Þorrablót og félagsvist

Þorrablót fór fram í gær, fimmtudaginn 6. febrúar í matsal skólans. Góð mæting var frá nemendum, og stjórnaði Lúðvík samkomunni, sem og fjöldasöng með aðstoð Systu. Talsvert var lagt í skemmtiatriði nemenda, en þeir fluttu grínmyndband sem var gert af myndbandsfélaginu Hnetunni. Bjössi skólastjóri var með spurningakeppni, þar sem svörin voru annað hvort já eða nei. Bríet Guðný sigraði spurningakeppnina eftir harða keppni við Guðrúnu Gísla.

Að loknu borðhaldi var spiluð félagsvist á níu borðum, undir stjórn Kristjáns G og Rögnu. Spilað var hálft spjald (tvær umferðir) og var Hafdís Hjaltalín efst kvenna en Guðmundur Gígjar karlamegin og hlutu þau bæði 92 stig. Af þessu var hin mesta skemmtan og kvöldið ánægjulegt.

 

Jöfnunarstyrkur – áttu eftir að sækja um?

Image result for student money cartoon"Nú fer hver að verða síðastur að sækja um jöfnunarstyrkinn, en það er námsstyrkur fyrir nemendur sem stunda nám á framhaldsskólastigi fjarri lögheimili og fjölskyldu. 

Umsóknarfrestur til að sækja um fyrir vorönn 2020 er til og með 15. febrúar, n.k. 

Til þess að sækja um jöfnunarstyrkinn þarf að skrá sig inn með rafrænum skilríkjum eða íslykli. Ef nemandi sækir um styrkinn eftir 15. febrúar, skerðist styrkurinn um 15%. Við hvetjum alla til að að drífa sig í því að sækja um þennan styrk. Hægt er að lesa sér til um styrkinn og sækja um hann hér 

Ný önn gengin í garð

Nú er skólinn byrjaður á ný, eftir gott og langt jólafrí. Á þessari önn byrjuðu tíu nýjir nemendur og við bjóðum þá hjartanlega velkomin til okkar.

Í desember var mikil vinna í gangi í íþróttahúsinu en þar var verið að setja nýtt gólf. Á þessu gólfi eru merktir fjórir bocciavellir, fjórir badmintonvellir, þrír körfuboltavellir, þrír blakvellir, tveir hraðastigar og einn handboltavöllur. Gólfið er tvílitt, blátt og grátt og er aðalblakvöllurinn í öðrum lit. Mun bjartara er í húsinu eftir skiptin, gólfið mýkra og meiðslahætta minni.

Síðasta önn gekk mjög vel, meðalraunmæting allra nemenda var 86,2% og 18 nemendur voru með 97% raunmætingu eða betur og ávinna sér þannig frídag á vorönninni. Meðaleinkunn skólans var einnig rúmlega hálfum hærri en hefur verið undanfarin sjö ár og enginn nemandi á 1. ári féll í nokkru fagi. Við á Laugum erum ákaflega stolt af okkar nemendum og væntum þess að vorönnin verði ekki síðri en haustönnin.

Framundan er þorrablót nemenda og starfsfólks, en það verður  í byrjun febrúar

Undirbúningur Tónkvíslarinnar er hafinn, en söngkeppnin verður haldin í 15. skipti þann 22. febrúar. Söngkeppnin fer fram í íþróttahúsinu og munu nemendur frá Fl og grunnskólnum næsta nágrennis taka þátt. Hægt er að skrá sig sem keppanda hér!

 
 

 

 

Notaleg jólastund – föndur og undirskriftir

Í gær, fimmtudaginn 4. desember, bauð Freydís Anna upp á jólaföndur í matsal skólans. Það er alltaf ánægjulegt að brjóta upp skóladaginn og leyfa sköpunargleðinni að njóta sín. Allskonar fígúrur urðu til í höndum nemenda og starfsmanna, en sumir létu sér nægja að skreyta piparkökur.

Einnig komu nemendur saman þar sem þeir gátu skrifað undir ýmis mál, þar sem brotið er á mannréttindum fólks út um allan heim, en það kallast “Þitt nafn bjargar lífi” og er á vegum Íslandsdeildar Amnesty International.

 

Þitt nafn bjargar lífi

Þitt nafn bjargar lífi (áður Bréf til bjargar lífi). Þá skrifar fjöldi fólks nafn sitt á bréf til stjórn­valda sem brjóta mann­rétt­indi og krefst rétt­lætis fyrir þolendur. Samtímis munu hundruð þúsunda einstak­linga víða um heim gera slíkt hið sama“

Í fyrra tókum við þátt og fórum með sigur af hólmi í flokknum „flestar undirskriftir miðað við nemendafjölda“ og fengum við titilinn „Mannréttindaframhaldsskóli ársins 2018“ Að sjálfsögðu munum við taka þátt í ár en málin sem tekin eru fyrir núna eru 10 talsins og snúa öll að mannréttindabrotum gegn ungu fólki á aldrinum 14-25 ára. Mörg þeirra mjög átakanleg og erfitt fyrir okkur að setja okkur í spor þessa fólks. Hér fyrir neðan eru 3 mismunandi sögur af mannréttindabrotum á ungu fólki. 

 

Yasaman Aryani er frá Íran og hlaut 16 ára fangelsisdóm fyrir að mótmæla löggjöf um höfuðslæðu í heimalandi sínu.
Yasaman og móðir hennar gengu með hárið óhulið um lestarvagn einungis ætluðum konum og dreifðu hvítum blómum meðal farþega. Þessi viðburður náðist á myndband og fór á flug á internetinu í mars 2019 og út frá því hlaut Yasaman þennan þunga dóm!

 

Mál Söruh Mardini (24 ára) og Seán Binder (25 ára) eiga yfir höfði sér 25 ára fangelsisdóm fyrir að aðstoða flóttafólk í háska við strendur Grikklands.

Magai Matiop Ngong var aðeins 15 ára gamall og dæmdur til dauða í Suður-Súdan. Hann fékk ekki lögfræðing sér til aðstoðar, og nú í dag er hann 17 ára gamall og er á dauðadeild í Juba Central-fangelsinu, þar sem hann heldur í vonina um að áfrýjun dauðadómsins nái fram að ganga og hann geti haldið skólagöngu sinni áfram.

Hægt er að lesa um öll þessi mál sem verða tekin fyrin fyrir hér 

Í byrjun desember munum við í Framhaldsskólanum á Laugum taka þátt. Eins og í fyrra, munum við eiga notalega stund á bókasafninu. Við hvetjum bæði nemendur og starfsfólk til þess að koma upp á bókasafn, lesa sögurnar og skrifa undir. Keppnin stendur frá 25. október til 31. desember 2019.

 

Dagur íslenskrar tungu haldinn hátíðlegur

Ráðstefnan „Hvernig skapa ég mína eigin framtíð“ fór fram á föstudaginn, en henni var streymt til grunnskóla- og framhaldsskólanema. Þessi ráðstefna fjallaði um það hvaða störf verða til í framtíðinni og möguleika tækni til fjarvinnu. Þetta var spennandi ráðstefna og gaman fyrir okkur að geta tekið þátt í henni.

Dagur íslenskrar tungu var haldinn hátíðlegur á föstudaginn. Nemendur og starfsfólk mættu í Þróttó þar sem þétt og skemmtileg dagskrá var í boði nemenda. Nemendurnir kynntu vefinn Samróm þar sem fólk er hvatt til þess að gefa raddsýni. Nemendur fræddu salinn um mikilvægi íslenskrar tungu, framtíð íslenskunnar og sungu að lokum lagið Fylgd eftir Guðmund Böðvarsson. Þessi dagskrá var lokaverkefni í áfanganum „Íslenska í rafrænu samfélagi“, sem er kenndur af Rögnu. 

Hátíðardagskránni lauk svo með hátíðarhádegisverði í boði mötuneytisins, hamborgarhrygg með sykurhúðuðum kartöflum og skyrtertu í eftirmat. 

Sundbíó á Laugum helgina 16.-17. nóvember

Helgina 16.-17. nóvember mun E-MAX bjóða upp á sundbíó í sundlauginni á Laugum í annað sinn. Tvær myndir verða sýndar að þessu sinni, ein hvort kvöld. Eins og áður opnar húsið 19:30 og sýning hefst klukkan 20:00. Athugið að ekki verður tekið við kortagreiðslum.

Laugardaginn 16. nóvember 2019
Home Alone

Sunnudaginn 17. nóvember 2019
Jumanji: Welcome to the jungle

Verðskrá:
Fullorðnir 1200 kr
Börn (≤12 ára) 600 kr
Mæti fólk bæði kvöldin fæst 50% afsláttur á seinni sýningu

Frekari upplýsingar er hægt að nálgast í síma 856-5834 (Birgitta) eða 847-2442 (Eyþór)

 

Góðgerðarmót VMA

Þann 7. nóvember síðastliðinn bauð VMA okkur í Framhaldsskólanum á Laugum á góðgerðarmót á Akureyri.

Nemendur Laugaskóla lögðu af stað fyrir hádegi með rútu til Akureyrar þar sem keppt var í blaki, fótbolta, bandý, badmintoni, hreystibraut, skotbolta og skottaleik. Allur ágóði rann til Barna- og unglingageðdeildar SAK á Akureyri. 

Mótið gekk mjög vel og var skemmtilegt. Við þökkum VMA kærlega fyrir að bjóða okkur að vera með í þessum degi.

Fleiri myndir frá mótinu eru að finna hér 

Útskriftarferð til Flórída

Þann 19. október s.l. hélt vaskur hópur tilvonandi útskriftarnemenda í sína útskriftarferð. Fór hópurinn til Orlando í Flórída ásamt tveimur starfsmönnum, hjónunum Hnikari íþróttakennara og Maríu námsráðgjafa, og dvaldi hópurinn í húsi rétt utan Orlando-borgar í eina viku. Ýmislegt skemmtilegt var brallað í ferðinni t.d. var farið á körfuboltaleik í NBA deildinni, keppt í gokart kappakstri, farið í vatnsrennibrautagarð og í skólakynningu.

Toppurinn á ferðinni var þó án efa heimsókn í Universal Studios skemmtigarðinn þar sem hópurinn rölti um Diagon Alley í heimi Harry Potter, barðist við geimverur í 3D leiktækjum, prófaði alla helstu rússíbanana á svæðinu og ýmislegt fleira.

Gaman var einnig að prófa spennandi veitingastaði eins og Cheesecake factory, The Red Lobster og The Waffel House svo einhverjir séu nefndir, kíkja í bíó í IMax kvikmyndahúsi og bara liggja í sólbaði á pallinum og láta sér líða vel. Einhver tími var síðan tekinn í búðarráp eins og lög gera ráð fyrir þegar Íslendingar fara til útlanda og einhverjir prófuðu golfvöllinn í nágrenni heimilisins. 

-María Jónsdóttir