Þvottakonurnar voru eins og mömmur okkar 

Birt 2. október, 2025

Minningar frá fyrri nemanda á Laugum: „Geðveikt gaman, bestu skólaárin mín“

Framhaldsskólinn á Laugum hefur mótað líf margra nemenda í gegnum tíðina.

Við ræddum við fyrrverandi nemanda sem hóf nám á Laugum árið 1988 og rifjaði upp skemmtilegar minningar frá sínum skólaárum.

Einstakur tími og bestu skólaárin mín 

Nemandi hóf nám haustið 1988 og var fyrst á vistinni á gamla skóla, sem er núna almenna braut, en var síðar á vistinni Dvergasteinn og lýsir skólagöngunni á Laugum sem einstökum tíma. „Þetta voru bestu skólaárin mín, geðveikt gaman,“ segir hún og leggur áherslu á að félagslífið hafi verið það sem stóð upp úr. „Félagsskapurinn var það skemmtilegasta. Það var svo gaman að kynnast mörgu skemmtilegu fólki, bæði nemendum og kennurum, sem maður gleymir aldrei,“ segir hún og rifjar upp að íþróttir hafi verið stór hluti af daglegu lífi. „Allir fóru í íþróttahúsið eftir skóla. Svo var ljósmyndaklúbbur, vikuleg vídeókvöld og auðvitað hangið inni á herbergjum, þrátt fyrir að þau væru lítil.“

Gömul mynd af Dvergasteini

 
Margir samnemendur orðnir kennarar og stjórnendur við skólann

Hún segir að mikið hafi breyst síðan hún stundaði nám á Laugum. „Það eru nýjar byggingar, nýjar vistir og skipulagið í kennslustofum hefur tekið miklum breytingum, sérstaklega í gamla skólanum,“ útskýrir hún og bendir á að margir sem voru samnemendur á sínum tíma séu í dag orðnir kennarar og stjórnendur við skólann.

Skólameistari Framhaldsskólans á Laugum fyrir miðju Sigurbjörn Árni Arngrímsson á útskriftarmynd sinni frá Framhaldsskólanum á Laugum

 
Þvottakonurnar voru eins og mömmur okkar 

Maturinn var að hennar mati mjög góður en hún leggur þó áherslu á eitt atriði sem hún vill ekki gleyma og það eru þvottakonurnar. „Þær voru eiginlega eins og mömmur okkar. Þær pössuðu svo vel upp á okkur, gáfu góð heimilisráð ef við vorum slöpp og komu jafnvel með heitt kakó þegar við vorum með magaverki,“ segir hún.

Laugalífið snýst um vináttu og öll skemmtilegu augnablikin sem gera skólaárin ógleymanleg

Sögur eins og þessar minna okkur á hvað Laugalífið snýst um, vináttuna, stemninguna og öll skemmtilegu augnablikin sem gera skólaárin ógleymanleg. Margt hefur breyst frá 1988, en andinn á Laugum er enn sá sami.

Fréttaskrif:  Aþena Emma Guðmundsdóttir 

Deila