Skólasetning 27. ágúst kl. 18:00

Framhaldsskólinn á Laugum verður settur í þrítugasta sinn kl. 18:00 sunnudaginn 27. ágúst í íþróttahúsi skólans. Að skólasetningu lokinni verður nemendum og aðstandendum þeirra boðið upp á kvöldmat í matsal skólans. Heimavistirnar opna kl. 13:00 sama dag. Við hlökkum til að sjá ykkur öll og til komandi vetrar.

34 nýstúdentar frá Framhaldsskólanum á Laugum

Þann 20. maí voru brautskráðir 34 nýstúdentar frá Framhaldsskólanum á Laugum í blíðskaparveðri, en aldrei áður hafa svona margir verið brautskráðir frá skólanum. Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson brautskráðist af félagsfræðibraut með hæstu einkunn allra eða 9,35. Bjargey Ingólfsdóttir brautskráðist af íþróttabraut með hæstu einkunn stúlkna 8,09.  Lestu áfram →

Heimavistarskóli í sveit

Sigurbjörn Árni skólameistari FL

Framhaldsskólinn á Laugum er öðruvísi framhaldsskóli sem býður upp  á einstaklingsmiðað nám þar sem vel er haldið utan um hvern og einn og námið sniðið að þörfum hvers og eins. Skólinn er lítill heimavistaskóli í sveit með um 100 nemendum sem flestir búa saman á heimavistum skólans. Skólinn býður upp á þrjár meginstúdentsbrautir, náttúruvísindabraut, félagsvísindabraut og íþróttabraut, auk kjörsviðsbrautar þar sem  nemendur geta sett saman stúdentspróf sitt sjálfir. Einnig er boðið upp á almenna braut fyrir þá sem ekki hafa náð lokaviðmiðum grunnskóla. Skólinn byggir upp á einstaklingsmiðuðu námi og hefst skóladagurinn kl 9:10 og  lýkur kl 15:30. Nemendur eru aldrei í eyðum heldur hefur hver nemandi sitt skrifborð í vinnustofu þar sem hann getur sinnt verkefnum og heimanámi þegar hann er ekki í fagtímum. Í þessum vinnustofum eru alltaf 2-3 kennarar sem aðstoða nemendur við verkefnavinnuna og heimanámið. Af þessum sökum eiga nemendur sem sinna náminu í vinnustofum ekki að  þurfa að sinna því eftir 15:30 á daginn. Vegna þess að námið er einstaklingsmiðað  geta nemendur farið  eins hratt eða  hægt í  gegnum  námið og  þeim hentar.

Mynd: Ragna Heiðbjört Þórisdóttir

Aðstaðan á Laugum er mjög góð. Heimavistarherbergin eru 20-25 fermetrar og eru öll útbúin með sérbaðherbergi.  Mötuneyti er á staðnum þar sem nemendur fá fimm máltíðir á dag fimm (eða sjö) daga vikunnar. Þvottahús er starfrækt innan skólans þar sem er þvegið er af nemendum og þau fá þvottinn samanbrotinn. Skólinn á sitt eigið íþróttahús, lyftingasal  og líkamsræktaraðstöðu og geta nemendur notað hana  að vild sér að kostnaðarlausu. Einnig er á staðnum  sundlaug, frjálsíþrótta- og knattspyrnuvöllur og golfvöllur og þurfa nemendur ekki  að greiða  fyrir aðgang að neinu af þessu. Þráðlaust internet  er í öllum húsum  skólans (þ.m.t. íþróttahúsinu) og er aðgangur að því ókeypis. Þar að auki er góður stuðningur við nemendur í gegnum leiðsagnarkennara (umsjónakennara), náms- og starfsráðgjafa, húsbændur á heimavistum og sálfræðingur kemur einu sinni í viku.

Félagslífið er vitanlega mikið og fjölbreytt eins og gengur og gerist þegar stór hópur  ungmenna er saman allan sólarhringinn. Hæst ber Tónkvíslina, tónlistarhátíð Framhaldsskólans á Laugum, sem fram fer í febrúar ár hvert og er söngkeppni skólans sem og grunnskólanna í nærliggjandi sveitarfélögum. Henni er sjónvarpað  beint á N4 og nemendur sjá um  allan undirbúning og framkvæmd og  skólahljómsveitin spilar  undir í lögunum. Árshátíð er haldin í nóvember með hefðbundnu árshátíðarsniði,  gala kvöldverði og skemmtiatriðum. Einnig eru haldnir smærri viðburðir, s.s. Laugadraumurinn þar sem nemendur leysa ýmsar þrautir í tvær vikur, vistakeppnir þar sem vistirnar keppa sín á milli í íþróttum sem og öðrum þrautum, karlakvöld og kvennakvöld, spilakvöld  og þannig mætti lengi telja. Þar fyrir utan er svo allt „óskipulagða“ félagslífið sem fylgir lífi á heimavist.

Framhaldsskólinn á Laugum er án efa eitthvað fyrir þig. Hikið ekki við að hafa samband við okkur og/eða koma og skoða aðstöðuna. Við hlökkum til að sjá ykkur

Sigurbjörn Árni Arngrímsson
Skólameistari

Dýrafræði

Nemendur í dýrafræði krufðu laxfiska mánudaginn 20. mars í verklegum tíma. Fiskarnir voru fengnir frá fiskeldinu á Laxamýri (einn regnbogasilungur og tvær bleikjur) og þökkum við þeim kærlega fyrir það! Fiskarnir voru svo ferskir að greina mátti hjartslætti í þegar búið var að fjarlægja hjörtun úr fiskunum.

„Kynjakvótakvöld“ með Siggu Kling

Nemendafélag skólans hefur undanfarin ár staðið fyrir karla-og konukvöldi en í ár var brugðið á það ráð að fá þekktan skemmtikraft. Þar sem um tvær samkomur hefur verið að ræða þá var ákveðið að gera þetta að einni sameiginlegri kvöldskemmtun sem fékk heitið „kynjakvótakvöld“ þar sem allir nemendur skólans væru samankomnir.

Dagskráin í kvöld hófst með pizzuhlaðborði sem nemendur tóku þátt í að undirb
úa ásamt starfsfólki mötuneytis. Þegar nemendur höfðu gert pizzunum góð skil birtist hin eldhressa „Sigga Kling“ og skemmti nemendum fram eftir kvöldi þar sem hún fór á kostum.

Vel heppnuð skólakynning

Kristinn Ingi, María og Bjarni Þór

Kristinn Ingi tilbúinn með kynningarspjöldin

Skólinn var með bás á framhaldsskólakynningu í Laugardalshöll um helgina. Það voru Sigurbjörn Árni skólameistari, María námsráðgjafi og Kristinn Ingi kerfisstjóri í aðalhlutverkum og nutu stuðnings nokkurra fyrrverandi nemenda skólans. Mikil aðsókn var í kynningarnar og voru margir áhugasamir um skólann okkar. Við þökkum þeim nemendum sem aðstoðuðu við kynninguna kærlega fyrir þeirra framlag.

Leiklist og æfingar

Nú á vorönn hófst leikstarfsemi þar sem Leikdeild Eflingar hóf æfingar á Skilaboðaskjóðunni eftir Þorvald Þorsteinsson. Leikstjóri sýningarinnar er Hörður Þór Benónýsson og tónlistarstjóri er Pétur Ingólfsson.  Margir nemendur skráðu sig til leiks og eru því í óða önn að samlesa þessa dagana ásamt öðrum einstaklingum í nærsamfélaginu. Æfingar fara fram öll virk kvöld í félagsheimilinu að Breiðumýri þannig að nóg er um að vera hjá nemendum að loknum hefðbundnum skóladegi. Áætlað er að sýningar muni hefjast fyrir páskafrí og verður nánar greint frá því síðar.

Samlestur á Breiðumýri

Framhaldsskólakynning í Laugardalshöll

Mín framtíð – Framhaldsskólakynning & Íslandsmót verk- og iðngreina 2017

Sigurbjörn Árni skólameistari verður m.a. á svæðinu á fimmtudag og föstudag. Hann getur lýst fyrir ykkur Framhaldsskólanum á Laugum. (Myndin er fengin frá ruv.is)

Framhaldsskólakynning verður haldin dagana 16. – 18. mars 2017 í Laugardalshöllinni. Þarna gefst einstakt tækifæri til að kynna sér fjölbreytt námsframboð framhaldsskóla landsin en starfsfólk og nemendur 26 skóla munu miðla upplýsingum og fróðleik um námið, félagslífið og framtíðarmöguleikana.

Á sama tíma fer fram í Höllinni Íslandsmót iðn- og verkgreina. Um 150 keppendur munu taka þátt í Íslandsmótinu og keppt verði í 21 iðngrein. Nokkrar greinar til viðbótar verða með kynningu á störfum en alls taka 27 iðn- og verkgreinar þátt  í ár. Fagreinarnar bjóða einnig upp á „Prófaðu“ svæði þar sem gestir fá að fikta, smakka og upplifa.

Von er á um 8 þúsund grunnskólanemendum í 9. – 10. bekk alls staðar af landinu í Höllina til að kynna sér námsmöguleika og fjölbreytni iðngreina. Þessi heimsókn er hugsuð sem liður í náms- og starfsfræðslu þessara nemenda og einn liður í að styrkja nemendur í að taka upplýsta ákvörðun um náms- og starfsval.

Á laugardeginum eru fjölskyldur sérstaklega velkomnar. Gefst þá einstakt tækifæri til að snerta og upplifa ýmislegt skemmtilegt sem snertir nám og störf í iðn- og verkgreinum. Team Spark kynnir rafmagnsbíl og einnig verður í boði að smakka upp á kræsingar sem útbúnar hafa verið í keppninni.

Dagskráin fer fram í Laugardalshöll og er opið fyrir gesti sem hér segir:

  • Fimmtudaginn 16. mars kl. 9 – 16
  • Föstudaginn 17. mars kl. 9 – 16
  • Laugardaginn 18. mars kl. 10 – 14
    • Laugardagurinn er fjölskyldudagur, fræðsla og fjör

Allir velkomnir – enginn aðgangseyrir!