Birt 7. nóvember, 2019
Þann 19. október s.l. hélt vaskur hópur tilvonandi útskriftarnemenda í sína útskriftarferð. Fór hópurinn til Orlando í Flórída ásamt tveimur starfsmönnum, hjónunum Hnikari íþróttakennara og Maríu námsráðgjafa, og dvaldi hópurinn í húsi rétt utan Orlando-borgar í eina viku. Ýmislegt skemmtilegt var brallað í ferðinni t.d. var farið á körfuboltaleik í NBA deildinni, keppt í gokart kappakstri, farið í vatnsrennibrautagarð og í skólakynningu.
Toppurinn á ferðinni var þó án efa heimsókn í Universal Studios skemmtigarðinn þar sem hópurinn rölti um Diagon Alley í heimi Harry Potter, barðist við geimverur í 3D leiktækjum, prófaði alla helstu rússíbanana á svæðinu og ýmislegt fleira.
Gaman var einnig að prófa spennandi veitingastaði eins og Cheesecake factory, The Red Lobster og The Waffel House svo einhverjir séu nefndir, kíkja í bíó í IMax kvikmyndahúsi og bara liggja í sólbaði á pallinum og láta sér líða vel. Einhver tími var síðan tekinn í búðarráp eins og lög gera ráð fyrir þegar Íslendingar fara til útlanda og einhverjir prófuðu golfvöllinn í nágrenni heimilisins.
-María Jónsdóttir