Vikulega viðtalið

Birt 13. febrúar, 2025

Þriðji viðmælandinn í okkar vikulegu viðtölum við fyrrum nemendur Framhaldsskólans á Laugum er Þráinn Árni Baldvinsson. Þráinn Árni Baldvinsson er gítarleikari í þungarokkssveitinni Skálmöld sem slegið hefur í gegn, bæði hérlendis og erlendis. Þráinn stundaði nám við Laugaskóla árið 1992 – 1993.

Þróttó var aðalstaðurinn 

 

Ég var einn vetur í Laugaskóla, 1992-1993, var á Húsó, langbestu heimavistinni. Að hafa stundað þarna nám er kannski fullvel í árina tekið, ég var bara að hugsa um að spila á gítar og hafa gaman. Vatnsstríðin á heimavistinni voru t.d. á pari við helstu sjóorrustur mannkynssögunnar. Þróttó var svo aðalstaðurinn en við vorum með hljómsveitaræfingar alla daga og nánast öll kvöld. Hljómsveitabröltið er líka ástæðan fyrir því að ég var mikið á Laugum veturinn áður, þá var mér skutlað á hljómsveitaæfingar um helgar og mig minnir við höfum spilað nokkur gigg það árið, í matsalnum og í íþróttahúsinu, það var gríðarstórt og mikilvægt gigg. Já og svo var auðvitað Norðurhjararokk, mögulega var það þó eitthvað fyrr, þungarokkstónleikar í þróttó! Stórkostlegt! Mér finnst stundum ég hafi verið tvo vetur á Laugum út af öllu hljómsveitabröltinu. Það kom því aldrei annað til greina en fara í lauga eftir 10. bekk, tónlistin var númer eitt og vinir mínir í hljómsveitinni flestir í skólanum eða á leiðinni í skólann.

 

Það sem er minnistæðast er Þróttó Þróttó Þróttó

 

Þróttó, Þrótto og Þróttó, vinirnir, körfubolti í íþróttahúsinu og svo fórum við auðvitað alla leið í sjónvarpið í Gettu betur. Þar spiluðum við Magni á kassagítara undir gríðargóðum söng eldri nemenda sem samið höfðu gamanvísur um M.R.-inga. Við vorum klárlega ekki með svalasta atriðið, þar voru M.R.-ingarnir sigurvegararnir með Ólaf Darra, stórleikara, fremstan í flokki. En skólameistarinn, Sigurbjörn Árni,  stóð sig afar vel í sjálfri keppninni og allir laugalimir héldu stoltir en um leið pínu tapsárir heim á leið.

 
Dóttir mín er ánægð í skólanum

 

Ég mæli hiklaust með þessum skóla í dag einfaldlega af því að ég hefði viljað vera nemandi í þessu fyrirkomulagi sem núna er. Þetta kerfi hefði hentað mér mjög vel. Mér finnst líka frábært að Elísabet, dóttir mín, ákvað að fara í Laugar, hún er mjög ánægð í skólanum. 

 

Við þökkum kærlega fyrir afar gott og skemmtilegt viðtal.

 

 

 

Deila