Brautskráning 2019

Image

Ágætu Þingeyingar og velunnarar skólans.

Brautskráning nýstúdenta fer fram við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Laugum laugardaginn 18. maí kl. 14:00.
Við bjóðum ykkur öll hjartanlega velkomin að gleðjast með okkur og þiggja kaffiveitingar að athöfn lokinni í matsal skólans.
Þennan sama dag fer aðalfundur hollvinasamtakanna Vinir Laugaskóla fram í íþróttahúsinu kl. 17:00. Velunnarar skólans eru hvattir til að mæta á þann fund.

Bogfimi á Laugum

Image

Nemendur í bogfimi nýttu góða veðrið sem var til að skjóta utanhúss. Lokatíminn var á þriðjudaginn síðasta (7. maí) þar sem nemendur kepptu sín á milli. Iðunn Klara setti fyrstu örina í keppninni í miðjuna (10 stig), keppendur fá nýtt skotmark í upphafi keppninnar og þykir frábært að setja fyrstu örina í miðjuna 🙂 

Framhaldsskólinn á Laugum er Mannréttindaframhaldsskóli ársins 2018

Image

Við í Framhaldsskólanum á Laugum tókum að venju þátt í bréfamaraþoni Amnesty International, bréf til bjargar lífi, í desember síðast liðnum.  Við fórum með sigur af hólmi í framhaldsskólakeppninni í flokknum flestar undirskriftir miðað við nemendafjölda og ber skólinn því titilinn Mannréttindaframhaldsskóli ársins 2018.  Við erum að sjálfsögðu afar stolt af þessum titli og fögnum því að nemendur og starfsfólk láti sig mannréttindi varða og sýni það í verki.

Fyrir nokkru söfnuðust nemendur og starfsmenn saman í matsal skólans til að taka á móti viðurkenningarskjali og glæsilegum farandgrip.  Það voru þær Hera og Þórkatla frá Íslandsdeild Amnesty International sem komu færandi hendi, og færðu okkur einnig dýrindis köku í tilefni dagsins.

Það var Eyþór Kári Ingólfsson, forseti nemendafélagsins sem tók við verðlaunagripnum úr hendi Heru Sigurðardóttir.  Með á myndinni er Jóhanna Eydís bókasafnskennari sem sá að mestu um framkvæmd bréfamaraþonsins.

Samráðsfundur um norðlensk skólamál

Image

Ársfundur framhaldskólanna á Norðausturlandi, SAMNOR, var helgaður samfellu skólastiga. Til fundarins var boðið fulltrúum sveitarfélaga á svæðinu, stjórnendum grunnskóla og símenntunarmiðstöðva. Inngangserindi voru haldin um efnið frá sjónarhóli grunnskóla, framhaldsskóla, háskóla og símenntunarmiðstöðva. Síðan var pallborð með þátttöku fyrirlesara. Fundurinn tókst mjög vel og voru þátttakendur sammála um að á þessu svæði væru einstakar aðstæður til nýbreytni í samstarfi skólastiga.

Rætt var um sveigjanleg skólaskil grunn- og framhaldsskóla, að nemendur gætu hafið nám í einstökum greinum fyrir útskrift úr grunnskóla eða lokið útskrift fyrir lok 10. bekkjar. Einnig var rætt um námsmat og hvaða upplýsingar fælust í þeim. Á mörkum háskóla og framhaldsskóla var rætt um innihald stúdentsprófsins og þann mikla sveigjanleika sem er í framhaldsskólanum til undirbúnings undir háskólanám eftir gildistöku nýrrar námskrár og velt fyrir sér hvaða kröfur það leggur á háskóla um að skilgreina þarfir um nám fyrir háskóla. Rætt var um samstarf framhaldsskóla og símenntunarmiðstöðva, raunfærnimat, aðlögun brotthvarfsnemenda að námi og sértækt nám í tengslum við atvinnumarkaðinn.

Rædd voru samstarfsverkefni sem þegar eru í gangi á milli skóla og skólastiga og mikill áhugi kom fram um frekari samvinnu um breytingar og þróun í samstarfi á svæðinu. Umræðan bar það með sér að hér var verið að hefja samtal sem mun áreiðanlega hafa áhrif á þróun skólamála á svæðinu.

Framhaldskólarnir í SAMNOR eru: Framhaldskólinn á Húsavík, Framhaldskólinn á Laugum, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga og Verkmenntaskólinn á Akureyri.