Páskaleyfi

Nemendur og starfsfólk Framhaldsskólans á Laugum fara í páskaleyfi að loknum vinnudegi föstudaginn 26. mars. Skólinn og skrifstofur hans verða lokaðar í Dymbilvikunni og fram yfir páska.

Kennsla hefst aftur mánudaginn 12. apríl og heimavistir opna aftur sunnudaginn 11. apríl kl. 13:00 leyfi gildandi sóttvarnarreglur það. Nemendur og forráðamenn munu fá tölvupóst með nánari útskýringum og leiðbeiningum þegar ljóst verður hvaða sóttvarnarreglur gilda um skólastarf eftir páska. Alltaf er hægt senda póst á netfangið laugar@laugar.is og verður þeim svarað eins fljótt og auðið er. Ef málið þolir enga bið er fólki bent á að hringja í símanúmerið 848-3242. Við vonum að allir fari varlega, hugi að einstaklingsbundnum smitvörnum og njóti páskaleyfisins. Við hlökkum til að hitta ykkur aftur eftir páska.

Nýr áfangi í íslensku vekur athygli

Á haustönn 2020 var kenndur nýr áfangi í íslensku um Vesturferðir Íslendinga með áherslu á vesturíslensku, þar sem menning og tungumál vestra í Nýja Íslandi var aðalviðfangsefnið. Námið var mjög fjölbreytt og verkefnavinna skapandi. Góðum tengslum var komið á milli aðila í Kanada og nemenda hér á Laugum þar sem ýmiss konar efni barst okkur og má þar helst nefna heimsókn í New Iceland Heritage Museum með aðstoð netmiðla og upptökur frá Vestur-Íslendingum um æskuminningar forfeðra þeirra í nýju landi.

Í október sl. var svo ákveðið að baka vínartertuna, þjóðarrétt Vestur-Íslendinga, í nær 150 ár, sem vakti mikla lukku, sem greint var frá á vefsíðu Þjóðræknisfélags Íslendinga. Í samskiptum við Vestur-Íslendinga og Þjóðræknisfélag Íslendinga höfum við fengið lof fyrir áhuga á sögu Vestur-Íslendinga og það vakti einnig ánægju þegar okkur barst nú á dögum bréf frá Kanada með frétt sem birtist í Lögberg – Heimskringla um Vinartertuna og áfangann: Icelandic students learn about the emigration and vínarterta.  

ÍSLE3VÍ05 – Vesturferðir Íslendinga  

Þessa haustönnina fór af stað nýr áfangi í íslensku þar sem nemendur kynnast Vesturferðum Íslendinga með áherslu á vesturíslensku. Nemendur kynnast samfélagsbreytingum sem áttu sér stað og hvað varð um íslenskuna í Norður-Ameríku hjá vesturförunum. Málnotkun og orðaforði  íslenskunnar eru til umfjöllunar og hvernig hún þróaðist án tengsla við íslenskuna sem töluð var á Íslandi. Nemendur munu vinna saman að upplýsingaöflun og velja efni til að gera skapandi verkefni auk þess sem við erum í góðum tengslum við einstaklinga í Gimli. Til að mynda bauð New Iceland Heritage Museum nemendum á safnið með aðstoð netmiðla.
                Um þessar mundir eru nemendur að baka sjö laga vínartertu sem var vinsæl á seinni hluta 19. aldar og barst með Íslendingum vestur um haf og er þjóðlegt kaffibrauð hjá Vestur-Íslendingum. Í gærkvöldi var fyrsta vínartertan bökuð í tilefni þesss að 145 ár eru frá því að fyrsti Íslendingurinn fæddist í Kanada, þann 21. október 1875, daginn eftir að þeir numu land. Framundan eru skemmtileg verkefni s.s. hljóðvarp, myndbönd, leikrit, umræður o.fl. 

– Ragna Þórisdóttir

Skólahald á Covid tímum

Nú höfum við reynt eftir bestu getu að halda eðlilegu skólahaldi gangandi. Við höfum auðvitað þurft að fylgja sóttvarnarreglum eins og allir aðrir skólar á landinu. Við þreytumst ekki á því að hreykja okkur af nemendahópnum okkar hvenær sem við getum. Þau hafa þurft að breyta sínu daglega lífi og fylgja reglum sem breytast hratt og eru nokkuð ófyrirsjáanlegar. Það er eitthvað sem fullorðnu fólki þykir erfitt að fara eftir, hvað þá tæplega 100 ungmenni í blóma lífsins, saman komin á heimavist.

Það sem við höfum meðal annars gert til að fylgja sóttvarnarreglum skiptum við nemendahópnum upp í fjóra hópa. Kennsla fer að miklu leyti fram í hóptímum, og nota kennarar ýmsar aðferðir við að kenna fagtíma. Þegar nemendahóparnir eiga erindi inn í Gamla skóla nota þeir hvor sinn innganginn og þurfa nemendur alltaf að vera í sínum hópi. Einnig þurfa nemendur að setja upp grímu ef þau fara inn fyrir metrann.

Þessar hertu reglur hafa líka áhrif á íþróttastarf innan skólans, en íþróttirnar eru skipulagðar af Hnikarri íþróttakennara. Til dæmis er líkamsræktin einungis opin í íþróttatímum hjá Hnikarri, og því geta nemendur ekki mætt í ræktina utan íþróttatíma. Matartímar eru einnig með óhefðbundnu sniði, en nú er hver matartími fjórskiptur og borða því nemendur alltaf mat í sínum hópi, bannað er að færa borð eða stóla til í matsalnum og þurfa nemendur að halda metrabili.

Þetta hefur eðli málsins samkvæmt líka áhrif á skipulagt félagslíf innan skólans og höfum við t.d þurft að fresta Laugadraumnum sem var kominn af stað, þangað til betur stendur á.
Einnig gilda þær reglur að nemendur sem fara á höfuðborgarsvæðið, á meðan ástandið er eins og það er, ekki komið aftur í Laugar fyrr en ástandið batnar. Þá fara þeir nemendur í nám utan skóla, þangað til við getum tekið við þeim aftur. Þess vegna hvetjum við nemendur eindregið til að vera ekki á ferðinni að óþörfu. Eins og alltaf átti vetrarfríið að hefjast í næstu viku en okkur þótti ekki skynsamlegt að nemendur og starfsfólk í frí í miðjum Covid-faraldri.

Nú höldum við bara áfram veginn og eigum vetrarfríið inni þegar við sjáum betur hvernig ástandið er í samfélaginu.

 

Reglubundin heimsókn frá lögreglunni

Í gær fengum við heimsókn frá lögreglunni á Akureyri og Húsavík ásamt lögregluhundinum Kæju. Nemendum og kennurum var safnað saman í íþróttahúsinu á meðan leitinni stóð. Nemendur sýndu einstaklega mikla þolinmæði á meðan leitinni stóð og fóru í ýmsa boltaleiki til að drepa tímann. Á meðan leitaði Kæja í húsnæði skólans, en það var nauðsynlegt að hafa nemendur og kennara í annarri byggingu til þess að tíkin yrði ekki fyrir truflun.

Kæja stillir sér upp við lögreglubílinn eftir leit dagsins

Við erum ákaflega stolt af okkar nemendum, en þau sýndu góðan samstarfsvilja og voru þolinmóð á meðan leitinni stóð. Það er líka einstaklega ánægjulegt að segja frá því að Kæja fann ekki neitt, sem var eins og við bjuggumst við. Svona heimsóknir eru hluti af forvörnum skólans og eru mikilvægur liður í að halda skólanum á þeim stað sem við viljum hafa hann. Heimsókn af þessu tagi er mikilvæg og við reynum að fá hana með reglulegu millibili.

Skólareglur segja til um að öll neysla vímuvaldandi efna er bönnuð á lóð skólans, í húsum hans og í ferðalögum á hans vegum og er þeim reglum sé fylgt vel eftir.