Birt 29. maí, 2018
Það var margt um manninn þann 19. maí síðastliðinn þegar Framhaldskólinn á Laugum útskrifaði stúdenta í 26. skipti. Fjölskyldur og vinir útskriftarefna mættu ásamt útskriftar-afmælisárgöngum og þáðu kaffiveitingar að athöfn lokinni. Starfsmönnum voru veittar viðurkenningar og einnig fór fram þennan dag stofnfundur hollvinasamtakanna Vinir Laugaskóla.
Fjöldi nýstúdenta þetta árið voru 21. Erla Ingileif Harðardóttir frá Einarsstöðum í Reykjadal brautskráðist frá Framhaldsskólanum á Laugum með hæstu einkunn sem gefin hefur verið á stúdensprófi frá skólanum. Erla Ingileif dúxaði með einkunnina 9,51. Svo skemmtilega vill til að skólameistari FL Sigurbjörn Árni Arngrímsson, átti fram til þessa dags, einkunnametið sem hann setti við fyrstu brautskráningu nýstúdenta frá skólanum fyrir 25 árum síðan. Þá dúxaði Sigurbjörn Árni með einkunnina 9,50.