Birt 5. febrúar, 2025
Annar viðmælandinn í okkar vikulegu viðtölum við fyrrum nemendur Framhaldsskólans á Laugum er Heiða Björg Kristjánsdóttir.
Heiða lauk BA prófi við iðjuþjálfun frá Háskólanum á Akureyri og starfar sem iðjuþjálfi við hjúkrunarheimilið Lögmannshlíð á Akureyri.
Heiða var í Framhaldsskólanum á Laugum á árunum 2006-2009 og er sú þriðja frá vinstri í neðri röð á myndinni hér fyrir neðan.
Heiðu er einnig margt til lista lagt því í skólanum hangir listaverk eftir hana ásamt því er hún afar góð í prjónamennskunni.
Hún hefur prufuprjónað fyrir síðuna stroff.is í mörg ár stroff.is og einnig má sjá verk eftir hana í prjónabókinni Unu sem kom út árið 2020 og í bókunum Prjón er snilld og Prjónadraumar.
Árshátíðirnar voru mjög hátíðlegar
Það er margt sem leitar á hugann þegar ég hugsa til baka hvað hafi verið minnistæðast við dvöl og nám í Framhaldsskólanum á Laugum. Þar ber helst að nefna árlegu árshátíðirnar sem voru haldnar mjög hátíðlegar. Allir fóru þá í sitt allra fínasta og það var mikill og skemmtilegur undirbúningur fyrir árshátíð, s.s. vistaratriði, skreytingar og fleira. Það var alltaf líf og fjör í íþróttahúsinu á Laugum eftir skóla. Ræktin og sund var vinsælast hvort sem var fyrir eða eftir skóla.
Góður matur í Laugaskóla
Eitt verð ég að nefna, þrátt fyrir að vera dóttir kokksins, að ég held að flestir ef ekki allir muni tengja við það hvað það er góður matur í Laugaskóla og slíkt skiptir máli. Það var alltaf sama stuðið að bíða eftir hamborgurunum á þriðjudögum og svo ég tali nú ekki um grjónagrautinn á föstudögum, þetta eru litlu atriðin sem skipti svo miklu máli
Í Laugaskóla er lagður metnaður i að mæta þörfum hvers og eins
Ég get svo sannarlega mælt með Framhaldsskólanum á Laugum fyrir alla, ég segi aftur fyrir alla – vegna þess að í Laugaskóla er lagður einstaklega mikill metnaður í að mæta þörfum hvers og eins, námslega og félagslega. Þegar ég var nemandi á Laugum var verið að taka upp svokallað vinnustofukerfi. Það hentaði mér einstaklega vel því þá gat maður forgangsraðað betur því sem þurfti að vinna að, studdi mann í sjálfstæðu námi og var hvatning til að skipuleggja sig vel. Ég er svo lánsöm að hafa alist upp á Laugum og átt heima í Dvergasteini, í einu af heimavistarhúsnæðunum. Ég hef því séð frá unga aldri hvað það var alltaf mikil gleði í kringum Laugaskóla.
Laugaskóli á sérstakan stað í hjarta mínu
Á Laugum er gott að vera, það get ég staðfest, þar myndast einstaklega góður andi, það eru flestir að upplifa það sama – að fara að heiman og stíga sín fyrstu skref á nýjum stað. Þegar skóladegi lýkur þá er einungis hluta af deginum lokið, samvera við vini heldur áfram það sem eftir er dags, síðan hittast allir aftur í kvöldmat og enn og aftur í kvöldkaffi. Á Laugum eignaðist ég vini fyrir lífstíð og það er sannarlega dýrmætt.
Laugaskóli á sérstakan stað í hjarta mínu – takk fyrir að hafa gefið mér gott veganesti út í lífið.
Við þökkum Heiðu kærlega fyrir viðtalið og fyrir afar falleg lokaorð.