Vikulega viðtalið

Birt 26. febrúar, 2025

Fimmti viðmælandinn í okkar vikulegu viðtölum við fyrrum nemendur skólans er Stefán Jakobsson,

betur þekktur sem Stebbi Jak. Stebbi Jak er löngu orðin landskunnur sem sóló söngvari og sem söngvari hljómsveitarinnar Dimmu.

Hann tók nýverið þátt í söngvakeppni fyrir Eurovision 2025 á Rúv þar sem hann náði frábærum árangri.

Stefán býr i Mývatnssveit sem er í um hálftíma fjarlægð frá Framhaldsskólanum á Laugum. Stefán stundaði nám við Framhaldsskólann á Laugum á árunum 1995 -1997.

Í fyrra viðtali við Stebba sem tekið var fyrir nokkrum árum hafði hann meðal annars þetta að segja.

Þegar ég var á Laugum þá var slatti af tónlistarmönnum og upprennandi tónlistarmönnum. Ég ætlaði að vera bassaleikari en það vantaði hins vegar ekki bassaleikara, en hins vegar vantaði trommuleikara. Þannig að ég tók það að mér að vera trommuleikari í hljómsveitinni Lísa á leið í meðferð og í hljómsveitinni Kynórar Kristófers, þar sem ég steig mín fyrstu skref á ballmarkaðinum. Þarna var ég fimmtán ára gamall.

Þetta var mikið ævintýri og félagslífið á Laugum almennt mjög skemmtilegt. Maður gat alltaf fundið sér eitthvað, og við gátum búið til klúbba utan um nánast hvað sem er. Bara ef þér datt eitthvað í hug þá var bara fundin einhver kompa til þess að búa til félagsskap utan um það.

Og nú hefur hann þetta að segja.

Það er dýrmætt að vera þátttakandi í litlu samfélagi með stórt hjarta

Það er ekkert eitt sem stendur upp úr. Það er bara heildarpakkinn á Laugum. Vinirnir, starfsfólkið, félagslífið, maturinn og samfélagið í heild. Ég get hiklaust mælt með Laugaskóla. Það er dýrmætt að vera þátttakandi í litlu samfélagi með stórt hjarta. Skólinn fyrir utan skóla er ekkert síðra

Við þökkum Stebba Jak fyrir afar gott viðtal.

 

 

Deila