur fengu tækifæri til að kaupa skólabækur fyrir veturinn. Næsta stopp var Ásbyrgi þar sem liðin nældu sér í stig, næst var stoppað á Þórshöfn, og varð sú ferð svo fræg að við komumst á Facebook síðu sjoppunnar í bænum.
Þegar við vorum komin á áfangastað var öllu mokað út úr rútunum og grillað ofan í mannskapinn. Þeir sem vildu fóru í miðnætursund, en aðrir voru eftir í íþróttahúsinu og fóru í leiki og annað hópefli. Nemendur fengu góðan tíma til að athafna sig morguninn eftir, en við lögðum ekki af stað frá Vopnafirði fyrr en uppúr 14. Leikirnir héldu áfram, og byrjuðum við á því að fara í Sandvík þar sem liðin kepptu í kastalagerð og síðasta stoppið var hjá Dettifossi.