Birt 31. janúar, 2025
Fyrsti viðmælandinn í okkar vikulegu viðtölum við fyrrum nemendur Framhaldsskólans á Laugum er Hildur Ingólfsdóttir. Hildur útskrifaðist sem kírópraktor frá AECC University College í Bournemouth, Englandi. Auk þess kláraði Hildur BS gráðu í Íþrótta- og heilsufræði frá HÍ. Hún býr á Akranesi og starfar þar sem kírópraktor.
Nám á Laugum
Ég var á Laugum árin 2008-2012 með eins árs pásu inn á milli. Ég fór í VMA árið 2010-2011 en eftir mikinn söknuð ákvað ég að fara til baka og náði að útskrifast með vinum mínum í Framhaldsskólanum á Laugum.
Leikritin voru minnistæðust
Minnistæðast frá Laugum voru leikritin, ég tók þrisvar þátt með leikdeild Eflingar þegar við settum upp Kvennaskólaævintýrið, Ólafía og síðan í Gegnum tíðina. Ég var ekki á heimavistinni og fannst ég stundum út úr vistarlífinu, en með því að taka þátt í leikritunum þá kynnist ég helling af krökkum, við urðum öll svo náin og þetta ýtti manni út fyrir þægindarammann og þroskaði mann.
Flesta daga í íþróttahúsinu eftir skóla
Ef ég lít síðan yfir árin þá stendur íþróttahúsið upp úr eftir skóla. Ég var þar flesta daga, annað hvort var ég í fótbolta með stelpunum eða strákunum. Það var ævinlega pottur eftir bolta þar sem slúður og trúnó átti sér stað. Ég elskaði vinnustofur þar gat ég unnið upp allt heimanám svo ég gæti nú eytt flestum dögum eftir skóla í íþróttahúsinu eða á Breiðumýri að setja upp leikrit. Vinnustofurnar voru líka nýttar í fíflagang og að fá skammir frá kennurum. Mamma var reyndar ritari í skólanum á þessum tíma þannig hún frétti allt strax!
Fleira sem stendur upp er að sjálfsögðu Tónkvíslin, ég tók ekki sjálf þátt en ég sá um hár og förðun. Síðan má ekki gleyma árshátíðunum, vistaratriðinu þar sem Hildigunnur lánaði okkur fjósið sitt fyrir myndskeið. Skarphéðinn í dragkeppninni stærðfræðin hjá Halli, sálfræðin hjá Rögnu og bullið í Hnikari í íþróttum.
Ég eignaðist vini til lífstíðar
Námslega var þessi skóli fullkominn fyrir mig, þetta jafnvægi á milli kennslustunda og vinnustofu gerði það að verkum að ég tók námið á mínum hraða. Ég tók margar einingar fyrstu tvö árin en átti þá síðasta árið til að sinna félagslífinu betur og taka út alla skemmtunina. Smá djamm mögulega, fyrirgefðu Fjölnir þegar við lituðum á þér hárið. Á Laugum var gott að vera og ég eignaðist vini til lífstíðar. Ég hugsa til baka með hlýju í hjarta og vona að aðrir fái að upplifa góð ár á Laugum.
Kærleikurinn sterkari og vinasamböndin verða betri
Ég mæli klárlega með Laugum. Þegar allir eru saman komnir og fastir út í sveit í heimavistarskóla in the middle of nowhere eins og ein vinkona mín úr Keflavík sagði þegar hún mætti á Lauga í fyrsta skiptið, þá verður nándin meiri, kærleikurinn sterkari og vinasambönd betri. Persónulegri tengsl myndast á milli nemanda og kennara sem gerir námið og dvölina auðveldari. Ég tala nú ekki um hversu þroskandi það er fyrir 16 ára krakka að flytja á heimavist og þurfa hugsa um sig sjálfur. Ég missti aðeins af því.
Við þökkum Hildi kærlega fyrir afar skemmtilegt viðtal.