Birt 23. febrúar, 2018
Guðmundur Smári raungreinakennari hlaut styrk úr Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar upp á kr. 345.000 nú á dögunum til að rannsaka smádýr í Laxá. Verkefnið snýst um að fylgjast með sveiflum yfir eitt ár í smádýralífi Laxár, það er gert með því að safna sýnum mánaðarlega og greina hvaða dýr finnast í þeim. Nemendur náttúrufræðibrautar koma til með að vera virkir þátttakendur í verkefninu og kynnast þannig hvernig rannsóknarvinna í líffræði fer fram, á stærri skala en hægt er að kenna í stökum áföngum. Þess er vert að geta að nánast einungis verkefni innan háskóla hljóta styrki úr þessum sjóði og er Framhaldsskólinn á Laugum eini framhaldsskóli landsins sem hlýtur styrk úr Orkurannsóknarsjóði Landsvirkjunar.