Staður með hjarta, skóli með sál og umhverfið fullkomið

Birt 1. maí, 2025

Viðmælandi vikunnar er Viktoría Blöndal. Viktoría Blöndal útskrifaðist frá VMA af listnámsbraut – textíl og hönnun árið 2010. Fékk svo BA gráðu frá Listaskóla Íslands af sviðshöfundabraut árið 2015. Frá útskrift hefur Viktoría leikstýrt leikritum og var tilnefnd sem leikstjóri ársins 2023 fyrir verkið Óbærilegur léttleiki knattspyrnunnar. Einnig hefur hún starfað við þáttagerð á RÚV og gert þar nokkur hlaðvörp og nú síðast skrifaði hún og leikstýrði hún verkinu Nærbuxunum í Hamraborg.

Skólinn breytti mér á allan hátt 


Ég kom á Lauga 2001 og var í tvo vetur. Svo þegar kærastinn og bestu vinirnir útskrifuðust þá fluttum við yfir á Akureyri.
Vera mín þessa tvo vetur á Laugum gerði líf mitt að því sem það er í dag og ég fæ þessum stað og skólanum aldrei þakkað nógsamlega fyrir allt. Ekki bara það að ég kynnist manninum mínum í dag, þarna fyrir 22 árum síðan og í dag eigum við þrjú börn, þá kynntist ég líka mínum bestu vinum og höldum við enn sambandið í dag. En þá breytti skólinn mér á allan hátt.

Þarna var í fyrsta skipti hlustað á mig

Ég get ekki sagt að ég hafi verið mikill námshestur en þó hafði ég t.d. mikinn áhuga á t.d. íslensku og bókmenntum og var það metið og ég fékk að læra í gegnum bækur sem ég las. Þarna var í fyrsta skipti hlustað á mig og hugað að því hvernig ég gæti komist í gegnum námsefnið án þess að líða alltaf eins og algjörum aula. Það er stórkostlegt fyrir 16 ára gamla stelpu sem alltaf hafði verið sett í skammarkrókinn fyrir allt að finna að ég gat lært. Það er ómetanlegt.

Staður með hjarta, skóli með sál og umhverfið fullkomið

Kennarar og fólkið sem vann í skólanum gerði alltaf allt til að manni liði vel og hvar sem maður kom, hvort sem það var til Sverris til að tappa af hjartanu eða þó að maður hafi gleymt að koma með þvottinn sinn á réttum tíma eða hafi misst af mat þá var manni tekið opnum örmum og gefið allt sem maður þurfti.

Viktoría á Laugum í Reykjadal og Sverrir Haraldsson sem kenndi henni á sínum tíma.


Ég myndi mæla með Laugum fyrir allan heiminn. Staður með hjarta, skóli með sál og umhverfið fullkomið.

Þvílík fegurð í þessum lokaorðum og við þökkum Viktoríu innilega fyrir frábært viðtal.

Fréttaskrif Sólborg Matthíasdóttir.

Deila