Listaverk fyrir Laugaskóla

Birt 28. mars, 2025

Hundrað ára saga 

Bygging Laugaskóla hófst þann 26.maí árið 1924 eftir mikla þrautagöngu vaskra manna er vildu að í héraðinu risi skóli. Alþýðuskóli Þingeyinga hóf göngu sína rúmlega ári síðar eða þann 25.október árið 1925.

Í tilefni af því að Framhaldsskólinn á Laugum verður 100 ára þann 25.október næstkomandi þá var stofnuð sérstök afmælisnefnd. Í henni sitja Kristján Guðmundsson, Hjördís Stefánsdóttir,  Arnór Benónýsson og Sigurbjörn Árni Arngrímsson.

Margt er í bígerð vegna afmælis skólans og má þar nefna áfangann Sögu Laugaskóla sem Ragna Heiðbjört kennari við skólann sér um. Þar fara nemendur hennar vel yfir sögu skólans frá upphafi og vinna áhugverð verkefni sem fróðlegt verður að skoða þegar að afmælinu kemur. Einnig var ákveðið að fá listakonuna Höllu Gunnarsdóttur listakonu í að hanna styttu fyrir skólann í tilefni af 100 ára áfanganum.

Aðeins um listakonuna Höllu Gunnarsdóttur

Halla Gunnarsdóttir fæddist í Reykjavík árið 1974. Hún stundaði nám við Listaháskólann í Flórens í Flórens á Ítalíu á árunum 1994-1996 ásamt því að stunda nám eina önn við Surikov Akademíuna í Moskvu 1995. Hún lauk B.A. námi  frá The New School í New York 1999 og M.F.A í myndlistarakademíunni í New York árið 2003. Við útskrift hlaut hún NYAA skúlptúrstyrkinn. Hún er einnig með MBA-gráðu frá Sorbonne í París.

Hér fyrir neðan má sjá myndir af verkum eftir listakonuna. Einnig setjum við hér með tvær vel þekktar styttur eftir Höllu sem eru staðsettar á Selfossi og í Reykjavík.

Halla listakona að störfum

 

Tómas Guðmundsson eftir Höllu Gunnarsdóttur

Styttan sýnir Tómas sem ungan mann þar sem hann situr á bekk við göngustíg við suðurenda Tjarnarinnar í Reykjavík. Jakkaföt hans og hárgreiðsla gefa skírskotun til fjórða áratugar síðustu aldar þegar ljóðabókin „Fagra veröld“ kom út. Setjast má hjá honum á bekkinn og njóta þess að virða fyrir sér það umhverfi sem hann gerði að yrkisefni.

Egill Thorarensen eftir Höllu Gunnarsdóttur

Halla gerði einnig styttu af Agli Thorarensen. Egill var mikill athafnamaður á Suðurlandi í áratugi og ruddi Selfoss braut, sem höfuðstað Suðurlands og Þorlákshöfn, sem hafnarbæ.

Framvinda listaverksins fyrir Framhaldsskólann á Laugum tekið af instagram síðu Höllu

 
Sýnum hlýhug

Saga Laugaskóla er saga allra þeirra sem hafa starfað eða stundað nám við skólann í þau hundrað ár sem skólinn hefur starfað. Saga Laugaskóla er einnig baráttusaga þeirra sem hafa með kjarki og sameiningu haldið merki skólans á lofti og stuðlað að því að þessi litli heimavistarskóli fær að dafna og blómstra nú sem aldrei fyrr. Við viljum hvetja alla með hlýhug að styðja við skólann okkar og taka þátt að gefa skólanum styttu að gjöf.

 Einu sinni laugamaður ávallt laugamaður

 

 

 

 
Deila